Sigurbergur Arnbjörnsson fæddist á Sauðárkróki 28. október 1960. Hann lést á gjörgæsludeild Landspítala í Fossvogi 24. október 2016.
Foreldrar hans eru Arnbjörn Sigurbergsson, f. 21. febrúar 1936, og Arnbjörg María Sveinsdóttir, f. 25. október 1942. Systkini Sigurbergs eru Haraldur Sveinn, f. 19. júlí 1962. Jóhanna Valgerður, f. 6. apríl 1965, og Bjarki Þór, f. 10. maí 1968. Fyrrverandi sambýliskona Sigurbergs er Sigríður Þóra Traustadóttir, f. 28. júní 1972. Synir Sigurbergs og Sigríðar eru Jón Óli, f. 14 nóvember 2000, og Árni Björn, f. 8. janúar 2002.
Hann var mikill hestamaður og með eindæmum laginn við þá. Stærstum hluta ævi sinnar eyddi Sigurbergur í vinnu í frystihúsinu og við síldarsöltun bæði hjá KASK, Stemmu og síðar Skinney-Þinganesi. Hann vann við siglingar á Jökulsárlóninu þegar það var að byrja. Hann vann um tíma við akstur með ferðamenn en varð að hætta sökum heilsubrests. Hans rútína sl. ár var að koma til Reykjavíkur frá Hornafirði þrisvar í viku í blóðskilju.
Útför Sigurbergs fer fram frá Hafnarkirkju í dag, 5. nóvember 2016, klukkan 14.

Sigurbergur  var fæddur á Sauðárkróki þann 28. október 1960 daginn eftir brúðkaup foreldra sinna, en sleit barnsskónum að Svínafelli í Nesjum, Hornafirði til 12 ára aldurs er fjölskyldan flutti í Árnanes í Valdahús og bjó þar unglingsárin eða þar til foreldrarnir fluttu með börnin í nýbyggt hús að Hæðargarði 14 í Nesjum, eftir að hann flutti úr foreldrahúsi bjó hann ýmist á Höfn eða í Nesjum með örfáum undantekningum, allt eftir hvernig stóð á vertíð í það og það skiptið, en síðustu árin eftir að heilsunni fór að hraka bjó hann hjá móður sinni að Tjörn 2 á Mýrum.
Æskuárin hjá Sigurbergi voru honum viðburðarík og lífið lék við hvern sinn fingur.  Það varð snemma ljóst hvert  hugur hans stefndi og dugnaðurinn var honum meðfæddur, honum var það ekki eðlislægt að liggja inn í bæ og lesa ef hægt var að vera úti og sinna skepnum og áttu hestar þar sinn uppáhaldsess.  Er hann var kominn á skólaaldur og ekki orðinn læs, var honum lofað að hann skyldi fá að eiga hest ef hann tæki sig á í lestrinum og er okkur sagt að það hafi ekki tekið hann nema örfáa daga að verða fluglæs. Þessi frásögn lýsir Sigurbergi vel, hestinn fékk hann að launum og átti alltaf hesta eftir það.
Stærsti hluti bókmennta, sem hann las eftir það fjölluðu um tamningar, járningar og umhirðu hrossa, eðli málsins samkvæmt.
1972 flutti svo fjölskyldan í Árnanes  og þá hljóp heldur betur á snærið hjá Sigurbergi, þá var hann loksins kominn með alvöru hestamenn sem nágranna, þá bræður Palla og Dúa Jónssyni og má segja að þar hafi hann  fyrst numið þá list sem honum var svo hugleikin alla ævi, að þjálfa og temja hross og allt það annað, sem hestamennsku fylgir.
Það lýsir Sigurbergi vel hversu umhugað honum var um fjölskylduna að um það bil sem flutt var í nýja húsið í Hæðargarði komu upp veikindi hjá föður okkar í nokkra mánuði og taldi Sigurbergur það ekki eftir sér að gerast fyrirvinnan og sjá fyrir fólkinu sínu á meðan veikindin stóðu yfir.  Þannig var Sigurbergur, alltaf tilbúinn að hjálpa og mátti ekkert aumt sjá, þannig munum við hann alla tíð.
Stærstum hluta ævi sinnar eyddi Sigurbergur í vinnu í frystihúsinu og við síldarsöltun bæði hjá KASK, Stemmu og síðar Skinney Þinganes, þrætti samt alltaf fyrir að vera Framsóknarmaður og hafði engan sérstakan áhuga á pólitík en var húsbændum sínum hollur og trúr alla tíð.

Á vertíðum var Sigurbergur í essinu sínu og erum við viss um að margir sem dvöldu á verbúð á þeim árum muna hann vel og eignaðist hann fjölda vina og kunningja allstaðar að af landinu, hann var með eindæmum stríðinn og glettingssamur og hafði gaman af að koma fólki til að hlæja og skemmtilegast þótti honum að læðast aftan að fólki og svona rétt aðeins að stinga vísifingrum milli rifja á þeim, helst kvenfólki, bara svona rétt  til að kanna viðbrögðin, sérstaklega ef honum fannst vera einhver deyfð yfir mannskapnum, hann vildi hafa alla í góðu skapi í kringum sig, sem honum tókst yfirleitt að leiða til.
Aðstæður breyttust og dró úr vertíðarvinnunni  á Hornafirði. Verbúðarstemningin sem einkennt hafði vinnustaðinn svo mjög, hvarf hægt og hljótt og við tóku aðrir tímar hjá Sigurbergi, vinnuharkan minnkaði og þegar sett voru ný lög þar sem ekki mátti lengur ofgera fólki í vinnu, tóku gildi, vottaði fyrir smá leiða hjá Sigurbergi en hann var fljótur að tileinka sér hina nýju siði og var sáttur, hann hafði nú meiri tíma til að sinna hestamennskunni og öðrum hugðarefnum, það var kominn tími til að prófa eitthvað nýtt.
Honum bauðst starf á Jökulsárlóni þegar sú starfsemi var að fara af stað, hjá góðu fólki sem reyndist honum afar vel í gegnum lífið. Þar undi hann hag sínum best af öllum þeim störfum sem hann sinnti um ævina, á því leikur enginn vafi.  Hann elskaði að sinna túristunum og sýna þeim landið og jökulinn sinn, hann var afskaplega stoltur af þessu tímabili og þreyttist aldrei á að dásama það.
Sigurbergur kynntist fyrrverandi sambýliskonu sinni, Sigríði Traustadóttur frá Hauganesi, á þessum tíma og eignaðist með henni tvo gullfallega drengi sem eru Jón Óli 16 ára og Árni Björn 14 ára, missir þeirra er mikill og er óhætt að segja að þessir drengir áttu hug pabba síns allan.
Í seinni tíð tók Sigurbergur meirapróf og fór að keyra um landið með túrista sem veitti honum ekki síður ánægju en að vera á Lóninu en svo fór að hann varð að hætta því þegar veikindin fóru að knýja fastar að dyrum, það urðu honum mikil vonbrigði, það átti ekki við Sigurberg að sitja verklaus.
Síðustu ár Sigurbergs voru honum erfið. Hugurinn var frjór en ráðin fá og efnin minni til að láta draumana rætast. Hann reyndi að gera samt gott úr því  eins og hans var von og vísa þegar erfiðleikar bjátuðu á og barðist eins og hetja, ljósið í myrkrinu voru drengirnir hans og naut hann samvista við þá eins mikið og aðstæður leyfðu, hann þreyttist aldrei á að segja manni frá því hvað strákarnir væru að aðhafast og ljómaði allur þegar hann talaði um þá, hann var ekki mikið fyrir það að vera að vorkenna sjálfum sér þótt hann hefði ríka ástæðu til og vildi sem minnst tala um sín veikindi.
En nú er Sigurbergur bróðir okkar kominn í annan og vonandi betri heim þar sem þrautir eru engar, sjálfsagt búinn að hitta gömlu vinina sem fóru á undan, fengið höfðinglegar móttökur og líka búinn að hitta Skjónu gömlu, Þröst, Hrafn, Skálínu og alla hina uppáhalds hestana sína úr æsku.
Við kveðjum þig elsku bróðir okkar með söknuði, við hefðum viljað segja svo margt við þig áður en þú fórst, en það ræður  enginn sínum næturstað og enginn veit hvenær kallið kemur.
Við biðjum Guð að vaka yfir Jóni Óla og Árna Birni, þeirra missir er mestur.
Drottin varðveiti þig Beggi minn.
Þín systkini,







Sveinn, Jóhanna og Bjarki.