Samhuga Pan Thorarensen og Þorkell Atlason lögðu saman í púkk og úr varð Flugufen.
Samhuga Pan Thorarensen og Þorkell Atlason lögðu saman í púkk og úr varð Flugufen. — Morgunblaðið/Golli
Árni Matthíasson arnim@mbl.is Tvíeykið Ambátt, sem er samstarfsverkefni tónlistarmannanna og tónsmiðanna Pan Thorarensens og Þorkels Atlasonar, sendi í vikunni frá sér sína fyrstu breiðskífu sem ber nafnið Flugufen .

Árni Matthíasson

arnim@mbl.is

Tvíeykið Ambátt, sem er samstarfsverkefni tónlistarmannanna og tónsmiðanna Pan Thorarensens og Þorkels Atlasonar, sendi í vikunni frá sér sína fyrstu breiðskífu sem ber nafnið Flugufen . Platan er gefin út á vínyl, en einnig fáanleg á netinu.

Þeir Pan og Þorkell segja að grunnur að plötunni hafi verið lagður fyrir nokkru, í raun kviknað þegar Þorkell tók þátt í að semja og spila inn á plötu Beatmakin' Troopa, If You Fall You Fly , sem kom út 2012. „Okkur langaði þá að vinna meira saman, að þróa hugmyndir og gera plötu tveir,“ segir Þorkell og Pan tekur í sama streng.

Í framhaldi af If You Fall You Fly gekk Þorkell síðan til liðs við þá feðga Pan og Óskar í Stereo Hypnosis og úr varð platan Morphic Ritual sem kom út 2014. Í kjölfar hennar kom mikil spilamennska, hér á lamdi og erlendis og því drógu þeir enn að gera skífu tveir saman, þar til færi gafst sl. haust.

„Ég bjó úti í Berlín um tíma,“ segir Pan, „og Þorkell sendi mér hugmyndir og kom svo út um tíma, þannig að það má segja að þetta hafi verið þriggja ára ferli.“ „Við höfum verið að vesenast í alls konar verkefnum hvor fyrir sig,“ bætir Þorkell við, „en svo náðum við að klára plötuna síðasta vetur.“

Þeir skipta þannig með sér verkum að Pan sýslar með sarp og smala og umhverfishljóðabúta en Þorkell leikur á gítara, bassa og hljómborð meðal annars. Síðan fengu þeir til liðs við sig trommuleikarann Benjamín Bent Árnason, Mammútsöngkonuna Katrínu Mogensen, sem syngur í einu lagi, og djasstrompetleikarann Sebastian Studnitzky. „Það var smá vinna að fá Sebastian með okkur í verkefnið, en þegar hann var búinn að spila sinn hluta má segja að allt hafi smollið saman hjá okkur,“ segir Pan.

Kostir vínylplötunnar

Flugufen er gefin út á vínyl, en síðan er hægt að kaupa hana rafrænt í gegnum Bandcamp-síðu Ambáttar. „Við ákváðum að hvíla geisladiskinn,“ segir Pan og Þorkell bætir við: „Maður selur ekkert af geisladiskum núorðið...“ „nema til útlendinga,“ botnar Pan setninguna.

Í framhaldinu kvikna líflegar umræður um kosti vínylplötunnar og menn eru sammála um að meðal helstu kosta hennar sé að plötunni sé skipt upp í tvo hluta, A- og B-hlið, og fyrir vikið gefst kostur á að skipta verkum upp í tvo hluta og raða þeim saman á ólíkan hátt eftir plötuhlið. „Ég hef saknað þess að geta byggt plötu upp eins og hún sé eitt verk með greinilegri skiptingu á milli hluta,“ segir Þorkell. „Við ákváðum mjög snemma að nýta formið á þennan hátt, að tónlistin yrði löguð að því að vera á vínylplötu. Það gefur líka allt aðra stemningu að spila tónlist af vínylplötu, það skapar meiri stemningu en þegar maður hlustar á tónlist á Spotify, þá rennur allt áfram óstöðvandi,“ segir Pan.

Ambátt kom fram á Airwaves fyrir skemmstu, lék þá á tvennum tónleikum sem þeir félagar segja að hafi verið einkar skemmtilegt. Þá langar líka að spila meira, en það er snúið að koma mannskapnum saman. Hugsanlega verði það endurtekið hér á landi en óljóst hvenær, þó að ljóst sé að það verði spilað erlendis: „Platan var samin með það í huga að spila tónlistina á tónleikum,“ segir Pan, „og við erum að skipuleggja tónleika erlendis á næsta ári.“