Illugi Gunnarsson
Illugi Gunnarsson
Jóhannes Tómasson johannes@mbl.

Jóhannes Tómasson

johannes@mbl.is

Tvö tilboð bárust mennta- og menningarmálaráðuneytinu, annars vegar frá Tónlistarskóla Reykjavíkur og Tónlistarskóla FÍH, og hins vegar frá Tónlistarskóla Sigursveins og Tónlistarskóla Kópavogs, um að taka að sér rekstur á nýjum listframhaldsskóla á sviði tónlistar sem tekur til starfa í haust. Skólinn verður sá fyrsti sinnar tegundar. „Skólarnir sem skiluðu inn tilboðunum eru allir í fullum rekstri og þeir sem við gerum samning við halda sinni starfsemi áfram á nýjum grunni þó að formið breytist hjá þeim,“ segir Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.

Getið er um skólann í samkomulagi sem gert var 13. apríl á milli mennta- og menningarmálaráðuneytis, innanríkisráðuneytis og fjármálaráðuneytis af hálfu ríkisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga um stuðning við tónlistarnám. Annar þáttur samkomulagsins var að ríkissjóður myndi greiða árlegt framlag til sveitarfélaga í verðtryggðan jöfnunarsjóð sem er dreift til tónlistarskóla um allt land.

Illugi segir að jöfnunarsjóðurinn muni halda sér. „Nú er gert ráð fyrir því að 200 nemendur fari í nýjan skóla, sem þýðir að framlagið fyrir hvern nemanda eykst þar sem ríkið tekur að sér 200 nemendur sem fá ekki úr jöfnunarsjóðnum.“

Búist er við því að nemendurnir komi víðs vegar að af landinu og fer kennslan fram á framhaldsstigi með áherslu á tónlistarkennslu. „Við ætlum að semja við einkaaðila ekki á ósvipaðan hátt og ríkið semur við Verzlunarskóla Íslands. Þar er skóli með megináherslu á viðskipti og verslun, og hér höfum við framhaldsskóla sem leggur megináherslu á tónlist,“ segir Illugi.

Öll svið tónlistar

Boðið verður upp á tónlistarnámsbraut og miðað er við að í skólanum verði boðið upp á kennslu á öllum sviðum tónlistar. Lögð er áhersla á að nemendur ljúki stúdentsprófi og því er gert ráð fyrir að í skólanum verði boðið upp á kennslu almennra námsgreina eða að hann verði í samstarfi við opinbera eða viðurkennda framhaldsskóla sem myndu þá sinna almenna hluta framhaldsskólanámsins. Í báðum tilboðunum var gert ráð fyrir að gerður yrði samstarfssamningur við framhaldsskóla.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið gaf út almenna útboðskynningu á rekstri framhaldsskólans.

„Á bak við bæði tilboðin standa rótgrónar stofnanir og þess vegna var útboðskynningin almenn. Við vorum bara að kalla eftir fagaðilum, sem koma síðan með hugmyndir að námsskipulagi,“ segir Illugi en þeir rekstraraðilar sem samið verður við munu sjá um að móta námsskrá skólans.

Matsnefnd gaf einkunn

Bjóðendur kynntu tillögur sínar fyrir matsnefnd mennta- og menningarmálaráðuneytisins á kynningarfundi vikuna 27. júní - 1. júlí. Matsnefnd sendi síðan niðurstöðu sína til mennta- og menningarmálaráðherra, sem tekur síðan endanlega afstöðu til þess við hvern verður samið.