Fjarskipti Lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir í landinu þurfa að búa við örugg fjarskipti.
Fjarskipti Lögregla, slökkvilið og björgunarsveitir í landinu þurfa að búa við örugg fjarskipti. — Morgunblaðið/Júlíus
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Öll fjarskipti embættis Ríkislögreglustjóra verða dulkóðuð á næstu dögum, samkvæmt fréttatilkynningu frá embættinu. Í tilkynningu segir m.a.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Öll fjarskipti embættis Ríkislögreglustjóra verða dulkóðuð á næstu dögum, samkvæmt fréttatilkynningu frá embættinu.

Í tilkynningu segir m.a.: „Ríkislögreglustjóri vill upplýsa að vegna öryggisbrests í fjarskiptabúnaði lögreglu verða á næstu dögum öll fjarskipti lögreglumanna embættisins dulkóðuð, þar með talið sérsveit ríkislögreglustjóra.“

Jónas Ingi Pétursson, framkvæmdastjóri rekstrar hjá Ríkislögreglustjóra, segir að nú verði ráðist í að kaupa nýjar talstöðvar, um 120 talsins. „Þær verða síðan forritaðar og dulkóðaðar, og þar sem um þennan fjölda er að ræða, tekur þetta verkefni einhverja daga,“ sagði Jónas Ingi í samtali við Morgunblaðið í gær.

„Í því hefur vandinn verið falinn að í umferð hjá öllum þessum viðbragðsaðilum, hafa verið talstöðvar, sem styðja ekki við þessa tækni, sem Neyðarlínan valdi til dulkóðunar,“ sagði Jónas Ingi jafnframt.

Fjarskipti Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu eru ekki dulkóðuð. Þetta á við um sjúkraflutninga, brunaútköll og sjúkraflug og raunar öll fjarskipti Slökkviliðsins.

Slökkviliðið mun bregðast við

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri var í gær spurður hvort brugðist yrði við þessum öryggisbresti og hvort ekki væri nauðsynlegt að bregðast við, til þess að vernda persónulegar upplýsingar sjúklinga, sem eru fluttir með sjúkrabílum, eða í sjúkraflugi, svo farið væri að lögum um persónuvernd:

„Það er rétt að fjarskipti okkar eru ekki dulkóðuð. Þetta kom eiginlega eins og köld gusa í andlitið á okkur. Við skiptum út öllum talstöðvum okkar fyrir þremur árum og þá var þessi umræða í gangi, en hún var ekki hávær og við töldum því ekki þörf á því á þeim tíma að vera á tánum,“ sagði Jón.

Hann segir að eftir þennan skell fyrir þremur dögum, hafi verið ákveðið breyta öllum fjarskiptavenjum Slökkviliðsins. „Við pössum upp á að það sem sagt er í talstöðvarnar sé ekki persónurekjanlegt, þannig að kennitölur, heimilisföng og lýsingar á sjúkdómseinkennum fara ekki um talstöðvarnar. Fjarskipti eru afskaplega mikil og við gætum ekki rekið sjúkrabílaþjónustu okkar á því að styðjast bara við farsímanotkun. Við verðum að nota kerfið, en notum það með þessum hætti og aðrar og persónulega rekjanlegar upplýsingar fara þá í gegnum notkun farsíma,“ sagði Jón Viðar.

Jón Viðar segir að nú standi til að endurnýja allar talstöðvar Slökkviliðsins, 90 til 100 talstöðvar. Slökkviliðið eigi í samningaviðræðum við Neyðarlínuna um kaup á nýjum stöðvum, sem hver um sig kosti á milli 100 og 200 þúsund krónur. „Neyðarlínan hefur lýst sig reiðubúna til þess að taka eldri stöðvarnar upp í þær nýju, sem ætti að draga úr kostnaði,“ sagði Jón Viðar.