Átökin standa á milli „ráðandi afla“ og þeirra sem standa utan garðs – segir Robert B. Reich

Á allmörgum undanförnum árum og sérstaklega frá því að fjármálakreppan skall á af fullum krafti 2008 hefur sú tilhneiging verið áberandi í nálægum löndum, að fylgi kjósenda hafi færzt frá hefðbundnum stjórnmálaflokkum til nýrra flokka yzt til hægri og vinstri. Í Frakklandi hafa kjósendur sótt til hægri til Þjóðfylkingar Marine Le Pen. Svipuð þróun hefur orðið í Hollandi (Frelsisflokkurinn) og í Danmörku (Danski þjóðarflokkurinn). Á Spáni og í Grikklandi hafa vinstri flokkar notið góðs af þessum breytingum og á Ítalíu flokkur undir forystu „Jóns Gnarr“ þeirra á Ítalíu.

Framan af voru þessar breytingar skýrðar með versnandi afkomu fólks vegna fjármálakreppunnar, stórauknu atvinnuleysi og óánægju með vaxandi þrýsting frá Brussel á sameiningu Evrópuríkja. Hið síðastnefnda var talið skýra uppgang Ukip í Bretlandi.

Síðustu árin hefur svo vaxandi flóttamannastraumur til Evrópu bætzt við og ótti fólks við áhrif flóttamanna á evrópsk samfélög er talinn skýra vaxandi uppgang flokka og hreyfinga yzt til hægri og vinstri.

Þegar Donald Trump tilkynnti framboð sitt til forseta Bandaríkjanna datt engum í hug að hann mundi ná útnefningu repúblikana, hvað þá að hann hefði möguleika á að ná kjöri. Þær hugmyndir hafa nú verið afsannaðar rækilega.

Hér á Íslandi hefur þetta pólitíska umrót komið fram í því að Píratar, sem voru jaðarflokkur, hafa mánuðum saman verið stærsti flokkur landsins í skoðanakönnunum og uppdráttarsýki hefðbundinna flokka orðið æ skýrari. Og kannski að einhverju leyti í úrslitum forsetakosninga. Guðna Th. Jóhannessyni hefði áreiðanlega ekki dottið í hug fyrir ári, að hann mundi taka við embætti forseta Íslands nk. mánudag.

Margir hafa átt erfitt með að skilja þessa þróun beggja vegna Atlantshafs og hér á Íslandi og þótt framangreindar skýringar eigi áreiðanlega hlut að máli hefur leitin að trúverðugri skýringum haldið áfram.

Fyrir nokkrum dögum setti William Hague, fyrrverandi leiðtogi brezka Íhaldsflokksins, fram þá skoðun í blaðagrein að með sama hætti og ófaglært fólk hefði orðið undir í lífsbaráttunni á síðari hluta 20. aldar teldi millistéttinni sér nú ógnað af alþjóðavæðingu og tæknivæðingu, sem gæti leitt til þess að hún missti vinnu sína og þar með lífsframfæri.

En áhugaverðasta skýringin er þó sú sem maður að nafni Robert B. Reich, fyrrverandi vinnumálaráðherra í fyrri ríkisstjórn Bill Clintons, hefur sett fram en hún er eitthvað á þessa leið:

Hægri og vinstri eru úrelt hugtök til að skýra skiptingu fólks á milli flokka og þjóðmálahreyfinga og þar með hugtakið miðjan. Skiptingin nú stendur á milli þeirra sem teljast til „ráðandi afla“ (e. establishment) og þeirra sem standa utan garðs (e. anti-establishment). Sterkasta aflið í bandarískum stjórnmálum í dag, segir Robert B. Reich, er reiði þeirra sem standa utan garðs vegna þess að stjórnkerfinu sé beitt í þágu stórfyrirtækja, fjármálamarkaða og auðmanna.

Þessari andófshreyfingu skiptir hann í tvennt. Annars vegar þá sem aðhyllast hinn „sterka“ leiðtoga og þar sé komin skýringin á miklu fylgi Trumps og hina sem aðhyllist lýðræðislegri stjórnarhætti og þeir skýri mikið fylgi Bernie Sanders.

Þessa athyglisverðu kenningu Roberts B. Reich má yfirfæra á okkar samfélag hér á Íslandi með eftirfarandi hætti:

Hinir hefðbundnu stjórnmálaflokkar hafi allir, hver með sínum hætti, orðið hluti af hinum „ráðandi öflum“ á Íslandi og tekið virkan þátt í því að beita stjórnkerfi Íslands í þágu útgerðar, viðskiptasamsteypa, fjármálafyrirtækja og annarra „forréttindahópa“. Það hafi vinstri flokkarnir gert með því að gefa framsal veiðiheimilda frjálst 1990 án þess að taka upp veiðigjald um leið, það hafi Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur gert með einkavæðingu bankanna hinni fyrri sem ruddi brautina fyrir nýjar viðskiptasamsteypur, þegar til varð í enn ríkara mæli en áður eins konar banvænt faðmlag stjórnmála og viðskiptalífs, það hafi vinstri flokkarnir gert á ný með einkavæðingu bankanna hinni seinni og með því að hugsa meira um hagsmuni bankanna eftir hrun en fólksins í landinu sem missti allar eigur sínar.

Og þegar fólkið í landinu hafi séð 2007 birtast á ný eins og hendi væri veifað hafi því verið nóg boðið og snúið sér að Besta flokknum í Reykjavík og síðar Pírötum á landsvísu. Ný vísbending um viðhorf „ráðandi afla“ gæti verið nýlegur úrskurður Kjararáðs um laun æðstu embættismanna.

Hinir hefðbundnu flokkar hafa fram að þessu ekki sýnt nokkur merki þess að vilja ræða eða reyna að skilja hvað fyrir þá hefur komið. Fyrsta vísbending um að það gæti verið að breytast er afgerandi breyting á afstöðu Bjarna Benediktssonar til velferðarmála almennt og heilbrigðismála sérstaklega, en hann hefur lýst sig reiðubúinn til að draga verulega úr beinni greiðsluþátttöku almennings vegna heilbrigðisþjónustu. Hið sama má segja um grein Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar hér í Morgunblaðinu fyrir skömmu, þar sem hann tók málefni aldraðra og öryrkja til sérstakrar umræðu.

Vera má að Samfylkingin sé að byrja að átta sig á að rof á milli hennar og verkalýðshreyfingarinnar sé að verða meira en örlagaríkt fyrir flokkinn. Alla vega má skilja Oddnýju G. Harðardóttur á þann veg.

En afstaða til einstakra mála mun ekki ráða úrslitum fyrir þessa flokka.

Það eina sem dugar er gjörbreytt viðhorf í grundvallaratriðum.

Styrmir Gunnarsson styrmir@styrmir.is