Halla Tómasdóttir
Halla Tómasdóttir
Eftir Höllu Tómasdóttur: "Er ekki ástæða til að staldra við og velta fyrir sér forgangsröðun okkar?"

Eitt af því sem fyllir mig stolti yfir að vera Íslendingur er sá dugnaður og náungakærleikur sem einkennir íslenskt samfélag. Til þess að lifa af í harðbýlu landi þarf ekki aðeins getu og vilja til að bjarga sér, heldur líka nægilega umhyggju og samhug til að aðstoða þá sem þurfa hjálp til lengri eða skemmri tíma.

Tækniframfarir, frá rafmagnsljósi til snjallsíma, og vaxandi velmegun sem endurspeglast í meiri efnislegum gæðum en áður tíðkuðust, valda því að þjóðin hefur það að mörgu leyti betra nú en á árum áður. Ég velti því þó fyrir mér hvort annars konar gæði hafi tapast við þessar framfarir.

Foreldrar mínir brýndu fyrir mér dugnað og náungakærleika þegar ég var barn. Pabbi missti foreldra sína ungur og ólst upp við erfiðar aðstæður þar sem hann þurfti umfram allt að treysta á eigin getu. Mér var kennt að það skipti máli að vera dugleg, standa á eigin fótum og vera ekki upp á aðra komin. Þannig myndi ég öðlast sjálfstæði og skapa verðmæti sem nýttust bæði mér og samfélaginu. Mamma mín var meðal fyrstu þroskaþjálfa á Íslandi og barðist ötullega fyrir sjálfstæðri búsetu þroskaskertra og möguleikum þeirra til að stunda vinnu. Ég lærði snemma að láta mig velferð annarra varða. Við fáum ekki öll sömu vöggugjafir, en allir eiga að fá tækifæri til að njóta sín á eigin verðleikum.

Ég velti því stundum fyrir mér hvaða áhrif efnahagslegar og tæknilegar framfarir hafa haft á verðmætamat okkar. Í seinni tíð virðist mælikvarðinn á velgengni snúast fyrst og fremst um endalausan eltingaleik við hagvöxt og hagnað. Hvers vegna eru þeim greidd miklu hærri laun sem sjá um að passa peninga heldur en þeim sem sjá um menntun barnanna okkar eða þjóna eldri borgurum? Er ekki ástæða til að staldra við og velta fyrir sér forgangsröðun okkar?

Síðustu ár ævi sinnar starfaði pabbi minn sem húsvörður á Sunnuhlíð, heimili eldri borgara í Kópavogi. Stuttu áður en hann lést bað hann mig að muna eftir þeim sem hafa skilað sínu ævistarfi. Það hef ég einsett mér að gera, því ekki einungis hefur sú kynslóð skilað með dugnaði verðmætum til samfélagsins, hún hefur einnig kennt okkur það sem skiptir mestu máli í lífinu, að sýna náungakærleik og vera þakklát.

Mér finnst miklu máli skipta að standa vörð um þær góðu dyggðir sem einkennt hafa íslenskt samfélag. Á sama tíma og við tökum á móti framförum og breytingum með opnum hug eigum við að hafa hugfast að engin efnisleg gæði koma í stað samskipta, stuðnings og manngæsku. Þannig sköpum við heilbrigt samfélag sem skapar góð uppvaxtarskilyrði fyrir börnin okkar og virðing er borin fyrir einstaklingum af öllum kynslóðum.

Höfundur er forsetaframbjóðandi.