[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Ragnar Frank Kristjánsson: "Sveitarfélagið má ekki misnota vald sitt þegar náttúru svæðisins er ógnað. Sátt þarf að nást á milli sveitarstjórnar og landeigenda í Nesjum."

Á undanförnum áratug hafa margar skýrslur og greinar verið ritaðar um nýja veglínu yfir Hornafjarðarfljót. Ég ætla að blanda mér í þá umræðu vegna þess að borist hafa fregnir um að sveitarstjórn Hornarfjarðar hafi ákveðið að endurskoða framkvæmdaleyfi fyrir nýjum vegi yfir Hornafjarðarfljót vegna nýrra náttúruverndarlaga. Samkvæmt skipulagslögum hefur sveitarstjórn skipulagsvaldið og gefur út framkvæmdaleyfi.

Með nýjum hringvegi (1) yfir Hornafjarðarfljót styttist leiðin um 11-12 km á milli Austurlands og Suðurlands. Á leið 1 um 11 km, á leið 2 um 12 km og á leið 3 um 11,5 km, það munar einungis 500 metrum á leið 1 og 3. Sjónarmið sveitarfélagsins hafa verið að stytta samgöngur innan héraðsins og hefur rökstuðningur sveitarstjórnar þess vegna verið að mæla með veglínu 3 þar sem fjarlægðin af Mýrum og Suðursveit er 2,5 km styttri með leiðarvali 3 í stað leiðar 1. Þess má geta að íbúar Mýra og Suðursveitar eru um 100 manns, en yfir 90% íbúa sveitarfélagsins búa austan við fljótið. Markmið Vegagerðarinnar er að þeirra sögn fyrst og fremst að auka umferðaröryggi, draga úr slysahættu og tryggja góðar samgöngur á svæðinu. Áætlaður kostnaður við leið 3 er 4.250 milljónir króna. Að mati Vegagerðarinnar voru þessar þrjár veglínur sem skoðaðar voru álíka varðandi vegtækni og umferðaröryggi.

Í skýrslu Náttúrufræðistofnunar Íslands frá 2006 um gróður á umræddri veglínu segir „ Augljós kostur veglínu 1 fram yfir veglínu 2 er hversu miklu styttri nýlagning er á þeirri leið og þar af leiðandi minna rask. Hér vegur þyngst minni skerðing blautara votlendis á leið 1 þar sem um 25 ha þessara gróðurlenda á leið 1 en 110 ha á leið 2. Út frá þessum rökum er leið 1 tvímælalaust betri kostur “. Umhverfisstofnun tekur undir álit NÍ í sinni umsögn. Í skýrslu Líffræðistofnunar Háskóla Íslands frá 2006, fjölrit 75 „ Ljóst er að leið 1 mun ekki valda röskun á leirum og fitjum Hornafjarðar “. Í áliti Skiplagsstofnunar frá 2009 um umhverfismat vegna framkvæmdarinnar taldi stofnunin að neikvæð umhverfisáhrif leiðar 1 væru minni en leiðar 2 og 3 en lagðist ekki gegn öðrum kostum.

Samkvæmt náttúruverndarlögum njóta bæði sjávarfitjar og leirur sérstakrar verndunar og skal forðast röskun þeirra eins og kostur er. Veglína 2 og 3 munu hafa mikil áhrif á sjávarlón, sjávarfitjar og votlendissvæði við Hrísey, Árnanes, Lækjarnes, Dilksnes og í Skarðsfirði.

Undirritaður fagnar nýlegri ákvörðun sveitarstjórnar Hornafjarðar um að endurskoða framkvæmdaleyfið fyrir lagningu vega um Hornafjarðarfljót og hvetur sveitarstjórn í framhaldi til að skoða breytingu á aðalskipulagi sveitarfélagsins. Í aðalskipulagi Hornafjarðar frá september 2014 er leiðarvalið samkvæmt leið 3b. Til þess að framkvæmdir geti hafist sumarið 2017 þarf að nást sæmileg sátt á milli sveitarstjórnar og landeigenda í Nesjum, annars er hætta á að löng bið verði á nýrri brú yfir Hornafjarðarfljót. Mat á umhverfisáhrifum framkvæmda á vegagerð yfir Hornafjarðarfljót er brátt tíu ára gamalt, en ef framkvæmdir hefjast ekki á næsta ári þá þarf Skipulagsstofnun að meta hvort endurskoða þurfi matsskýrsluna að hluta eða í heild sinni.

Þegar velja á milli leiða 1, 2 og 3 er sterkur rökstuðningur fyrir að velja leið 1.

A. Hún raskar 85 ha minna af votlendi, fellur betur að landslagi og er þar af leiðandi betri m.t.t. náttúruverndar.

B. Hún er yfir þúsund milljónum ódýrari í framkvæmd, enda minni vegalengd í nýframkvæmd og þar með efnistöku. Arðsemi framkvæmdarinnar er mikil.

C. Hún styttir hringveginn um 11 km og uppfyllir umferðaröryggi.

D. Hún er í meiri sátt við landeigendur í Nesjum.

Opinberir fagaðilar mæla með leið 1 vegna þess hún er í meiri sátt við náttúruvernd. Það er því umhugsunarvert fyrir innanríkis- og umhverfisráðuneyti, að það sé rökstuðningur sveitarfélagsins um styttingu samgangna á milli íbúa vestan Hornafjarðarfljótsins og Hafnarbúa sem ráði endalegu leiðarvali. Eins og fyrr er greint frá þá hefur sveitarfélagið skipulagsvaldið, en það má ekki misnota vald sitt þegar náttúru svæðisins er ógnað, ódýrari vegkostur er til staðar og sambærileg vegstytting er á hringveginum milli leiða 1 og 3.

Höfundur er lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands.