Sigurhans Þorbjörnsson fæddist 1. desember 1931. Hann andaðist 6. júlí 2016.

Útför Sigurhans fór fram 14. júlí 2016.

Þegar ég kom inn í fjölskyldu Hansa snemma á áttunda áratugnum var ég ekki nema pínulítil og pervisin stelpa í hans huga. Fyrir mér var hann stór maður með mikla rödd og ákveðinn í fasi. Okkur gekk þó ágætlega að ná saman og hóf ég störf við söluturn þeirra Báru við Grensásveg strax á fyrsta ári okkar kynna. Hansi starfaði þá sem verkstjóri Þóris í Sanitas og við fórum í margar skemmtiferðir með hressum hópi samstarfsmanna þeirra. Eftir að faðir minn féll frá nokkrum árum síðar, leitaði ég oftar en ekki til Hansa sem reyndist mér afar vel í alla staði. Seinna fór svo Þórir að vinna á leigunni (Véla- og tækjaleigan Áhöld) með Hansa. Þangað kom ég og borðaði með þeim feðgum hádegismat þegar ég var í háskólanum enda var líffræðin kennd niðri á Grensásvegi. Það var oft gestkvæmt á leigunni og mikið rætt um málefni hversdagsins. Hansi hafði gaman af að spekúlera í öllu mögulegu og það var gaman að rökræða við hann því hann kynnti sér málin, gat hlustað og var víðsýnn, þó hann hefði sterkar skoðanir á flestu. Hann hafði auðvitað sérstakan áhuga á vélum enda hafði hann sett saman ófáa vélarhluta um ævina. Þar sem ég hafði lært vélateikningu gátum við strax fundið sameiginlegt umræðuefni og hann fræddi mig um námsárin sín, námsefnið og kennara sem honum voru minnisstæðir. Hansi var vel sigldur og hafði komið við í mörgum hafnarborgum Evrópu og Ameríku. Hann talaði um Hull, Grimsby og New York (hann sagði alltaf nevjork) eins og hann hefði verið þar í gær. Hann hafði einnig ferðast innanlands og sagði okkur frá bílferð til Vestfjarða sem áreiðanlega hefur verið heilmikið ævintýri því á þeim tíma var vegakerfið í þeim landshluta ekki eins gott og í dag. Honum varð tíðrætt um Vík og sveitina undir Eyjafjöllum og greinilegt að þaðan átti hann góðar minningar. Þau Bára fóru víða saman innanlands og utan og kom hún stundum með honum í siglingar, meðal annars til New York og Þórir, sem var yngstur, fór líka með þangað. Mér fannst þetta allt saman mjög spennandi enda átti ég ekki kost á slíkum ferðalögum sem barn og las bara um þessa staði í bókum og blöðum. Hansi hafði líka oft komist í hann krappan en ávallt verið heppinn og var nánast eins og einhver verndarhönd væri yfir honum, hvort sem var til sjós eða lands. Hann var farsæll maður, ástríkur og vinmargur og hugsaði vel um sitt fólk. Við fórum í boð til systur hans og fjölskyldu hennar í Keflavík og var augljóst að miklir kærleikar voru á milli þeirra Petu og Hansa. Peta kvaddi allt of snemma en Bragi, eiginmaður hennar, hélt áfram góðu sambandi við Hansa og sá um að börnin héldu tengslum. Það var ávallt glatt á hjalla hjá þeim Báru á Skólabrautinni og mér er minnisstætt sextugsafmæli Hansa þar sem var sungið og spilað á harmonikku og gleðin fór fram á öllum þremur hæðunum. Á Skólabrautinni voru allir velkomnir og alltaf nóg pláss fyrir alla. Ég minnist þeirra hjóna með söknuði.

Ég þakka samfylgdina og auðsýnda væntumþykju alla tíð, hvíl í friði, Hansi minn.

Ester Rut Unnsteinsdóttir.