Á að auka völd forseta eða leggja embættið niður?

Forsetakosningar hafa alltaf verið svolítið ófyrirsjáanlegar á Íslandi. Þjóðin virðist frá upphafi hafa litið svo á, að forsetakjör væri hennar yfirráðasvæði og þótt málsmetandi menn stjórnuðu landinu væri það ekki þeirra að stjórna því hverjir væru forsetar hverju sinni.

Raunar stóð ekki til þegar unnið var að undirbúningi lýðveldisstofnunar, að þjóðin kæmi nálægt forsetakjöri. Hugmyndir hinna „ráðandi afla“ voru þær, að forseti lýðveldisins yrði kjörinn af Alþingi eins og gert var í upphafi, þ.e. á Þingvöllum 17. júní 1944.

Um þetta fjallaði Finnbogi Rútur Valdemarsson, ritstjóri Alþýðublaðsins á fjórða tug síðustu aldar og síðar alþingismaður fyrir Sameiningarflokk alþýðu – Sósíalistaflokk og í framhaldi af því Alþýðubandalags, í grein sem hann skrifaði fyrir forsetakosningarnar 1980 en sennilega var aldrei birt. Hún fannst fyrir skömmu í fórum hans og var birt um síðustu helgi á heimasíðu minni (styrmir.is) en þar segir:

„Það getur ekki verið neitt leyndarmál að það var tillaga mikils meirihluta stjórnarskrárnefndar, sem skipuð var 8 mönnum, tveimur frá hverjum þingflokki, og hafði samið það frumvarp til stjórnarskrár fyrir lýðveldið Ísland, sem lagt var fram á Alþingi 1944, að forseti Íslands skyldi vera kosinn af sameinuðu Alþingi.

Í fundargerð 19. fundar nefndarinnar 29. marz 1944 er bókað:

„samþ. með 6 gegn 2 atkv. að forseti skyldi kjörinn af Sameinuðu þingi“.

En Alþingi 1944 var einstakt um margt, m.a. að það taldi stórháskalegt að íslenzk þjóð fengi nokkurn pata af því að hinn allra minnsti ágreiningur væri á Alþingi um þau mál, sem átti að leggja fyrir þjóðina til atkvæðagreiðslu þá um vorið. Þessi mál voru:

1. Sambandsslit við Danmörku með uppsögn sambandslaganna frá 1918.

2. Stofnun lýðveldis á Íslandi.

Deilur um það, hvernig sambandsslitin skyldu fara fram eða hvernig stjórnarskrá hið nýja lýðveldi skyldi hljóta, voru taldar stórháskalegar.

Þess vegna var það að þótt yfirgnæfandi meirihluti Alþingis kysi heldur að forseti lýðveldisins yrði kjörinn af Alþingi, varð að samþykkja þjóðkjör hans. Menn vissu þá og sumir höfðu orð á því, að yrði forsetinn ópólitískur og valdalaus, yrði ekkert fyrir kjósendur að fara eftir og láta varða atkvæði sitt nema persónuleiki manns eða manna, sem vildu bjóða sig fram.“

Í fyrsta skipti sem þjóðkjör fór fram um forseta, urðu ótrúleg tíðindi að mati manna á þeirri tíð. Frambjóðandi tveggja stærstu flokkanna, Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, séra Bjarni Jónsson, sem beinlínis var fenginn í framboð með tilmælum forystumanna þessara tveggja flokka, náði ekki kjöri. Ásgeir Ásgeirsson var kjörinn.

Sumarið 1952, þegar þessi kosning fór fram, var ég í sveit í Flókadal í Borgarfirði. Heimilisfólkið hafði sínar skýringar á því, sem gerzt hafði en flest þeirra, ef ekki öll, höfðu sótt alþingishátíðina á Þingvöllum sumarið 1930. Þá var Ásgeir Ásgeirsson forseti Sameinaðs Alþingis og þau töldu að glæsileiki hans og framkoma öll í því hlutverki, m.a. í samskiptum við erlenda sendimenn, hefði verið með þeim hætti, að Ásgeir hefði öðlast fastan samastað í þjóðarsálinni og þess vegna verið kjörinn.

Aðrir skýrðu kjör Ásgeirs á þann veg að fólkið í landinu til sjávar og sveita hefði ákveðið að þessu mundi það ráða.

Sextán árum seinna gerðist það sama. Þá sóttist Gunnar Thoroddsen, tengdasonur Ásgeirs eftir því að verða eftirmaður tengdaföður síns. Gunnar hafði verið með eindæmum vinsæll sem borgarstjóri í Reykjavík og unnið stórsigur í borgarstjórnarkosningunum 1958 auk þess að ganga í berhögg við forystu Sjálfstæðisflokksins 1952 með því að styðja tengdaföður sinn gegn vilja flokksforystunnar.

Fljótt kom í ljós að það var þungt undir fæti m.a. vegna þess að þjóðinni, sem tekið hafði valdið í sínar hendur 1952 fannst ekki við hæfi að sama fjölskylda sæti á Bessastöðum áratugum saman. Kristján Eldjárn var kjörinn.

Tólf árum síðar hafði tíðarandinn breytzt á þann veg að þá var orðinn til jarðvegur fyrir því að kjósa konu á Bessastaði. Og 1996 var vinstri sinnaður stjórnmálamaður, kjörinn á ný til setu á Bessastöðum, Ólafur Ragnar Grímsson, þótt almannarómur teldi að vísu, að glæsileiki fyrri eiginkonu hans, Guðrúnar Katrínar Þorbergsdóttur, hefði ekki átt lítinn þátt í þeim sigri.

Það sem greinir forsetakosningarnar nú frá þessum fyrri kosningum er að nú eru uppi meiri álitamál um forsetaembættið sem slíkt. Til eru þeir sem telja að leggja eigi þetta embætti niður og í þeim hópi er höfundur þessarar greinar. En ljóst má vera að enn sem komið er eru þeir sem eru þeirrar skoðunar lítill minnihluti.

En á að auka völd forsetans? Er Alþingi orðið svo veikburða að nauðsynlegt sé að forsetinn hafi meiri völd til að grípa inn í en frjálsleg túlkun á ákvæðum gamallar stjórnarskrár hefur hingað til leyft?

Það er eðlilegt að þessar spurningar verði ræddar í kosningabaráttunni og frambjóðendur upplýsi, hver um sig, um afstöðu sína til þessara álitamála.

Sumir telja nauðsynlegt að forseti geti gripið inn í stjórn landsins við erfiðar aðstæður.

Aðrir eru hins vegar þeirrar skoðunar og þeirra á meðal er greinarhöfundur að við slíkar aðstæður eigi þjóðin sjálf að grípa inn í með þjóðaratkvæðagreiðslum.

Þetta eru áhugaverðar spurningar og um þær geta þróast skemmtilegar umræður eins og vera ber í lýðræðisríki.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is