Margir lögðu land undir fót í gær enda fyrsta ferðahelgi ársins runnin upp. Gærdagurinn gekk ekki áfallalaust fyrir sig en miklar tafir urðu á umferð þegar harður árekstur varð undir Hafnarfjalli á sjöunda tímanum í gærkvöld þegar tveir bílar lentu saman. Einn var í öðrum bílnum og sjö í hinum, sem er lítil rúta. Sá sem var einn í bílnum var fluttur á heilsugæslu í Borgarnesi til aðhlynningar en talið er að meiðsli hans séu ekki alvarleg.
Þá valt bíll í gærkvöld við Hafrafell, norðan við Fellabæ á Fljótsdalshéraði. Tvær konur voru í bílnum og voru þær fluttar suður til Reykjavíkur með sjúkraflugi frá Egilsstöðum.
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu voru konurnar báðar með meðvitund.