Viðar Vésteinsson
Viðar Vésteinsson
Eftir Viðar Vésteinsson: "Í viðtali á RÚV í tengslum við erindi hans kom fram hjá Steinari að hvergi á landinu væri sérstakt minnismerki um alla þá íslensku sjómenn sem farist hafa við Ísland"

Fræðslufundir Íslenska vitafélagsins á síðasta ári fjölluðu um sjóslys og mannskaða við Íslandsstrendur og forvarnir gegn þeim. Einn af þeim sem fluttu mjög athyglisvert erindi á einum þessara funda var hinn kunni blaðamaður og rithöfundur Steinar J. Lúðvíksson. Þar fjallaði hann um þær miklu mannfórnir sem Íslendingar hafa fært gegnum aldirnar í sjósókn sinni. Niðurstaða athugana hans er að á árunum 1900-1974 hafi 3.576 farist í sjóslysum, um 48 manns á ári. Lokaorð erindis hans voru: „Stórþjóðir heiðra minningu hermanna sinna með áletruðum minningarskjöldum eða krossum sem reistir eru í minningarreitum hvort sem líkamsleifar hvíla undir þeim eða ekki. Tilburðir okkar Íslendinga til þess að viðhalda nöfnum þeirra sem féllu hafa verið heldur fátæklegir. Ég hef lengi alið með mér þá von að einhvern tímann komi sá tími að settar verði á einn stað minningartöflur sem hafi að geyma frumupplýsingar um þá hermenn Íslands, ef svo má að orði komast, sem fallið hafa í stríðinu við Ægi konung hinn mikla, þótt hún næði ekki nema til tuttugustu aldarinnar. Þar yrðu væntanlega skráð um 3.500 nöfn, sem væru þá í leiðinni tákn þess að við hefðum ekki gleymt nafnlausum fórnarlömbum fyrri tíma. Íslenskir sjómenn allra tíma ættu slíkt skilið því það voru þeir öllum mönnum fremur sem sáu þjóðinni fyrst fyrir lífsbjörg sinni í gegnum aldirnar og lögðu síðar grunninn að þeirri velsæld sem við búum nú við með starfi sínu.“

Í viðtali á RÚV í tengslum við erindi hans kom fram hjá Steinari að hvergi á landinu væri sérstakt minnismerki um alla þá íslensku sjómenn sem farist hafa við Ísland og það væri í raun alveg ótrúlegt.

Ég veitti þessum ummælum hans sérstaka athygli og fór að velta því fyrir mér hvar á landinu mætti koma slíku minnismerki fyrir. Kom þá upp í huga minn Breiðin á Akranesi, syðsti hluti Akraness. Af hverju Breiðin? Jú, Breiðin teygir sig til hafs út í Faxaflóann með tveimur vitum nánast hlið við hlið. Sjórinn umlykur Breiðina á þrjá vegu og það hefur sýnt sig á undarförnum árum að þessi staður og vitarnir hafa mikið aðdráttarafl og draga gesti að alls staðar úr heiminum. Því má segja að Breiðin með sínu umhverfi sé ákjósanlegur staður fyrir slíkt minnismerki. Því til viðbótar má nefna að Akraneskaupstaður hefur staðið að uppbyggingu á Breiðinni, sem hefur m.a. þann tilgang að gera söguna sýnilegri á svæðinu og styrkja menningarlegt gildi þess. Veglegt minnismerki myndi sóma sér vel á þessum einstaka stað.

Nú er sjómannadagurinn á næsta leiti og með þessum skrifum mínum leyfi ég mér að koma þessari hugmynd um staðsetningu minnismerkis á framfæri og hvet félög og fyrirtæki, t.d. tengd sjávarútvegi, að framkvæma verkið. Það yrði þeim til mikils sóma.

Höfundur bjó á Akranesi í 35 ár.