Útskurðarlist Margrét Sigfúsdóttir, skólastýra Hússtjórnarskóla Reykjavíkur, leiðbeinir við að skera út laufabrauð.
Útskurðarlist Margrét Sigfúsdóttir, skólastýra Hússtjórnarskóla Reykjavíkur, leiðbeinir við að skera út laufabrauð.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Áður var deigið flatt út eins þunnt og mögulegt var til að allir gætu fengið brauð að bíta í á jólunum.

Laufabrauðið tengist jólunum á Íslandi rétt eins og hangikjötið, rauðkálið og grænu baunirnar. Sú hefð hefur víða skapast að í upphafi aðventu safnist fjölskyldur, ættingjar og vinir saman til að skera og steikja laufabrauð. Þótt aðventan sé ekki enn gengin í garð geta óþreyjufullir tekið forskot á sæluna og brugðið sér út í Viðey þar sem þeim gefst kostur á að njóta leiðsagnar Margrétar Sigfúsdóttur, skólastýru Hússtjórnarskólans í Reykjavík, við laufabrauðsgerðina. Efalítið grípa margir tækifærið til að spreyta sig svolítið í kúnstinni að skera út laufabrauð áður en þeir mæta í baksturinn með fjölskyldunni.

Hafist verður handa við útskurðinn kl. 13.30 og unnið til kl. 16.30 á morgun, sunnudaginn 20. nóvember, en þess má geta að ferjan siglir til Viðeyjar frá Skarfabakka kl. 13.15.

Útskorin brauðin verða svo steikt í eldhúsinu og allir fara heim með gómsæt listaverk í öskjum. Fólk er hvatt til að gera sér ferð út í eyju og eiga saman góða stund við skemmtilega iðju. Vanir útskurðarmeistarar eru aufúsugestir, enda gaman ef þeir gætu miðlað af reynslu sinni. Þótt einhver áhöld verði á staðnum er vissara að gestir taki með sér laufabrauðsjárn og hnífa til útskurðar. Fastlega er búist við að jólasveinninn renni á steikarlyktina og kíki í heimsókn. Seld verða tíu laufabrauð í öskju á 2.000 krónur.

Laufabrauðið telst meðal þjóðarrétta Íslendinga, en ekki er þó vitað með vissu hvenær farið var að gera slík brauð. Elstu heimildir eru í orðabók Jóns Ólafssonar frá Grunnavík frá fyrri hluta 18. aldar, en þar segir að laufabrauðið sé sælgæti Íslendinga. Einkenni þeirra er hversu næfurþunn þau eru, en ástæðan mun vera sú að á öldum áður var mjöl af skornum skammti. Til að allir gætu fengið brauð að bíta í á jólunum hafi deigið verið flatt út eins þunnt og mögulegt var. Margar uppskriftir eru til að laufabrauði, en þær eiga það allar sameiginlegt að innihalda mikið af hveiti. Sumir búa til hreinar hveitikökur, á meðan aðrir bæta heilhveiti eða rúgmjöli í uppskriftina. Dæmi eru líka um að sumir setji kúmen út í deigið. Eftirfarandi hráefni í laufabrauð voru gefin upp í Jólablaði Morgunblaðsins fyrir allmörgum árum: 1 kg hveiti, 30 g sykur, 1 tsk. lyftiduft, 1 tsk. salt, 5-6 ml mjólk, 1 msk. smjörlíki og steikingarfeiti eftir þörfum. Best er að láta brauðin kólna alveg og setja síðan í lokaða dós. Óþarfi er að hafa áhyggjur af að baka laufabrauðin of snemma fyrir jól því þau geta geymst mánuðum saman á svölum og þurrum stað.