Andrés Haukur Ágústsson fæddist í Hemlu í Vestur-Landeyjum 16. október 1923. Hann lést á Landspítalanum 10. júní 2016.Foreldrar Andrésar voru hjónin Ingibjörg Magnúsdóttir, f. 28.3. 1885 í Vatnsdal í Fljótshlíð, d. 21.11. 1945, og Ágúst Andrésson, f. 31.8. 1885 í Hemlu, d. 16.1. 1965. Systkini Andrésar voru Magnús Óskar, f. 5.8. 1921, d. 21.11. 1925, og Magnea Helga, f. 16.1. 1926, d. 28.9. 1998.

Sonur Andrésar, fyrir hjónaband, með Jónínu Guðrúnu Sigurjónsdóttur, f. 31.3. 1923, d. 28.1. 1966, er Guðjón Már Andrésson, f. 1949. Eiginkona Guðjóns var Vigdís Heiður Pálsdóttir, f. 1957. Þau skildu. Fósturdóttir Guðjóns og dóttir Vigdísar er Guðrún Margrét Magnúsdóttir. Eiginmaður Guðrúnar er Bjarki Guðmundsson. Börn þeirra eru Telma Lind, Veigar Gauti og Arnþór Logi. Börn Guðjóns og Vigdísar eru: 1) Jónína Björk Guðjónsdóttir. Sambýlismaður Jónínu er Stefán Sveinn Jónsson. Börn þeirra eru Heiðdís Elva og Jón Birkir. 2) Vignir Már Guðjónsson. Eiginkona Vignis er Valdís Þóra Gunnarsdóttir. Fóstursonur Vignis og sonur Valdísar er Andri Fannar Tómasson.

Eftirlifandi eiginkona Andrésar er Aðalbjörg Kristjánsdóttir, f. 25.10. 1923 á Seljalandi undir Eyjafjöllum. Foreldrar hennar voru Arnlaug Samúelsdóttir, f. 26.9. 1887 í Hvammi undir Eyjafjöllum, d. 11.12. 1968, og Kristján Ólafsson, f. 15.4. 1890 í Dalsseli undir Eyjafjöllum, d. 6.4. 1945. Fósturdóttir Andrésar og dóttir Aðalbjargar var Björg Arndís Baldvinsdóttir, f. 1947, d. 2011. Eiginmaður Bjargar var Friðrik Karl Friðriksson, f. 1953. Þau skildu. Sambýlismaður Bjargar var Helgi Magnússon, f. 1946. Sonur Bjargar og Friðriks Dokic, f. 1942, er Georg Bergþór Friðriksson. Eiginkona Georgs var Hrönn Ólína Jörundsdóttir. Þau skildu. Börn þeirra eru Eiríkur Freyr, Ásdís Rún og Iðunn Ragna. Sambýliskona Bergþórs er Jóhanna Rós Norðfjörð Guðmundsdóttir. Barn þeirra er Salka Björg Norðfjörð Bergþórsdóttir. Fósturdóttir Bergþórs og dóttir Jóhönnu er Anna Halldóra Snorradóttir. Fóstursonur Bergþórs og Jóhönnu er Sigurður Kári Söndruson. Börn Andrésar og Aðalbjargar eru: 1) Ágúst Ingi Andrésson, f. 1950. Eiginkona Ágústs Inga er Bryndís Jónsdóttir, f. 1951. Börn þeirra eru: a) Aðalbjörg Inga. Sambýlismaður Aðalbjargar var Guðmundur Andersson. Þau slitu samvistir. Börn þeirra eru Sindri Snær, Eik og Birkir Snær. Sambýlismaður Aðalbjargar er Adolf Snæbjörnsson. Sonur Adolfs er Viktor Aron. b) Viðar. Sonur Viðars og Ingu Óskar Rúnarsdóttur er Ágúst Halldór. Eiginkona Viðars er Lilja Halldóra Sturludóttir. Fósturbörn Viðars og börn Lilju eru Alma Dögg Gunnarsdóttir og Sturla Páll Gunnarsson. Dóttir Viðars og Lilju er Brynja Dís. c) Elfa Björk. Sambýlismaður Elfu er Björgvin Pálmar Jónsson. Börn þeirra eru Þórey, Hildur og Jón Ingi. 2) Ingibjörg Andrésdóttir, f. 1951. Eiginmaður Ingibjargar er Hreinn Guðmundsson, f. 1941. Börn þeirra eru a) Andrés Haukur. Eiginkona Andrésar Hauks er Kristín Rós Björnsdóttir, f. 1971. Börn þeirra eru Björn Kristinn, Ingibjörg, Andrés Haukur og Guðmundur Ingi (fæddist andvana). b) Rakel Ósk. Eiginmaður Rakelar er Hans Adolf Hjartarson. Börn þeirra eru Helena Ósk og Hjörtur. c) Arndís Rós Hreinsdóttir.

Andrés ólst upp við bústörf á búi foreldra sinna og stundaði skólagöngu eftir því sem þá tíðkaðist. Þegar hann hafði aldur til tók hann bílpróf og fór að aka vörubílum, í upphafi hjá Kaupfélagi Rangæinga og síðan í Vestmannaeyjum en eftir það var hann mjólkurbílstjóri hjá Mjólkurbúi Flóamanna um hríð. Hann gerði út eigin bíl um tíma en 1950 varð hann bílstjóri hjá Kaupfélagi Rangæinga á Hvolsvelli og starfaði þar fram yfir 1960 þegar hann gerðist sjálfs sín herra að nýju og gerði út vörubíl til 1969. Á þeim tíma var hann flokksstjóri hjá Vegagerðinni og einnig um tíma formaður vörubílstjórafélagsins Fylkis. Þá var hann lengi ökukennari á Hvolsvelli. Hann sat um hríð í hreppsnefnd Hvolhrepps. Haustið 1967 flutti Andrés með fjölskyldu sína til Reykjavíkur. Hann var frkv.stj. Landflutninga 1970-1982 en síðan lagermaður hjá SÍS til 1988 er hann lét af störfum.

Útför Andrésar fer fram frá Seljakirkju í dag, 20. júní 2016, klukkan 15.

Andrés Haukur Ágústsson frá Hemlu naut góðs atlætis í föðurgarði, þar

voru góð efni og hann hafði ágætar gáfur og hæfileika til að takast

á við hvað sem var í lífinu. En líkt og var um marga unga menn á

hans reki varð hann hugfanginn af bílum þegar hann óx úr grasi.

Þeir voru táknmynd framtíðarinnar, boðberar þess sem koma skyldi

í atvinnuháttum og verktækni þjóðarinnar. Hann beið því ekki

boðanna, þegar hann hafði aldur til tók hann bílpróf og var síðan

fljótt kominn í vinnu við að aka vörubíl hjá Helga Hannessyni

frá Ketlu, útibússtjóra Kaupfélags Rangæinga á Rauðalæk.

Helgi var nokkuð sérlundaður en vel fór þó á með bílstjóranum

unga og húsbónda hans, alveg þangað til að Andrés sagði upp

starfinu, hann var ráðinn út í Vestmannaeyjar á vetrarvertíð

til að aka þar fiski fyrir drjúgum meira kaup. Svo góðan starfsmann

vildi kaupfélagsstjórinn ekki missa og lét Andrés alveg heyra

hvað honum fyndist um slíka sviksemi. Allt fór þó vel að lokum.

Fljótt var Andrés orðinn mjólkurbílstjóri hjá Mjólkurbúi Flóamanna,

fyrst í afleysingum en síðan var hann fastráðinn bílstjóri haustið 1946.

Við blasti örugg og eftirsóknarverð framtíð, margir jafnaldrar hans

voru bílstjórar hjá MBF áratugum saman, jafnvel allan sinn starfsaldur,

og undu sér vel.

En þá gripu örlögin í taumana. Veturinn 1947 veiktist Andrés af

lömunarveiki sem þá gekk um landið og lagðist ekki síst á ungt og

hraust fólk. Eftir alllanga legu á Selfossi og síðan endurhæfingu í

Reykjavík lá leiðin út í samfélagið á ný. Þennan athafnasama og hrausta

unga mann hafði lömunarveikin merkt sér svo að hann hafði eftir þetta rýran

mátt og stakk við á hægra fæti. Flestir í sporum Andrésar hefðu leitað eftir

þægilegri innivinnu en það kom honum ekki í hug. Hann vildi aka stórum

bílum og á því skyldi engin breyting verða. Hann keypti sér splunkunýjan

vörubíl af Chevrolet-gerð og fór með hann austur í Hemlu, smíðaði á hann pall,

reisti síðan bragga yfir ökutækið og dreif sig í vegavinnu. Og um þetta leyti

kom hamingjan til hans í líki fallegrar ungrar konu, einnar af systkinunum á

Seljalandi undir  Eyjafjöllum, og henni fylgdi meira að segja ljúf og lyndisprúð

lítil stúlka. Síðan bættust tvö myndarbörn við fjölskylduna og unga fjölskyldan

byggði sér hús á Hvolsvelli. Þá var Andrés farinn að aka olíubíl fyrir Kaupfélag

Rangæinga og átti langa vinnudaga.

Veturnir milli 1950 og 1960 voru langleiðabílstjórum erfiðir. Það voru

endalausir byljir og botnlaus ófærð tímunum saman. Jarðýtur voru komnar

til sögunnar en voru fáar og fóru hægt yfir. Það voru bara þú sjálfur og

skóflan, eins og starfsfélagi Andrésar hjá Mjólkurbúi Flóamanna hefur

komist að orði. Við þessar aðstæður hylltust bílstjórar til að

fara leiðar sinnar í lestum þar sem hver hjálpaði öðrum og allir sameinuðust

við að vinna bug á ófærðinni. Þá var eins gott að allir væru jafnöflugir og ósérhlífnir

og að enginn léti sitt eftir liggja. Síðan kom holklakinn þegar fór að vora, botnlaus

aurbleyta sem gat verið vegfarendum næstum jafn erfið og vetrarófærðin.

Og hér er verið að tala um þjóðveg 1!

Hvernig fór fatlaður maður að því að halda hlut sínum í þessari stöðugu

orrustu við ófærðina? Hvernig fór hann að því að tvíkúpla við allar aðstæður,

meðan bílar kröfðust slíks? Hvernig fór hann að því að moka sig í gegnum

endalausa skafla, glíma við keðjurnar, draga níðþungar olíuslöngur langar leiðir

bak við hús, þar  sem olíutönkunum var yfirleitt holað niður, jafnt í þorpum sem dreifbýli?

Og standa sig aldrei miður en fullhraustir félagarnir. Það gat aðeins tekist með óbilandi skapfestu og járnvilja sem aldrei lætur undan síga.

Upp úr 1960 gerðist Andrés sjálfs sín herra að nýju og gerði út vörubíl til 1969. Á þeim tíma var hann flokksstjóri hjá Vegagerðinni og einnig um tíma formaður vörubílstjórafélagsins Fylkis. Þá var hann lengi ökukennari á Hvolsvelli. Hann sat um hríð í hreppsnefnd Hvolhrepps.

Haustið 1967 flutti Andrés með fjölskyldu sína til Reykjavíkur og átti heima þar það sem eftir var ævinnar. Hann var framkvæmdastjóri Landflutninga frá 1970 til 1982 en síðan lagermaður hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga til 1988 er hann lét af störfum. En Andrés sat ekki auðum höndum eftir það. Hann hafði alla tíð verið hestamaður af lífi og sál, fyrst austur í Rangárvallasýslu en síðan í Reykjavík eftir að hann færði sig þangað, og naut samvistanna við hina ferfættu vini sína og góða félaga í hópi hestamanna meðan hann hafði heilsu til.

Ég kynntist Andrési og konu hans, Aðalbjörgu Kristjánsdóttur, um 1990, þegar

við Björg Arndís Baldvinsdóttir, fósturdóttir hans og dóttir hennar, skólasystkin

frá Héraðsskólanum í Skógum, tókum upp kynni og síðan sambúð. Eftir það

var oft litið inn á Háaleitisbraut 14 og þangað var alltaf ánægjulegt að koma.

Fyrst og fremst voru þau hjón gagnvönduð og prúð í framgöngu og höfðu á sér

eilítið hefðarsnið, í bestu merkingu þess orðs, prýðilegum gáfum gædd og fróð

og fús til að ræða um heima og geima. Samheldni þeirra og væntumþykja blasti

við þegar komið var inn fyrir dyr á heimili þeirra. Oft þegar sest var niður með

Andrési bar á góma þá tíma sem hefur verið að nokkru lýst hér að framan.

Þá birti yfir svip hans og löngu liðnir atburðir og aðstæður öðluðust líf á tungu.

Þá varð töfrum slungið löngu liðið hjakk í sköflum, brotnir öxlar og drif og

bjástur við keðjur með glöðum og góðum félögum sem treystu hver á annan.

Ég hlakkaði til að takast á við snjóinn, sagði annar félagi Andrésar hjá MBF

eitt sinn. En þó að Andrés hefði, eftir að fjölskyldan flutti til Reykjavíkur árið

1967, gegnt ábyrgðarmiklu starfi, og leyst það af hendi með miklum ágætum,

með þeirri trúmennsku og vönduðu vinnubrögðum sem honum voru svo eiginleg,

var ekki á nokkurn hátt áhugavert að ræða þann tíma.

Það var mannbætandi að eiga félagskap með þeim hjónum og mér eru ekki síst
minnisstæðar allnokkrar ferðir okkar Bjargar með þeim í sumarleyfisferðir út á
land, þar sem dvalið var í viku eða svo í orlofshúsi og ekið út frá því, oft langar

dagleiðir, til að skoða umhverfið. Þá voru þau Andrés og Aðalbjörg nokkuð komin

á aldur en hugurinn frjór og lifandi áhugi á öllu sem fyrir augu bar.

Með Andrési Hauki Ásgrímssyni kveður merkur fulltrúi þeirrar kynslóðar sem

lagði grunn að þeim nútíma sem við þekkjum, af ósérplægni og atorku, sem níddist

aldrei á neinu sem henni var trúað til og vandaði orð sín og verk sem mest hún mátti.

Blessuð sé minning hans.





Helgi Magnússon