Sálmar Það verða m.a. fluttir sálmar og Maríubænir eftir Bach og Pál Ísólfsson.
Sálmar Það verða m.a. fluttir sálmar og Maríubænir eftir Bach og Pál Ísólfsson. — Morgunblaðið/Ómar
Söngvararnir Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran og Ágúst Ólafsson barítón koma fram á lokatónleikum í tónleikaröðinni Englar og menn á morgun í Strandarkirkju en með þeim leikur Jón Bjarnason á orgel.

Söngvararnir Sigríður Ósk Kristjánsdóttir mezzósópran og Ágúst Ólafsson barítón koma fram á lokatónleikum í tónleikaröðinni Englar og menn á morgun í Strandarkirkju en með þeim leikur Jón Bjarnason á orgel.

Yfirskrift tónleikanna er Stóðum tvö í túni og koma þrímenningarnir til með að flytja dagskrá sem hæfir vel gömlu íslensku sveitakirkjunni og harmóníum orgelsins eins og segir í tilkynningu.

Flutt verða trúarleg lög, meðal annars sálmar og Maríubænir eftir Bach og Pál Ísólfsson ásamt íslenskum og erlendum þjóðlögum og sönglagaperlum. Í tilkynningu segir að hátíðin hafi verið einkar vel sótt í sumar og að heimamenn hafi stutt vel við viðburðina. Tónleikarnir á morgun hefjast að venju klukkan 14.