Magnús Rannver Rafnsson
Magnús Rannver Rafnsson
Eftir Magnús Rannver Rafnsson: "Nýsköpunarfyrirtæki sem byggja viðskiptalíkön á þekkingu þurfa að geta varið sig gagnvart aðilum í kerfinu sem telja sig eiga rétt umfram aðra."

Ragnheiður Elín Árnadóttir, ráðherra atvinnuvega og nýsköpunar, skrifar nýlega í Morgunblaðið að hún kannist ekki við inntak erinda minna til hennar. Ég ber meiri virðingu fyrir ráðherranum en svo að ég trúi því að hin fjölmörgu erindi, skriflegu og munnlegu yfir margra ára tímabil, hafi ekki verið skilin af ráðherranum. Síðasta bréf var á númeruðu formi þar sem efnisatriði voru aðskilin.

Erindið er enn það sama; nýsköpunarfyrirtækjum sem þróa lausnir fyrir raforkuflutningskerfi er ekki gert mögulegt að koma að nýjum lausnum á faglegum forsendum sem byggjast á samkeppnissjónarmiðum (liðir 1 til 3 í síðasta bréfi til ráðherrans). Það skortir innviði í kerfinu, leiðin er ekki til staðar. Dæmi um slíkt væri útboð um hönnun og lausnir. Annað dæmi væri rannsóknarsjóður sem nýsköpunarfyrirtæki gætu sótt í og þróað í gegnum samstarf við Landsnet, slíkt þekkist hjá Landsvirkjun og Vegagerðinni. Þriðja dæmið væru leiðbeiningar eða skilgreindar kröfur (umfram staðla) sem ætlast væri til að nýsköpunarfyrirtæki uppfylltu, til að eiga „samtalsrétt“ við Landsnet. Þetta er kjarni erindisins.

Að tala um áhugaleysi Landsnets er of varlega orðað af ráðherranum. Hvað heitir það þegar forstjóri í ríkisfyrirtæki útdeilir verkefnum til vildarvina án útboðs og án samkeppni? Hvað heitir það þegar sami forstjóri gangsetur stærstu fjárfestingarhrinu Íslandssögunnar – 100 milljarðar – stekkur svo yfir borðið og gerir sjálfur stórsamninga með vildarvininum (þeim sama) við fyrrverandi aðstoðarmann sinn (núverandi forstjóra) um sneiðar af kökunni stóru? Hvað heitir það þegar forstjóri ríkisfyrirtækis er dómnefndarformaður og vildarvinurinn ráðgjafi í arkitektasamkeppni um ný háspennumöstur sem endar með því að dómnefndarformaðurinn og ráðgjafinn „hreppa hnossið“ og gera stórsamninga um tillögu úr sömu samkeppni; kynnt sem „ný kynslóð háspennumastra“? Hvað heitir svoleiðis, hæstvirtur ráðherra? Er þetta ekki vandamálið í hnotskurn? Það er í sjálfu sér umhugsunarefni ef ráðherrann telur slík mál ekki vera á sínu borði. Hvers borði þá? Einhver hlýtur að þurfa að taka ábyrgð á slíku háttalagi í ríkisfyrirtæki og alveg sérstaklega þegar tekið er tillit til afleiðinganna. Iðja af þessu tagi þrífst sem stendur í skjóli ráðuneytisins og er samfélaginu ekki til framdráttar.

Hugmyndafræði í ljómanum af „takmörkuðum ríkisafskiptum“ lítur mögulega vel út á blaði en hljómar ekki vel nú á sama tíma og ráðherrann greiðir leiðina fyrir Landsnet með valdboði; heimilun á upptöku lands. Áhugi ráðherrans á nýsköpun endurspeglast ekki í fyrirhuguðum 100 milljarða fjárfestingum, einn aukamilljarður í Tækniþróunarsjóð er gott framtak en hverfur því miður í stóru myndinni.

Með tilliti til hagsmuna skattgreiðenda og allra nýsköpunarfyrirtækja sem hyggja á tækniþróun á sviði raforkuflutningskerfa er kallað á breytingar. Kerfið er gallað, það virkar ekki. Alveg eins og bankakerfið fyrir hrun, það virkaði ekki vel en menn hlustuðu ekki – of uppteknir við að fá sér. Að framfarir og tækniþróun á slíku kjarnasviði sé undir því komin að forstjóri Landsnets spinni leikreglur eftir eigin geðþótta hverju sinni er óviðunandi staða. Við höfum slæma reynslu af því að kynna hugverk okkar og hugmyndir fyrir Landsneti.

Allir sjá sem vilja að sú ómögulega staða sem upp er komin á þessu lykilsviði samfélagsins er afleiðing stöðnunar. Flest stórverkefni byggjast nú á lausnum sem eiga ekkert erindi í samfélagi 21. aldarinnar en hafa samt verið keyrð áfram á hnefunum, með vondum afleiðingum. Menn hlustuðu ekki því þeir þurftu ekki að hlusta. Þetta er afleiðing af fákeppni sem bitnar á áhrifamikinn hátt á samfélagsþegnum. Kerfið hamlar eðlilegri framþróun.

Að lokum, hafi ráðherrann raunverulega misskilið; ég hef ekki áhuga á því að fyrirtæki á mínum vegum fái framgöngu sem byggist á því að „kippt sé í spotta“ eða verði „vel skoðað“ af einum manni/konu á réttum stað í kerfinu. Ég á engan rétt umfram aðra, ég á rétt á því að starfa að mínu fagi og verða að gagni.

Það á að leggja fagleg sjónarmið til grundvallar samkvæmt þekktu skilgreindu ferli en ekki það hvort viðkomandi séu í réttu tengslaneti. Engin fagleg sjónarmið hafa verið lögð fram í málefnum Línudans, bara geðþóttaákvörðun ríkisforstjóra sem nú hefur stungið sér á bólakaf í 100 milljarða sundlaugarpartí sem hann skipulagði sjálfur, að því er virðist.

Svokallað áhugaleysi Landsnets á lausnum Línudans getur auk þess varla staðist skoðun þegar hin nýja kynslóð háspennumastra hinna innvígðu einkavina endurspeglar sömu hönnun og sömu hugmyndir um ásýnd og aðlögun. Myndir í fréttum RÚV þann 17.4. tala sínu máli.

Nýsköpun er ekki villta vestrið heldur markviss vinna að skilgreindum markmiðum. Fjárvana nýsköpunarfyrirtæki sem byggja viðskiptalíkön á þekkingu þurfa að geta varið sig fyrir sérhagsmunagæsluliðum í kerfinu sem telja sig eiga rétt umfram aðra. Sú vernd er ekki til staðar þar sem innviðina skortir. Meðal annars þess vegna erum við með vandamál sem hæstvirtur iðnaðarráðherra þarf að leysa úr.

Höfundur er verkfræðingur og starfar að nýsköpun á sviði raforkuflutningskerfa.