Góður KR-ingurinn Þórir Þorbjarnarson.
Góður KR-ingurinn Þórir Þorbjarnarson. — Morgunblaðið/Eggert
Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 18 ára og yngri hóf leik í B-deild Evrópumótsins með 97:50 sigri gegn Lúxemborg. Leikurinn fór fram í Skopje í Makedóníu í gær.

Íslenska karlalandsliðið í körfuknattleik skipað leikmönnum 18 ára og yngri hóf leik í B-deild Evrópumótsins með 97:50 sigri gegn Lúxemborg. Leikurinn fór fram í Skopje í Makedóníu í gær.

Eyjólfur Ásberg Halldórsson, leikmaður ÍR, var stigahæstur í íslenska liðinu með 15 stig, en hann tók þar að auki 14 fráköst. Þórir Guðmundur Þorbjarnarson, leikmaður KR, kom næstur með 14 stig, en hann stal auk þess sjö boltum.

Mikill gæðamunur er á þessum tveimur liðum og hann kom fljótlega í ljós. Ísland hafði 18 stiga forystu í hálfleik, 52:34 og íslensku strákarnir settu svo í fluggír í seinni hálfleik sem þeir unnu með fáheyrðum yfirburðum, 45:16. Ísland skoraði margar auðveldar körfur eftir að hafa þvingað leikmenn Lúxemborgar í vandræði en alls stálu íslensku strákarnir boltanum 16 sinnum í leiknum.

Einar Jóhannesson landsliðsþjálfari gat dreift álaginu vel í gær og allir 12 leikmenn Íslands skoruðu í leiknum. Það eina sem hægt er að setja út á í frammistöðu gærdagsins er sú staðreynd að íslenska liðið tapaði boltanum 23 sinnum í leiknum, sem verður að teljast fullmikið.

Næsti leikur Íslands er á morgun þegar liðið tekur á móti Tékklandi, en auk fyrrgreindra liða eru Danmörk, Eistland og Holland í C-riðli mótsins.