KR-ingur Hólmfríður Magnúsdóttir.
KR-ingur Hólmfríður Magnúsdóttir. — Morgunblaðið/Eggert
Víðir Sigurðsson vs@mbl.is KR heldur áfram að styrkja kvennalið sitt í knattspyrnunni, en í gær samdi landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir við sitt gamla félag til næstu tveggja ára. Hún kemur því í Vesturbæinn á ný eftir átta ára fjarveru.

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

KR heldur áfram að styrkja kvennalið sitt í knattspyrnunni, en í gær samdi landsliðskonan Hólmfríður Magnúsdóttir við sitt gamla félag til næstu tveggja ára. Hún kemur því í Vesturbæinn á ný eftir átta ára fjarveru.

Áður hafði KR endurheimt þær Katrínu Ómarsdóttur og Þórunni Helgu Jónsdóttur, sem léku með Hólmfríði árum saman í KR, en allar fóru þær í atvinnumennsku erlendis á árunum 2008 til 2009.

Hólmfríður, sem er 32 ára gömul, er ein reyndasta knattspyrnukona landsins. Hún er fjórða leikjahæsta landsliðskona Íslands með 110 leiki og sú næstmarkahæsta með 37 mörk. Þá hefur Hólmfríður leikið 273 deildarleiki á ferlinum, heima og erlendis, og eiga aðeins tvær lengri feril að baki. Hún er fjórða markahæsta íslenska knattspyrnukonan hvað mörk í deildarkeppni varðar, með 170 mörk, þar af 107 hér á landi með KR, Val og ÍBV.

Besti framherji Noregs

Hólmfríður lék fyrsta árið í atvinnumennsku með Kristianstad í Svíþjóð, þá með Philadelphia Independence í Bandaríkjunum í tvö ár og millilenti í Val hálft tímabil 2011 en hefur síðan leikið með Avaldsnes í Noregi undanfarin fimm ár og farið með liðinu úr 1. deild upp í annað sæti úrvalsdeildar tvö síðustu tímabil. Hún var kjörin besti sóknarmaður norsku úrvalsdeildarinnar 2015 og tilnefnd sem einn af þremur bestu leikmönnum deildarinnar. Í ár lék hún með Avaldsnes í Meistaradeild Evrópu og skoraði þar m.a. þrennu í 6:1 sigri á Benfica frá Portúgal.

Þær Hólmfríður, Katrín og Þórunn urðu tvisvar Íslandsmeistarar og þrisvar bikarmeistarar með KR á árunum 2002 til 2008 en félagið hefur ekki unnið titil síðan þær fóru. Edda Garðarsdóttir, núverandi þjálfari KR, var samherji þeirra í KR á sínum tíma.

KR bjargaði sér naumlega frá falli í haust en Vesturbæjarliðið er líklegt til að gera mun betur en það næsta ár með þennan liðsauka innanborðs.