Bláar tunnur Í Kópavogi er pappír og plast nú sett í bláu tunnuna.
Bláar tunnur Í Kópavogi er pappír og plast nú sett í bláu tunnuna. — Morgunblaðið/Ófeigur
Agnes Bragadóttir agnes@mbl.is Bláu ruslatunnurnar í Kópavogi eru frá því í byrjun þessa mánaðar bæði fyrir plast og pappír, í stað þess að vera eingöngu fyrir pappír.

Agnes Bragadóttir

agnes@mbl.is

Bláu ruslatunnurnar í Kópavogi eru frá því í byrjun þessa mánaðar bæði fyrir plast og pappír, í stað þess að vera eingöngu fyrir pappír.

Fram kemur í frétt á heimasíðu Kópavogsbæjar að tunnurnar verði tæmdar oftar en gert hefur verið hingað til, á 16 daga fresti í stað 28 daga fresti áður. Gráu tunnurnar, fyrir almennt sorp, verði sem fyrr tæmdar á 14 daga fresti.

Þar kemur einnig fram að nýja flokkunin dragi verulega úr þeim úrgangi sem fari til urðunar og muni auðvelda íbúum bæjarins að leggja sitt af mörkum til að vernda umhverfið. Árið 2015 hafi um 1.200 tonn af plasti frá Kópavogsbúum verið urðuð.

Sigríður Tómasdóttir, upplýsingafulltrúi Kópavogsbæjar, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að um væri að ræða þróunarverkefni til eins árs og á því tímabili yrði endurskoðað hversu oft þyrfti að tæma bláu og gráu tunnurnar.

„Bærinn samdi til eins árs við Íslenska gámafélagið um þessa tilhögun. Íslenska gámafélagið mun sjá um að tæma bláu tunnurnar og svo verður sorpið úr tunnunum flokkað á flokkunarstöðvum þeirra. Þetta er gert til þess að auðvelda bæjarbúum flokkun sorps,“ sagði Sigríður.

Hún sagði að enginn kostnaðarauki fælist í þessu nýmæli fyrir íbúa Kópavogs.