Sigrún Birna Grímsdóttir fæddist 19. nóvember 1978. Hún varð bráðkvödd á heimili sínu 16. júní 2016.

Útför Sigrúnar Birnu fór fram í kyrrþey 29. júní 2016.

Elsku Sigrún Birna.

Það er komið er að kveðjustund, þú kvaddir þennan heim allt of snemma hinn 16. júní síðastliðinn ásamt ófæddu barni þínu.

Við erum búnar að þekkjast alla ævi, bara ár á milli okkar og afmælin okkar með stuttu millibili í nóvember og í dag er afmælisdagurinn þinn. Einhvern veginn heldur maður að það sé sjálfgefið að allir verði gamlir, og krumpaðir og eigi langa og góða ævi, en það er því miður ekki.

Við unnum saman í Hraðfrystistöð Þórshafnar í mörg ár. Ég veit ekki hvað við eyddum mörgum klukkutímum á hinni geysivinsælu niðurskurðarlínu, að skera fiskhnakka og vigta nákvæmlega eins og stóð á blaðinu.

En svo þegar veiddist síld eða loðna voru teknar langar vaktir og þá losnuðum við af niðurskurðarlínunni í smástund, enda meira upp úr því að hafa.

Þær eru óteljandi stundirnar sem við eyddum heima hjá þér í Bakkaveginum á kvöldin að loknum vinnudegi. Mikið var brallað um helgar á milli vinnudags eða vakta, mikið farið út á lífið, enda margt og mikið um að vera á Þórshöfn á þeim tíma.

Ferðin sem við fórum saman til Akureyrar, í stelpnaferð, eitt sumarið var mjög skemmtileg og er í dag mjög dýrmæt. Einmitt í þeirri ferð fórum við að versla og man ég eftir því að þú keyptir þér eyeliner, þú varst svo klár að mála þig með honum og taldirðu mig á að ég yrði að eiga svoleiðis og auðvitað hlustar maður á „eldri“ frænku sína og gerir eins og hún segir en ég náði aldrei taki á þessum eyeliner, í hvert skipti sem ég reyndi að nota hann endaði ég eins og þvottabjörn í framan. Ég verð að viðurkenna að þessi blessaði eyeliner endaði svo í ruslinu einn daginn, þetta var ekki að gera sig.

Ég verð samt að viðurkenna að þú varst snillingur í því að vera ekki tilbúin þegar átti að fara eitthvað út, alltaf þurfti að bíða eftir þér, ég er farin að halda að það hafi kannski verði þessi blessaði eyeliner sem tafði þig svona.

Þú fluttir á Akranes og stofnaðir heimili þar og eignaðist litlu strákana þína þrjá, þá Grím Inga, Hauk Loga og Bergstein Mar. Þú varst frábær mamma og ég veit að þú vakir yfir þeim um ókomna tíð.

Ég man eftir síðasta skiptinu sem við hittumst og þá áttum við yndislegt spjall, aldrei hefði mig órað fyrir því að það væri síðasta skiptið sem við hittumst.

Elsku Grími Inga, Hauki Loga og Bergsteini Mar, Inga sambýlismanni þínum og foreldrum þínum Grími og Þórnýju, ásamt öðrum ættingjum votta ég mína innilegustu samúð. Minning þín lifir áfram í hjarta mínu.

Kveðja,

Anna.