Þráinn Karlsson fæddist á Akureyri 24. maí 1939. Hann lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 22. maí 2016.
Foreldrar hans voru Karl Valdimar Sigfússon, f. 9. desember 1886 í Víðaseli í Reykjadal, S- Þingeyjarsýslu, d. 25. júlí 1962, og Vigfúsa Vigfúsdóttir, f. 28. desember 1899, í Hvammi í Þistilfirði, N-Þingeyjarsýslu, d. 25. maí 1967. Systkini Þráins: 1) Kári Elías, f. 18. ágúst 1919, d. 30. júlí 2001. 2) Gunnar, f. 5. júní 1923, d. 22. janúar 1973. 3) Skarphéðinn, f. 17. ágúst 1925, d. 9. október 1986. 4) Höskuldur Goði, f. 7. september 1933. 5) Ásdís, f. 6. júní 1935.
Þann 25. maí 1968 kvæntist Þráinn Ragnheiði Garðarsdóttur, f. 18. apríl 1939 á Akureyri. Foreldrar Ragnheiðar voru Garðar Jóhannesson, f. 17. desember 1904 að Gilsá í Saurbæjarhreppi, Eyjafirði, d. 20. nóvember 1957, og Hildigunnur Magnúsdóttir, f. 28. mars 1915 að Torfum í Hrafnagilshreppi, Eyjafirði, d. 21. nóvember 1994. Dætur Þráins og Ragnheiðar eru: 1) Rebekka, f. 1. nóvember 1968, í sambúð með Örlygi Benediktssyni, f. 26. febrúar 1976. 2) Hildigunnur, f. 7. maí 1970. Hún var áður í sambúð með Gísla Nils Einarssyni, f. 21. desember 1972. Synir þeirra eru Þráinn Gíslason, f. 24. nóvember 2007, og Einar Kári Gíslason, f. 6. desember 2009. Dóttir Ragnheiðar af fyrra hjónabandi og stjúpdóttir Þráins er Kristín Konráðsdóttir, f. 11. maí 1960. Eiginmaður hennar er Ísleifur Karl Guðmundsson, f. 2. júlí 1963. Synir þeirra eru: 1) Steinar Karl, f. 2. september 1988, í sambúð með Sóleyju Smáradóttur, f. 12. nóvember 1988. Börn þeirra eru Snorri Karl Steinarsson, f. 6. september 2011, og Ragnheiður Lilja Steinarsdóttir, f. 8. júlí 2013. 2) Vilhjálmur Konráð, f. 8. febrúar 1991. 3) Ragnar Kári, f. 1. febrúar 1993, í sambúð með Karólínu Helenudóttur, f. 24. júlí 1995. 4) Kjartan Atli, f. 8. ágúst 1997.  Þráinn ólst upp á Akureyri og lauk vélsmíðanámi frá Iðnskólanum á Akureyri og Vélsmiðjunni Atla, 1959 og meistaraprófi í vélsmíði 1967. Framan af starfsævinni starfaði hann sem matsveinn og vélstjóri til sjós og síðar sem vélsmiður í Slippnum á Akureyri. Hann hóf að leika með Leikfélagi Akureyrar árið 1956. Þráinn var fastráðinn leikari hjá LA frá því að félagið varð að atvinnuleikhúsi árið 1971 og fór með fjölda hlutverka í útvarpi, sjónvarpi og kvikmyndum. Þráinn var einn af stofnendum Alþýðuleikhússins árið 1974. Einnig leikstýrði hann fjölda verka hjá LA og ýmsum áhugaleikfélögum á Norðurlandi, auk þess sem hann hannaði og smíðaði leikmyndir. Þráinn gegndi fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir Leikfélag Akureyrar, Félag íslenskra leikara, Iðnnemafélag Akureyrar og fleiri. Samhliða leikarastörfum sinnti hann myndlist. Þráinn hlaut fjölda viðurkenninga um starfsævina og var m.a. valinn bæjarlistamaður Akureyrar.
Útför Þráins fer fram frá Akureyrarkirkju í dag, 30. maí 2016, klukkan 13.30.

Það er skarð fyrir skildi. Þráinn Karlsson var einn helsti burðarás Leikfélags Akureyrar um áratuga skeið og þar með frumkvöðull í leikhúslífi þjóðarinnar utan höfuðborgarsvæðisins. Hann var einn fremsti listamaður Akureyrar og einstakur öðlingur.
Ég man vel, á mínum fyrsta starfsdegi sem leikhússtjóri Leikfélags Akureyrar, þegar ég kom að fallegu Samkomuhúsinu, gekk upp stigaganginn með rauða teppinu þannig að marraði í tröppunum og opnaði dyrnar inn í kaffistofuna. Þar sat Þráinn, vasklegur að vanda, með naglbít í hendi og klauf sykurmolana í litla skál á sófaborðinu. Þráinn brosti breitt og sagði hressilega með sinni miklu en þýðu rödd: Sæll vinur minn, sestu nú hérna hjá mér og fáðu þér kaffisopa. Þannig hófst okkar góða samstarf og vinátta sem átti eftir að vaxa og verða mér ómetanleg á næstu árum. Við áttum eftir að drekka ófáa kaffibollana saman og ég þáði ótal sykurmola af Þráni þrátt fyrir það að ég væri á öðrum stundum ekkert gefinn fyrir sykur í kaffið mitt.
Þráinn lék sitt fyrsta hlutverk hjá LA árið 1956, þá ungur maður í vélsmíðanámi. Hann óx upp í starf leikarans og var fyrsti leikarinn sem ráðinn var þegar LA varð atvinnuleikhús árið 1973. Á áratugunum sem liðnir eru hefur hann leikið óteljandi hlutverk, stór og smá auk þess sem hann hefur leikstýrt og hannað leikmyndir. Hann var Leikfélagsmaður af lífi og sál. Hann fæddist í Gamla barnaskólanum við hlið Samkomuhússins í Hafnarstræti og við sömu götu bjuggu þau Ragna mestan part ævinnar. Þráinn var hjarta Leikfélags Akureyrar. Honum leið vel þegar Leikfélagið blómstraði en sveið þegar verr gekk. Fyrir Þráni var ekkert verkefni of stórt og ekkert of smátt. Á milli stórra krefjandi hlutverka sem hann tókst á við mætti hann til að vinna að leikmynd og leikmunum. Þar nýttust myndlistarhæfileikar Þráins vel.
Þráinn Karlsson var örlátur og gjafmildur leikari. Á ferlinum skóp hann fjölmargar ógleymanlegar persónur sem munu seint renna úr minni. Rödd hans var hljómmikil og textameðferð nákvæm, þar sem norðlenskan leyndi sér ekki. Þráinn var einstakur í samstarfi, treysti samstarfsfólki og var óhræddur við að leggja til atlögu við hið óþekkta eins og er svo mikilvægt í starfi leikarans.
Fyrst var hér ekki neitt. Svo kom maðurinn .... Þessi upphafsorð úr leikverkinu Maríubjallan eru ógleymanleg þar sem þau bárust úr myrkrinu í flutningi Þráins. Fyrir þetta hlutverk hlaut hann verðskuldaða tilnefningu til Grímunnar. Þráinn var alltaf tilbúinn til að takast á við nýjar áskoranir. Hann birtist reffilegur í rokksöngleiknum Litlu hryllingsbúðinni þar sem hann var elstur í hópi ungra leikara og tónlistarmanna og sem smábarn með snuð í Óvitum eftir að hafa fagnað 50 ára leikafmæli sínu.
Þetta var eitt af blómaskeiðum Leikfélags Akureyrar og Þráinn var í essinu sínu. Leikið var flest kvöld vikunnar og þó álagið væri mikið, fagnaði Þráinn hverri nýrri aukasýningu. Leikhúsið var fullt af ungu listafólki en Þráinn var í senn mentor og unglamb. Hann veitti unga fólkinu ráð og stuðning en var á sama tíma oft yngstur í anda. Hann spjallaði, hló og hvatti til dáða. Reglulega buðu þau Ragna líka í pylsupartý eða fiskisúpu með nýveiddum fiski sem Þráinn hafði sótt á Pollinn. Þráinn naut þess að segja sögur þar sem hvergi var dregið úr litríkum lýsingum á mönnum og málefnum. Við Þráinn áttum óteljandi samtöl um leikhúsið, listina og lífið. Ætíð hvatti hann mig til að fylgja eigin sannfæringu og þora að fylgja sýninni jafnvel þó það kostaði sársaukafullar ákvarðanir. Þannig var Þráinn maður framtíðarinnar. Hann trúði á leikhúsið og áhrifamátt þess. Fyrir honum var leikhúsið og listin stærri en einstaklingarnir.
Þráinn var maður sem vildi hafa hlutina akkúrat. Hann vildi að menn vönduðu sig, mættu undirbúnir á æfingar og legðu sig alla fram. Hann vildi að sykurmolarnir væru í réttri stærð, hvorki of litlir né of stórir.
Ég er þakklátur fyrir allt sem Þráinn kenndi mér og að hafa átt hann að vini. Þráins verður sárt saknað. Við Ingibjörg sendum Rögnu, Hildigunni, Rebekku, Kristínu og fjölskyldum þeirra okkar innilegustu samúðarkveðjur. Minningin um góða manneskju og merkan listamann mun lifa. Blessuð sé minning Þráins Karlssonar.


Magnús Geir Þórðarson.