Auður Stefánsdóttir fæddist á Hamri í Hamarsfirði 27. október 1925. Hún andaðist á dvalarheimilinu Uppsölum, Fáskrúðsfirði, 7. júlí 2016.

Foreldrar hennar voru Jónína Sigurðardóttir, f. 1891, d. 1969, og Stefán Stefánsson, f. 1891, d. 1975. Bræður Auðar voru: 1) Aðalsteinn, f. 1917, d. 2001, 2) Ásgeir, f. 1919, d. 2007, 3) Stefán, f. 1930, d. 2014.

Eiginmaður Auðar var Birgir Ari Einarsson, fyrrverandi skólastjóri á Breiðdalsvík, f. 11. apríl 1928, d. 29. maí 2016. Börn þeirra eru: 1) Anna Margrét, f. 1960, 2) Einar Heiðar, f. 1962, 3) Jónína Björg, f. 1966, maki Hermann M. Arnþórsson, f. 1966. Börn: a) Birgir Jónsson, f. 1984, maki Jóhanna Rut Stefánsdóttir, f. 1986. Börn þeirra eru Gunnhildur Anna, f. 2009, og Hákon Hrafn, f. 2014. b) Aðalheiður Kristín Hermannsdóttir, f. 1987, sambýlismaður Daniel Senese, f. 1985. c) Arnþór Ingi Hermannsson, f. 1988, sambýliskona Karítas Ósk Valgeirsdóttir, f. 1994. Barn þeirra er Hlynur Logi, f. 2014. d) Auður Hermannsdóttir, f. 1993, sambýlismaður Pétur Viðarsson, f. 1982.

Auður ólst upp á Hamri í faðmi stórfjölskyldunnar fyrstu æviárin en fluttist með foreldrum sínum og bræðrum að Fagradal í Breiðdal vorið 1935. Hún naut almennrar farskólakennslu en veturinn 1946-1947 lá leiðin í húsmæðraskólann að Staðarfelli í Dölum. Auður var um tíma á Akureyri þar sem hún gætti barna og vann í fataverksmiðju Gefjunar. Hún starfaði við mötuneyti Staðarborgarskóla í Breiðdal um skeið, rak sumarhótel í Staðarborg, ásamt fleirum, í nokkur sumur og vann í fiski í mörg ár auk þess að vera húsmóðir á gestkvæmu heimili. Síðasta árið dvaldist Auður á dvalarheimilinu Uppsölum á Fáskrúðsfirði.

Útför Auðar fer fram frá Heydalakirkju í Breiðdal í dag, 30. júlí 2016, klukkan 14.

Elsku besta amma. Þegar við sátum saman upp frá fyrir tveimur mánuðum að skoða myndir af mér með ykkur afa gat ég ekki ímyndað mér að mánuði síðar hefðir þú sameinast honum að nýju. Mér datt þó helst í hug að hann gæti ekki hafa verið lengur án þín en í þennan mánuð sem leið frá því að hann kvaddi. Þegar við skoðuðum þessar myndir rifjuðum við um leið upp ótal minningar af ferðalögunum sem við fórum í saman og þótt það væru kannski 20 ár síðan þau höfðu verið farin gast þú lýst þeim eins og þau hefðu verið farin daginn áður. Ég hef yfirleitt verið talinn hafa gott minni, sem ég fæ líklega frá þér, en ég hef samt ekki tærnar þar sem þú hafðir hælana. Þú mundir allt sem þú last og gast rakið ættir og lífshlaup fólks sem þú hafðir kannski aðeins lesið eina grein um í blaðinu.

Ég hugsaði oft að ef þú hefðir haft kost á að ganga menntaveginn hefðir þú farið alla leið þar og skapað þér enn meiri frama utan veggja heimilisins. Hlutskipti þitt innan veggja heimilisins var ekki síður mikilvægt og það sem ég minnist hvað best. Þú passaðir alltaf upp á að ég væri vel til fara og síðan var afar mikilvægt að ég fengi nóg að borða. Ég vandist því aldrei að sofa lengur en fram að hádegi í fríum þar sem ég þurfti að vera vaknaður til að borða hádegismat sem var eldaður í hverju einasta hádegi. Síðan var passað upp á að maður fengi eitthvað með kaffinu og yfirleitt var kvöldmatur líka. Þegar ég var kominn í menntaskóla og síðan suður í háskóla passaðir þú að hafa alltaf eitthvað sem mér þætti gott að borða þegar ég kom heim í fríum. Ég get sagt að ég hafi aldrei fengið eins góðan mat og bakstur og þann sem þú gerðir og var ekki einn um þá skoðun. Ég man eftir því þegar þú fékkst til þess að selja flatbrauðið þitt á útimarkaðnum þá seldist það yfirleitt upp sama hversu mikið var gert. Ég man svo vel eftir því þegar ég hafði setið með þér kvöldið fyrir, þar sem þú pakkaðir flatbrauðinu og ég setti merkimiðana á það.

Þú lagðir þó ekki bara áherslu á að ég fengi að borða því þú lagðir alla tíð hart að mér að standa mig vel í skóla. Það gekk þó brösuglega á tímabili þar sem ég veit að þú varðst fyrir vonbrigðum en síðan rétti ég mig við aftur og þú varst mjög stolt af mér síðustu ár þótt þú hafir ekki haft mörg orð um það. Þú varst lítið fyrir að segja þína skoðun á mönnum og málefnum og til dæmis vildirðu aldrei segja mér hvað þú kysir í kosningum. Það var ekki fyrr en eftir forsetakosningarnar í sumar sem þú sagðir að okkar maður hefði unnið.

Elsku amma, ég gæti ekki verið þakklátari fyrir að hafa verið alinn upp af ykkur afa. Þið kennduð mér svo margt sem ég á eftir að búa að alla ævi. Ásamt öllum góðu siðunum má nefna góða íslensku og áhuga á landafræði og sögu. Þú kenndir mér líka það hugarfar sem einkenndi þig sem er að hugsa vel um þá sem eru í kringum sig og líta alltaf fram á veginn þótt eitthvað slæmt gerist. Ég veit ekki um neina manneskju sem er harðari af sér en þú varst. Ég veit að þið afi fylgist saman með okkur og þú passar vel upp á hann.

Þinn

Birgir.

Elsku amma og afi.

Það er svo margt sem hægt er að minnast. Minningar um elskuleg hjón sem voru alltaf svo góð við litla pattaralega ömmu- og afastrákinn sinn. Þið kennduð mér svo margt og leiðbeinduð mér í gegnum bernskuárin, þegar ég var að ana út í einhverja vitleysu.

Minningarnar eru allar svo fallegar og góðar. Minningin um allar símhringingarnar sem mér þóttu stundum vera of margar, afi minn, eru af hinu góða. Ég veit að þú meintir vel með þeim og þú varst bara að hugsa um krakkana sem þér þótti svo vænt um.

Ég minnist bílferðanna sem við áttum inn í sveit og eru mér mjög kærar, þar sem þú leyfðir mér að æfa mig að keyra á gömlu Lödunni, var ég ekki nema 10-12 ára býst ég við, en allt er leyfilegt í sveitinni. Einnig eru vitjanirnar í netin út á Meleyri mjög minnisstæðar. Oftar en ekki var silungur í netinu og fórum við með aflann heim til ömmu sem gerði að honum og verkaði. Þú varst alltaf svo dugleg amma mín, tilbúin með matinn í hádeginu handa liðinu og stóðst þína vakt í eldhúsinu frá morgni til kvölds. Ég skil ekki hvernig þú fórst að þessu öllu saman. Þegar fólk bar að dyrum varstu farin inn í eldhús að græja kræsingarnar á borðið og var þetta yfirleitt stærðarinnar hlaðborð sem enginn mátti yfirgefa fyrr en hann væri að minnsta kosti búinn með þrjá diska. Skipti það ekki máli hvernig þú varst upplögð, alltaf stóðstu fyrir þínu. Ég minnist þess að þegar ég fór heim frá ykkur þá sendir þú mig alltaf með kleinur eða köku með mér í „nesti“, eins og þú varst vön að kalla það, því ekki mátti litli pattaralegi drengurinn svelta.

Þið voruð alltaf svo hreinskilin og góð hjón og verður ykkar sárt saknað af öllum þeim sem þið tengdust vinaböndum í gegnum tíðina. Ég á eftir að sakna samverustundanna okkar saman. Þegar ég og þú, afi, þrættum um alls konar málefni sem snerust í hausnum á mér og þegar þú, amma, sast við eldhúsborðið og leystir krossgátur á meðan ég sat og drakk kalda mjólk og borðaði heitar kleinur.

Núna eruð þið komin á betri stað og veit ég að ykkur líður vel. Beddinn á sínum stað og eldavélin örugglega ekki langt undan. Ykkar

Arnþór (Addi).

Auður kvaddi snöggt á góðum sumardegi aðeins rúmum mánuði á eftir eiginmanni sínum. Í okkar fjölskyldu var sjaldan talað um annað þeirra nema nefna þau bæði enda voru þau hjón samrýnd en þó á margan hátt ólík. Þau sýndu hvort öðru virðingu og áttu farsælt hjónaband. Við sem yngri erum gætum gert heiminn betri ef við tileinkuðum okkur mannkosti þeirra hjóna, eða gildi eins og nú er stundum talað um. Auður var gædd gáfum á mörgum sviðum, fróð og minnug. Heimili þeirra Birgis var gestkvæmt og þegar gesti bar að garði voru þjóðmálin rædd. Eiginmaður hennar hafði sterkar skoðanir, hún hafði ákveðnar skoðanir sem hún setti fram á hæverskari hátt. Okkur er minnisstætt hversu vel hún var inni í þjóð- og dægurmálum og setti okkur yngra fólkið á gat í umræðu um t.d. íslenskar hljómsveitir sem væru að gera það gott úti í heimi. Auður var víðlesin, fylgdist vel með fjölmiðlum alla tíð og með „límheila“ eins og það er stundum kallað í dag og gaf lítið eftir þrátt fyrir að vera komin á tíræðisaldur. Nú síðast í erfidrykkju eiginmanns síns rifjaði Auður upp ýmis minningabrot og örnefni í sveitinni sem hún ólst upp í fyrstu æviárin, en sagðist nú lítið muna samanborið við bróður sinn, Ásgeir. Auður var ákaflega gestrisin og bar á borð fallegustu og bestu kræsingar sem þekkjast. Hin síðari ári var hvergi slakað á þegar gesti bar að garði, þrátt fyrir að líkaminn væri orðinn þreyttur. Auður studdi sig við hækju og borðbrún og dró fram allar tegundir. Ekki skipti máli þó að gesti bæri óvænt að eða hvaða árstíð væri. Auður virtist ávallt eiga birgðir af góðgæti handa öllum, hún vissi hvað börnunum og Birgi þótti best og okkur öllum hinum. Flest af því sem var borið á borð þurfti talsverðrar fyrirhafnar við en það stöðvaði ekki Auði. Napóleonskökur, gyðingakökur, heimsins besta flatbrauð (sem þau bökuðu saman hjónin) og fleira var töfrað fram við minnsta tilefni. Við vorum sennilega ansi mörg sem höfðum matarást á Auði og því ekki skrýtið að ein fyrsta minning bróður míns sé tengd veisluhöldum og að telja kökurnar sem Auður bakaði fyrir erfidrykkju tengdaföður síns í Hamri. Þó það væri líf hennar og yndi að taka á móti gestum og fólkinu sínu voru viðfangsefnin mörg. Auður var mjög fróð um land og þjóð, frændrækin, barngóð og bar mikla virðingu fyrir börnum. Hún var dýravinur eins og bræður hennar. Auður hugsaði vel um foreldra sína og bræður eftir að hún fluttist frá Fagradal. Allt lék í höndum hennar og var hún hörkudugleg til vinnu utan heimilis þegar hún hafði tök á að sinna því. Auður hafði fallega rithönd allt fram á síðasta dag. Jólakortin sem hún skrifaði verða varðveitt á mínu heimili og sýna ákveðna fullkomnun sem hægt er að ná í þeirri list, sem ber kannski vott um þann metnað, vandvirkni og alúð sem Auður lagði í verk sín. Við erum mörg sem erum þakklát fyrir frændsemi og vináttu þeirra hjóna og kveðjum þau með virðingu og miklum söknuði. Við systkinin og fjölskylda sendum börnum Auðar og Birgis og öðrum aðstandendum okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Sigrún (Sirra) og fjölskylda.

Kær vinkona, Auður Stefánsdóttir frá Fagradal í Breiðdal, er fallin frá á 91. aldursári, aðeins fjórum vikum eftir að maður hennar, Birgir Einarsson, var borinn til grafar. Kallið kom snöggt, en í stíl við þessa einstöku konu, sem vildi aldrei láta hafa fyrir sér heldur fórnaði sér fyrir aðra alla tíð. Í mínum augum var Auður hetja, sem fannst hún aldrei gera nógu vel við aðra, hvort sem það var fjölskylda hennar, bræður og aðrir ættingjar eða stór vinahópur. Í minningunni sitja eflaust lengst innilegar móttökur í hvert skipti sem við hittumst, óðara var ráðist í að bera fram góðgjörðir og ósjaldan hringdi hún og sagðist vera búin að elda mat og hvort ég vildi ekki skreppa yfir. Gestrisni Auðar og elskulegs manns hennar átti sér engin takmörk. Þau nutu sín best þegar þau gátu veitt gestum sínum háum sem lágum veitingar og hlýju sem nóg var til af hjá þeim.

Auður var afar vel gefin, var stálminnug fram til síðasta dags, las mikið og mundi allt sem hún las.

Á fyrri hluta síðustu aldar átti alþýðufólk ekki kost á að ganga menntaveginn, jafnvel þótt geta og áhugi væri til staðar. Þannig var það með Auði en hún fór þó í húsmæðraskóla á yngri árum og bjó að þeirri reynslu æ síðan.

Þegar ég heimsótti hana í síðasta sinn á hjúkrunarheimilinu Uppsölum viku fyrir andlátið lá hún í rúmi sínu og var að lesa Heima er best þegar ég kom. Við spjölluðum lengi saman, hún hlakkaði mikið til að hitta frænku sína sem búsett er í Kanada en hugðist koma heim til að halda upp á stórafmæli hér. Þegar Auður sagði frá þessu ljómaði hún af tilhlökkun og sagðist ætla að vera með Hrönn heima í Fagradal í nokkra daga.

Leitt er að ekki varð af þessum endurfundum en Hrönn var Auði afar kær og talaði hún oft um hana.

Í minningargrein um Birgi sagði ég: Allir voru ætíð velkomnir til þeirra hjóna og var ekki laust við að manni fyndist stundum ótrúlegt hvað þau gátu gefið mikið af sér. Þetta átti jafnvel enn frekar við Auði, sem virtist óþreytandi og fannst hún aldrei veita nógu vel.

Umhyggja fyrir fjölskyldunni, eiginmanni, börnum, barnabörnum og barnabarnabörnum, var ómæld en einnig voru heimsóknir hennar í Fagradal til bræðra hennar mikilvægar og ekki lá hún þar á liði sínu við að aðstoða þá á allan hátt.

Auður fór ekki varhluta af heilsubresti, um sextugt lærbrotnaði hún og fór í aðgerð sem mistókst og leiddi til þess að hún þurfti að fara fjórum sinnum í liðskipti á mjaðmarlið og fyrir rúmu ári lærbrotnaði hún, en þessi sterka kona komst aftur á fætur og sýndi þar ótrúlegan viljastyrk og elju. Hún missti heyrn á öðru eyra fyrir mörgum árum og háði það henni, ekki síst þar sem heyrn á hinu eyranu dapraðist smám saman.

Nú eru allir þessir kæru vinir mínir fallnir frá og mun ég sannarlega sakna þeirra sárt. Vinátta mín við þau Auði og Birgi og bræðurna í Fagradal hefur verið mér ómetanleg. Og öll hlýja og umhyggja þessa góða fólks í minn garð verður aldrei fullþökkuð.

Að leiðarlokum þakka ég Auði fyrir allt sem hún gerði fyrir mig og bið henni Guðs blessunar.

Hákon Hansson.

Elsku Auður. Hafðu þökk fyrir hlýju þína, tryggð og vináttu við móður mína og alla fjölskyldu hennar. Við þökkum af hlýhug þá gæfu að hafa kynnst þér og átt vináttu þína. Að heyra ljóslifandi sögur frá Hamri í Hamarsfirði og frá Fagradal í Breiðdal lét engan ósnortinn. Minnið svo sterkt að undrun sætti. Þú varst svo mörgum kostum prýdd og verður alltaf fegursta liljan í mannhafinu. Þú prýddir blettinn þinn vel.

Önnu Margréti, Einari (Búa), Jónínu og fjölskyldum vottum við okkar dýpstu samúð.

Ég leit eina lilju í holti,

hún lifði hjá steinum á mel.

Svo blíð og svo björt og svo auðmjúk

en blettinn sinn prýddi hún vel.

Ég veit það er úti um engin

mörg önnur sem glitrar og skín.

Ég þræti ekki um litinn né ljómann

en liljan í holtinu er mín!

Þessi lilja er mín lifandi trú,

þessi lilja er mín lifandi trú.

Hún er ljós mitt og von mín og yndi.

Þessi lilja er mín lifandi trú!

Og þó að í vindinum visni,

á völlum og engjum hvert blóm.

Og haustvindar blási um heiðar,

með hörðum og deyðandi róm.

Og veturinn komi með kulda

og klaka og hríðar og snjó.

Hún lifir í hug mér sú lilja

og líf hennar veitir mér fró.

(Þorsteinn Gíslason.)

Stefán Skafti Steinólfsson

og Þórey Helgadóttir.

Nú, þegar Auður Stefánsdóttir er látin, hafa þau öll kvatt systkinin frá Fagradal í Breiðdal, traustir og góðir vinir til áratuga. Sumarið 1963 fór ég átta ára gamall í sveit í Fagradal þar sem bræður Auðar ráku myndarbú með foreldrum þeirra systkina. Ekki hefði verið hægt að gera betur við ungan dreng en gert var við mig í dalnum fagra, og þau urðu átta sumrin sem ég dvaldist þar. Auður var ekki langt undan því hún bjó á Breiðdalsvík með manni sínum, Birgi Einarssyni, og börnum þeirra, Önnu Margréti, Einari Heiðari og Jónínu. Þessi nálægð reyndist mér dýrmæt á þessum árum því Auður, Birgir og börnin komu oft inn í Fagradal. Því fylgdi gleði á ýmsa lund, s.s. að ég var stóri strákurinn í barnahópnum og svo var líka oft haft meira við í mat og bakkelsi sem þó var frábært fyrir.

Eftir að við fjölskyldan fluttumst heim til Austurlands 1988 þá voru tengslin við bræðurna í Fagradal og Auði og hennar fjölskyldu dýrmæt og hafa verið síðan. Auður var hæglát kona sem öllum vildi vel og lagði gott eitt til bæði manna og málefna, iðin og sívinnandi og þá ekki síst við að gera vel við alla þá sem komu á heimili hennar. Hún hefur síðustu árin dvalist á hjúkrunarheimilinu Uppsölum og þakklát að vanda, þá talaði hún mikið um hve gott væri að vera þar og hve vel væri um sig hugsað. Þangað heimsóttum við hjónin Auði síðast daginn eftir að Birgir maður hennar lést í lok maí síðastliðins. Við höfðum ekki tök á að fylgja honum til grafar og þessi fátæklegu orð um Auði eru því kveðja okkar til þeirra beggja. Börnum þeirra og fjölskyldu sendum við innilegustu samúðarkveðjur.

Pétur Heimisson,

Ólöf Ragnarsdóttir.