Fordómarnir í garð einkarekstrarins mættu fara að heyra sögunni til

Fátt þola þingmenn vinstri flokkanna verr en að einkaaðilar komi að rekstri fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Þetta er Katrínu Jakobsdóttur, formanni Vinstri grænna, til að mynda afar hugleikið eins og heyra má í umræðum á Alþingi.

Í vikunni fann hún enn einu sinni að því að til stæði að fjölga heilsugæslustöðvum sem ekki væru í ríkiseigu. Ef marka má umræður á Alþingi má raunar ætla að Katrín og aðrir vinstri menn þar hafi engan áhuga á heilbrigðismálum utan þann að hindra að einkaaðilar komi þar nokkurs staðar að. Af einhverjum ástæðum telja þessir þingmenn að allir læknar og aðrir heilbrigðisstarfsmenn verði að vera ríkisstarfsmenn, annars sé voðinn vís.

Þessi þröngsýni hefur dregið mjög úr frumkvæði og uppbyggingu á þessu sviði, meðal annars vegna fjandskapar síðustu ríkisstjórnar í garð einkarekstrar. En í öllum fordómunum gleymist að með einkarekstri í heilbrigðiskerfinu – rétt eins og annars staðar – verða til nýjar hugmyndir og tækifæri.

Morgunblaðið sagði á dögunum frá einu dæmi um þetta, en þar var um að ræða að einn fremsti hjartaskurðlæknir heims væri að hefja starfsemi á Klíníkinni í Ármúla. Slíkri starfsemi fylgir margt jákvætt, svo sem þekking, tækifæri fyrir íslenska lækna, auknir möguleikar fyrir sjúklinga og jafnvel gjaldeyristekjur, svo nokkuð sé nefnt.

Hvernig stendur á því að þeir þröngsýnu þingmenn sem sífellt hamast gegn einkarekstri reyna ekki að opna hugann og sjá tækifærin sem geta falist í fjölbreyttari rekstrarformum?