Lýður Árnason læknir
Lýður Árnason læknir
Eftir Lýð Árnason: "Helsti hvati til að taka á móti flóttafólki hlýtur að vera mannúð. Það þýðir ekki endilega að þeir sem setja varnagla skorti mannúð."

Málefni innflytjenda eru tíðrædd á Íslandi og fer umræðan harðnandi. Einir vilja loka landinu, aðrir opna það, en flestir líklega einhvern milliveg. En í þessu sem öðru eru þeir sem yzt á plankanum standa mest áberandi og gildir það um báða enda.

Höfum í huga að helsti hvati til að taka á móti flóttafólki hlýtur að vera mannúð. Það þýðir ekki endilega að þeir sem streitast á móti eða setja varnagla skorti mannúð. Frekar að henni sé beint annað. Vitanlega eru til vondar manneskjur en upp til hópa erum við flest blanda mannúðar og grimmdar þó kveikjurnar séu mismunandi. Að kalla hvert annað ónöfnum eða telja til úrhraka vegna skoðana er óvænleg leið til árangurs og gerir lítið annað en að ýta undir öfgar.

Þegar kemur að móttöku flóttafólks held ég flesta vilja sýna mannúð og taka þátt í alþjóðlegri ábyrgð. Á Íslandi erum við heldur ekkert mjög mörg og gætum hæglega nýtt fleiri hausa og hendur. Við hljótum að geta komið okkur saman um tiltekinn fjölda flóttafólks árlega með gagnkvæmum réttindum og skyldum. Við hljótum að vilja hraða umsóknarferli hælisleitenda og samræma meðgjöf þeirra og kvótaflóttafólks. Og varla viljum við rífa upp með rótum fólk sem er að hasla sér völl eða með börn í skólum. Hvað þá heldur að fjölmiðlaumfjöllun sé ráðandi um gæfu fólks.

Eitt er að taka á móti fólki, annað hvernig það samlagast. Í því er sjálfgefið að læra af reynslu annarra þjóða og þó fámennið á Íslandi gefi svigrúm er það einnig heftandi. Þannig er Ísland friðsælt, opið samfélag þar sem mannréttindi eru almenn og fordómar á undanhaldi. Þessum ávinningi viljum við ekki fórna, jafnvel ekki fyrir mannúð, eða hvað?

Málefni innflytjenda brenna á okkur eins og öðrum siðmenntuðum þjóðum, hófstillt umræða væri góð byrjun því hún dregur fram það besta í fari hvers og eins.

Höfundur er læknir.