[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenska sveitin sem teflir á Ólympíumóti ungmenna 16 ára og yngri í Poprad í Slóvakíu var í 18. sæti með 9 stig og 19 ½ vinning af 32 mögulegum fyrir lokaumferð mótsins sem fram fór í gær.

Íslenska sveitin sem teflir á Ólympíumóti ungmenna 16 ára og yngri í Poprad í Slóvakíu var í 18. sæti með 9 stig og 19 ½ vinning af 32 mögulegum fyrir lokaumferð mótsins sem fram fór í gær. Eftir erfiða byrjun í fyrstu fjórum umferðum mótsins fóru hjólin að snúast og í sjöundu umferð vann sveitin Hong Kong 3:1 og síðan Belga 3 ½: ½.

Alls eru tefldar níu umferðir og nýtt stórveldi skákarinnar virðist vera að koma fram: Íranir. Þeir hafa þegar tryggt sér ólympíugullið með 15 stig, í 2. sæti koma Rússar og Armenar í 3. sæti. Í lokaumferðinni dróst Ísland á móti sterkri sveit Moldavíu.

Fyrirkomulag mótsins er nýtt; fimm í sveit þar af ein stúlka en teflt er á fjórum borðum. Varamaður sveitarinnar, Svava Þorsteinsdóttir, er að stíga sín fyrstu skref á þessum vettvangi, hún vann sannfærandi í fyrstu umferð og byggði upp góðar stöður í næstu tveim skákum en tapaði. Vignir Vatnar Stefánsson sem er 13 ára gamall hefur teflt vel og er með 4 ½ vinning af sjö mögulegum. Bárður Örn Birkisson er einnig með 4 ½ vinning af sjö á 2. borði. Björn Hólm hefur hlotið 3 ½ vinning af átta og Hilmir Freyr Heimisson er í banastuði; eftir jafntefli í tveim fyrstu umferðunum vann hann fimm skákir í röð, 6 vinningar af sjö mögulegum á 4. borði!

Þátttökuþjóðirnar eru 54 talsins og Íslandi var fyrirfram raðað í 32. sæti. Indland verður vettvangur Ólympíumóts 16 ára og yngri árið 2017 samkvæmt mótaáætlun FIDE.

Niðurstaða þessa móts er í takt við stöðu Íslands á alþjóðavettvangi meðal ungra skákmanna og talsvert betri ef eitthvað er.

Hjörvar við toppinn í Kaupmannahöfn

Íslenskir skákmenn sitja einnig að tafli í Kaupmannahöfn þar sem fram fer hið svonefnda Xtracon-mót sem hét áður Politiken cup. Stórmeistarinn Hjörvar Steinn Grétarsson gerði jafntefli í sjöundu umferð og var með 5 ½ vinning í toppbaráttunni en Egyptinn Amin Bassem er efstur með 6 ½ vinning.

Á opna tékkneska meistaramótinu í Pardubice í Tékklandi bar helst til tíðinda að Oliver Aron Jóhannesson vann stórmeistarann Jansa í fjórðu umferð. Oliver Aron og Dagur Ragnarsson eru báðir með 3 ½ v. af sjö mögulegum og voru að ná árangri umfram væntingar í A-flokknum þar sem Armeninn Movsesian og Indverjinn Ganguly voru efstir.

Magnús Carlsen sigraði með yfirburðum

Magnús Carlsen vann hið sterka mót í Bilbao á Spáni sem lauk um síðustu helgi. Gefin voru þrjú stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli og lokaniðurstðan var þessi:

Carlsen 17 stig , 2. Nakamura 12 stig, 3. – 4. So og Wei Yi 11 stig, 5. Karjakin 9 stig, 6. Giri 7 stig.

Heimsmeistarinn á síðasta orðið. Andstæðingi hans virðist standa stuggur af nálega öllum leikjum Magnúsar, saklausum peðsleikjum eins 9. a3 og 10. b4. Og svo kemur hrina snilldarleikja, 17. De1, 18. Rd2, 19. Rc4. So leggur niður vopnin þegar hann stendur frammi fyrir mátsókn:

Bilbao 2016; umferð:

Magnús Carslen – Wesley So

Spænskur leikur

1. e4 e5 2. Rf3 Rc6 3. Bb5 Rf6 4. d3 Bc5 5. Bxc6 dxc6 6. De2 De7 7. Rbd2 Bg4 8. h3 Bh5 9. a3 Rd7 10. b4 Bd6 11. Rc4 f6 12. Re3 a5 13. Rf5 Df8 14. bxa5 Hxa5 15. O-O Df7 16. a4 Rc5 17. De1 b6 18. Rd2 Hxa4 19. Rc4 Bf8 20. Be3 Kd7 21. Dc3 Rxe4

22. Rxb6+ cxb6 23. dxe4 Dc4 24. Dd2+ Kc7 25. g4 Bg6 26. Hfd1

- og svartur gafst upp.

Helgi Ólafsson helol@simnet.is