Sterkir Ísland mætti Króatíu tvisvar í umspilinu fyrir heimsmeistaramótið í Brasilíu árið 2013.
Sterkir Ísland mætti Króatíu tvisvar í umspilinu fyrir heimsmeistaramótið í Brasilíu árið 2013. — Morgunblaðið/Golli
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fótbolti Þorsteinn Friðrik Halldórsson tfh@mbl.is Tæplega mánuður er liðinn frá leik Íslands gegn Frakklandi á Evrópumótinu. Andleg líðan hafði náð hæstu hæðum en síðan kom spennufallið, þynnkan sem menn eru nú að jafna sig á.

Fótbolti

Þorsteinn Friðrik Halldórsson

tfh@mbl.is Tæplega mánuður er liðinn frá leik Íslands gegn Frakklandi á Evrópumótinu. Andleg líðan hafði náð hæstu hæðum en síðan kom spennufallið, þynnkan sem menn eru nú að jafna sig á. Þá er tilvalið að horfa fram á við enda styttist óðum í undankeppni heimsmeistaramótsins sem fer fram í Rússlandi árið 2018. Riðillinn er heldur erfiður, við erum með Úkraínu, Króatíu, Tyrklandi, Finnlandi og Kósóvó. Ekki versti riðillinn en drátturinn hefði getað farið betur.

Hefja leik í Kænugarði

Fyrsti leikur Íslands í undankeppninni verður gegn Úkraínu í Kíev 5. september. Á evrópskan mælikvarða er leikmannahópur Úkraínu að mestu í meðallagi, flestir leikmennirnir spila með félagsliðum í heimalandinu. Þó eru tvær kanónur sem geta skipt sköpum og vert er að passa sig á. Það eru vængmennirnir Andriy Yarmolenko og Yevhen Konoplyanka, báðir stórhættulegir, að minnsta kosti á vellinum.

Við getum huggað okkur við það að úkraínska landsliðið átti afleitt Evrópumót. Liðið skoraði ekki eitt einasta mark og tapaði öllum sínum leikjum, meðal annars á móti Norður-Írlandi. Á móti kemur að í kjölfarið ráku þeir þjálfarann og réðu kempuna Andriy Shevchenko í hans stað. Shevchenko er langmarkahæsti leikmaður Úkraínu en óreyndur þjálfari.

Draugur frá Balkanskaganum

Króatía er án efa sterkasta liðið í riðlinum. Það býr yfir feiknasterkum leikmannahópi eins og Íslendingar ættu að þekkja og hann hefur bara eflst síðan liðið lagði Ísland í umspili fyrir heimsmeistaramótið í Brasilíu. Luka Modric er enn í fullu fjöri og Mario Mandzukic er enn harður í horn að taka. Það á reyndar líka við um okkur.

Króatar voru í frábæru formi á Evrópumótinu, unnu Tyrki og Spánverja í riðlakeppninni, og sumir voru farnir að spá fyrir um að þeir kæmust í úrslitaleikinn áður en Portúgalar slógu þá út. Ljóst er að það verður á brattann að sækja í þeim viðureignum.

Fátt breyst hjá Tyrkjum

Aftur lendum við í riðli með Tyrkjunum. Það eru hins vegar ágætar fréttir í ljósi þess að við tókum þá 3:0 á Laugardalsvelli í síðustu undankeppni. Leikmannahópur Tyrkja hefur ekki tekið miklum breytingum síðan þá. Að jafnaði eru þeir lítillega betri en Úkraínumenn á blaði og Arda Turan er enn stærsta nafnið. Sem betur fer hefur hann lítið fengið að spila hjá Barcelona.

Gengi Tyrklands á Evrópumótinu í sumar var hvorki gott né slæmt, þeir töpuðu gegn Spánverjum og Króötum eins og búist var við og unnu Tékka. Við eigum góða möguleika á því að hrifsa til okkar nokkur stig í leikjunum gegn Tyrklandi.

Lítilmagnarnir

Til að eiga möguleika á að komast á heimsmeistaramótið árið 2018 þarf að sækja sem flest stig í leikjunum gegn Finnlandi og Kósóvó. Á blaði erum við sterkari en bæði lið. Finnar hafa ekki átt stórt nafn í leikmannahópnum síðan Sami Hyypiä og Jari Litmanen. Þeir hafa aldrei komist á stórmót og ekki unnið leik á árinu 2016.

Um Kósóvó er ekki mikið að segja enda gerðist landið ekki formlegur aðili að Alþjóðaknattspyrnusambandinu fyrr en í maí á þessu ári. Þangað er nauðsynlegt að sækja 3 stig.

Það verður áhugavert að sjá hvernig landsliðið mun plumma sig eftir þjálfaraskiptin, það eru viðkvæm tímamót. Þá er gott að hafa í huga að við erum enn þá litla Ísland og höfum nú þegar gert betur en nokkurn hefði getað órað fyrir.