[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Jóhann Ólafsson johann@mbl.is Langt er síðan ÍBV vann stóran titil í knattspyrnu en kvennalið félagsins varð bikarmeistari fyrir tólf árum. Karlaliðið varð Íslands- og bikarmeistari árið 1998 en liðið tapaði bikarúrslitaleik gegn ÍA árið 2000.

Fótbolti

Jóhann Ólafsson

johann@mbl.is

Langt er síðan ÍBV vann stóran titil í knattspyrnu en kvennalið félagsins varð bikarmeistari fyrir tólf árum. Karlaliðið varð Íslands- og bikarmeistari árið 1998 en liðið tapaði bikarúrslitaleik gegn ÍA árið 2000.

Sé þessi saga höfð til hliðsjónar er ekki að undra að stemmningin og spennan í Vestmannaeyjum sé mikil en bæði karla- og kvennaliðið eru á leið á Laugardalsvöll í úrslitaleik bikarkeppninnar. Kvennaliðið mætir Íslandsmeisturum Breiðabliks föstudagskvöldið 12. ágúst. Daginn eftir mætir karlaliðið bikarmeisturum Vals í úrslitum.

Konurnar sigruðu Þór/KA í undanúrslitum eftir framlengdan leik fyrir viku og karlarnir sigruðu FH á fimmtudagskvöldið.

Óskar Jósúason, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar ÍBV, var brattur þegar Morgunblaðið heyrði í honum hljóðið í gær. Blaðamaður hringdi í hann fyrir hádegi en þá voru Eyjamenn komnir á fætur og farnir að undirbúa hátíðahöld dagsins en eins og flestum er kunnugt er Þjóðhátíð haldin í Vestmannaeyjum um helgina. „Við stóðum á vakt til fjögur í nótt á Húkkaraballinu,“ sagði Óskar.

Skynjar stemmninguna

Hann kvaðst ekki vera besti maðurinn til að lýsa stemmningunni sem ríkti í Eyjunni grænu eftir leikinn í fyrrdag enda hélt hann beint til starfa á áðurnefndu balli að leik loknum. Hann varð samt sem áður var við gleðina. „Stemmningin er alveg frábær. Maður skynjar það líka núna í morgun til að mynda með því að skoða Facebook að það eru allir himinlifandi með þetta.“

Hátíðahöld helgarinnar trufla framkvæmdastjórann aðeins, enda nóg að gera í kringum Þjóhátíð. „Þessi Þjóðhátíð er svolítið að trufla mína upplifun af þessum árangri, en Þjóðhátíðin er auðvitað frábær,“ sagði Óskar hlæjandi. „Ég vaknaði í morgun og fór beint að undirbúa hátíðina.“ Hann sagði að það hafi verið mun betra að vera í gæslunni á ballinu eftir sigurleik. „Það var mun auðveldara að sitja í gæslu með þennan sigur á bakinu. Það hefði verið miklu leiðinlegra að tapa, það er ekki spurning.“

Eyjamenn stefna í bæinn

Úrslitaleikirnir fara, eins og áður sagði, fram föstudaginn 12. og laugardaginn 13. ágúst. Óskar vonast til þess að stuðningsmenn ÍBV hópist í borg óttans og mæti á báða leikina. „Ég vona það og vona að stuðningsmenn sýni liðunum jafna athygli og virðingu. Við eigum að setjast niður og skoða þetta. Núna er Þjóðhátíðin næstu daga og við þurfum að gegna ákveðnum skyldum þar. Síðan setjumst við niður á þriðjudag og skoðum málin. Það verður vonandi hægt að búa til góðan pakka og góða helgi fyrir fólkið hér í Eyjum.“

Öll púslin þurfa að passa

Þjálfari karlaliðsins, Bjarni Jóhannsson, er öllum hnútum kunnugur í Vestmannaeyjum. Hann stýrði liðinu til tveggja Íslandsmeistaratitla og bikarmeistaratitils á árunum 1997-1998. Hann virðist eiga auðvelt með að búa til góða stemmningu og það hefur sýnt sig í mörgum leikjum ÍBV í sumar en Bjarni virðist kunna afar vel við sig í Eyjum. „Hann þekkir andrúmsloftið hér en stundum virðist mönnum líða meira heima hjá sér í andrúmslofti sem þeir þekkja. Það getur haft áhrif en hann er frábær þjálfari.“

Framkvæmdastjórinn skoraði á leikmenn karlaliðsins að hoppa í sjóinn í gærmorgun til að fagna sætinu í úrslitaleiknum. Hann segir mikla vinnu liggja að baki þess að skapa gott umhverfi fyrir leikmennina. „Knattspyrnuráð er búið að vinna vel að því að búa til andrúmsloft og starfsumhverfi fyrir strákana til að njóta velgengni innan vallar. Þetta er púsluspil og öll púslin þurfa að mynda stóra og góða heild. Bjarni og aðstoðarþjálfarinn, Alfreð, passa vel inn í það.“

Lætur yfirlýsingarnar vera

Óskar vonast að sjálfsögðu til þess að bæði liðin fagni bikarmeistaratitli eftir tvær vikur. „Að sjálfsögðu vonast ég til þess að við siglum inn höfnina um borð í Herjólfi með bikar. Það er draumurinn,“ sagði Óskar en hann hafði vonast til þess að landa titli í sumar:

„Að sjálfsögðu trúir maður því. Það er ömurlegt að fara í keppni og halda að maður geti ekki neitt. Þetta er flókið samspil, hverju þú trúir og hvað þú vilt og hverjar raunverulegar væntingar eru og annað slíkt. Maður getur litið út eins og kjáni með alls konar yfirlýsingar. Auðvitað förum við í alla leiki til að vinna þá. Markmið okkar var að gera eins vel og við gátum og búa til flott og gott batterí þar sem allir hjálpast að. Búa til góða Eyjastemmningu. Þjálfarar og leikmenn, ásamt öðrum bakvið tjöldin hafa skilað sínu og þetta er ljómandi gott.“