Skúli Helgason
Skúli Helgason
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Kristján H. Johannessen khj@mbl.is Meðferð eineltismála í skóla- og frístundastarfi var til umræðu á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í vikunni.

Kristján H. Johannessen

khj@mbl.is

Meðferð eineltismála í skóla- og frístundastarfi var til umræðu á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í vikunni. Var þar samþykkt að beina því til borgarráðs að fenginn yrði óháður aðili til að fara yfir verkferla starfsstöðva skóla- og frístundasviðs vegna eineltis og samskiptavanda barna.

„Okkur fannst mikilvægt að taka þetta inn á fund ráðsins að gefnu tilefni,“ segir Skúli Helgason, borgarfulltrúi Samfylkingar og formaður ráðsins, í samtali við Morgunblaðið.

Vísar Skúli í máli sínu til grófs eineltismáls sem nýverið kom upp í Austurbæjarskóla í Reykjavík. En þar veittist hópur nemenda að stúlku, sem einnig er nemandi í skólanum, með grófu ofbeldi og var ódæðið tekið upp á myndband.

„Við vorum slegin miklum óhug, enda alvarlegt að sjá svona hluti gerast í borginni okkar. Og vildum nota tilefnið og fara yfir verkferla, þ.e. hvað gerist í skólunum, við frístund og almennt í borgarkerfinu þegar svona mál koma upp,“ segir Skúli.

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins og Framsóknar og flugvallarvina lögðu fram tillögu þess efnis að ráðið samþykkti að komið yrði á fót eineltisráði. „Mér finnst þetta athyglisverð hugmynd sem t.d. mætti vísa til þessa óháða aðila sem mun annast úttektina,“ segir hann.

Efla þarf forvarnir til muna

Marta Guðjónsdóttir, varaborgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, sem situr í skóla- og frístundaráði, segir að með myndun eineltisráðs yrði komið á fót hlutlausum vettvangi sem foreldrar og skólar gætu leitað til þegar ekki væri unnt að greiða úr málum á vettvangi.

„Ráðið yrði skipað sérfræðingum og fulltrúum foreldra sem myndu veita ráðgjöf og leita lausna í erfiðustu málunum. En sum mál er einfaldlega ekki hægt að leysa á vettvangi. Við höfum séð of mörg slík mál á undanförnum misserum og því er full þörf á því að skapa þetta úrræði,“ segir hún.

Þá segir Marta einnig mikilvægt að efla forvarnir til muna og tryggja ábendingarleiðir ef grunur vaknar um eineltismál og sömuleiðis ef nemendur telja að þeir séu lagðir í einelti í skólanum.