Bjarni Guðjónsson, fyrrverandi sóknarprestur á Valþjófsstað í Fljótsdal, fæddist hinn 25. desember 1931 að Efri-Steinsmýri í Meðallandi í Vestur-Skaftafellssýslu. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Dyngju á Egilsstöðum 29. nóvember 2016.Foreldrar Bjarna eru Guðjón Bjarnason, f. 23.3. 1901 í Efri-Ey, og Kristín Sveinsdóttir, f. 2.8. 1902 á Melhól í sömu sveit. Systkini hans eru, Vilborg, f. 1928 (látin), húsfreyja í Eystra-Fróðholti, Sveinn, f. 1930 (látinn), bóndi á Uxahrygg á Rangárvöllum, Óskar, f. 1933 (látinn), verkamaður á Uxahrygg, Gróa, f. 1935, verkakona á Uxahrygg.

Bjarni kvæntist þann 31. maí 1963 Aðalbjörgu Aðalbjörnsdóttur, f. 24. febrúar 1933, d. 24. júlí 2015. Bjarni og Aðalbjörg eignuðust fjögur börn saman en þau eru: 1. Guðjón, f. 26. febrúar 1963, maki Árný Gunnarsdóttir; börn þeirra Bjarni Aðils og Orsen; 2) Kristinn, f. 24. mars 1964, maki Elva Hildur Hjaltadóttir, börn þeirra Tinna Björk, Karen og Kristófer; 3) Una Birna, 6. september 1965, maki Trausti Valgeir Sigvaldason, börn þeirra Þórir Bjarni og Thelma Ósk; 4) Hafdís Björg, f. 16. ágúst 1968, maki Jón Sveinbjörn Vigfússon, börn þeirra Rósa Björg, Helena og Sveinn Brimar. Stjúpfaðir tveggja barna sem Aðalbjörg eignaðist fyrir hjónaband þeirra en þau eru: 5) Jón Þór, f. 27. apríl 1953, barn hans Sigurbjörg Svana; 6) Katrín Erla, f. 18. desember 1956, börn hennar Heimir, Selma Dröfn og Sigurborg Eva. 7) Bjarni og Aðalbjörg ólu einnig upp Sigurbjörgu Svönu, f. 21. september 1975, dóttur Jón Þórs, börn hennar Auður Birna, Selma Ríkey og Viktor.

Bjarni ólst upp til 12 ára aldurs í Sandaseli í Meðallandi. Árið 1944 flutti hann ásamt foreldrum og systkinum að Galtarholti í Rangárvöllum og síðar á Uxahrygg í sömu sveit. Áhugi Bjarna á bókum og bóknámi kom snemma í ljós. Hann stundaði nám við Héraðsskólann í Skógum og Menntaskólann á Laugarvatni. Að loknu stúdentsprófi fór Bjarni til náms við guðfræðideild Háskóla Íslands og brautskráðist þaðan sem guðfræðingur árið 1963. Á Reykjavíkurárunum kynntist Bjarni Aðalbjörgu Aðalbjörnsdóttur og gengu þau í hjónaband árið 1963. Sama ár fluttust þau að Valþjófsstað í Fljótsdal, þar sem Bjarni var skipaður sóknarprestur. Þar stunduðu þau einnig sauðfjárbúskap. Bjarni sinnti ýmsum félagsstörfum í Fljótsdalnum og tók virkan þátt í félagslífi sveitarinnar. Eftir að Bjarni og Aðalbjörg brugðu búi á Valþjófsstað árið 1998 fluttust þau að Miðfelli 8 í Fellabæ og bjuggu þar uns þau fluttust á hjúkrunarheimilið Dyngju árið 2014 þar sem þau áttu sín síðustu æviár.

Útför Bjarna fór fram frá Valþjófsstaðarkirkju 10. desember 2016.



Með séra Bjarna Guðjónssyni er fallinn í valinn mikill höfðingi og lífsspekúlant og sá maður, sem við hjónin höfum tengst einna sterkustum vináttuböndum í gegnum árin að ógleymdri konu hans, Aðalbjörgu Aðalbjarnardóttur, sem lést eftir erfið veikindi 24. júlí 2015. Aðalbjörg (Badda) stóð alla tíð dyggilega við hlið bónda síns, hvort sem í hlut áttu embættisstörf hans eða heimilis- og búskaparannir. Gestrisni þeirra hjóna var einstök, bæði að messu lokinni í Valþjófsstaðakirkju og endranær, enda var ætíð afar gestkvæmt á heimili þeirra, hvort sem var á Valþjófsstað eða eftir að þau fluttu út í Fellabæ við embættislok Bjarna árið 1997.
Svo vildi til að um það leyti, sem þau hjónin, Bjarni og Badda, komu austur til embættistöku séra Bjarna, 1. júní 1963, komu þau við hjá hjónunum Jónasi Péturssyni, fyrsta tilraunastjóra á Skriðuklaustri og alþingismanni og Önnu Jósafatsdóttur á heimili þeirra að Lagarfelli 8 í Fellabæ, þar sem undirritaður var einnig gestkomandi og var að taka við fjármennsku á Klaustri að nýloknu búfræðikandídatsnámi á Hvanneyri.
Þessi fyrstu kynni mín af þeim prestshjónum eru mér ætíð afar minnisstæð, einkum fyrir þann ferska blæ, sem þau báru með sér. Upphófust strax, einkum fyrir tilstilli séra Bjarna, fjörlegar og hressandi samræður um málefni líðandi stundar og tilveruna yfirleitt. Í þessu efni var prestinum unga oft mikið niðri fyrir og var fylginn sínum málstað, sérstöðu, sem einkenndi hann æ síðan. Þótt honum hafi tekist að beisla ákefð hins unga manns nokkuð með árunum, leyndi undiraldan sér þó aldrei alveg og kom upp á yfirborðið ef mikið lá við. Húmorinn var þó alltaf til staðar, og var þá stutt í bros og hlátur.
Séra Bjarni hafði mikinn áhuga á búskap. Reyndi fyrstu árin kornrækt, ásamt hænsnabúskap, kartöflurækt og nautaeldi, en festi sig ekki við neitt til lengri tíma, þangað til hann reisti sér fjárhús. Fjárbúskapurinn átti greinilega vel við hann og veitti honum mikla lífsfyllingu, enda lét hann ekki af honum fyrr en við lok prestskapar og flutning í Fellabæinn árið 1997. Ýmsar sögur mætti segja af búskap hans, en þær verða að liggja á milli hluta hér, utan þeirrar, sem hér fer á eftir:  Bóndi einn úr sveitinni endurgreiddi honum einhvern slatta af fiskimjöli rétt fyrir sauðburð eitt vorið. Þar sem hvert prestþjónustustarfið rak annað, nánast allan sauðburðinn, tók prestur það ráð í tímaþrönginni að hafa hey og fiskimjöl fyrir nýbærum ómælt, enda tíðarfarið þurrt og gott. Brá þá svo við  að lömbin urðu stærri og hraustari og fallþunginn eftir því um haustið og það svo að vænleiki lamba hans sló fénu á Klausturbúinu við, sem auðvitað var aðalatriðið fyrir presti.
Auk Valþjófsstaðarsóknar, þjónaði hann frá árinu 1970 einnig Hofteigs-, Eiríksstaða- og Möðrudalsprestaköllum ásamt aukaþjónustu um tíma í Þingmúla- og Vallanessóknum. Hann var þekktur fyrir að undirbúa messur sínar af mikilli kostgæfni. Þótt þessi starfi væri ærinn, voru þessar opinberu messugjörðir víðs vegar um Héraðið þó jafnvel minni hluti embættisstarfa hans, þegar litið er til þeirra mörgu prestverka, sem oftast voru unnin í kyrrþey, gjarna við húsvitjanir af ýmsum toga og var þá ekki spurt um stað né stund.
Séra Bjarni skírði og fermdi flest börn okkar hjóna og barnabörn og gaf einn son okkar og tengdadóttur saman. Ekki verður skilið við sagnir af prestverkum séra Bjarna án þess að geta þess hvernig hann undirbjó börn undir fermingu, sem trúlega er einsdæmi á þeim vettvangi. Hann tók öll fermingarbörnin hreinlega heim til sín, daglega í um vikutíma og spjallaði við þau um lífið og tilveruna, þótt hann hafi skotið trúarjátningunni og faðirvorinu inn í umræðuna og vafalaust einhverjum fleiri ritningargreinum, eftir atvikum, í bland við mannlífsspjallið. Þetta hafði afar góð og ógleymanleg áhrif á börnin, sem urðu ekki vör við annað en að presturinn kynni að hlusta og rökræða við þau á jafnréttisgrundvelli um öll þessi efni. Þessa minnast þau oft með hlýju.
Séra Bjarni var bókhneigður mjög og vel lesinn, hvort sem var á bundið og ekki síður á óbundið mál, en kunni síður að meta órímuð og óhefðbundin kvæði. Hann var vel ritfær og alltaf boðinn og búinn til að lesa yfir texta fyrir náungann, því ,,betur sjá augu en auga'', eins og hann sagði oft í því sambandi. Fór undirritaður ekki varhluta af þessari greiðasemi. Þá var hann óþreytandi við að lesa upp fyrir vistfólk á heilsugæslunni og síðar hjúkrunarheimilinu Dyngjunni á Egilsstöðum hin síðari árin. Þetta gerði hann af sinni meðfæddu kostgæfni, enda var ætíð vel mætt í lesstofunni, þegar séra Bjarna var von.
Hann hafði alla tíð áhuga á þjóðmálum og pólitík að ógleymdum íþróttum og var mikið í boltanum, eins og sagt er og tippaði í hverri viku... Þá var hann góður brids-spilari og innleiddi eigið sagnakerfi í þeim efnum, enda leið ekki á löngu þar til fjögurra manna hópur fór að koma saman fyrir áeggjan Bjarna til skiptis á heimilum þátttakenda í Fljótsdal frá því í byrjun vetrar 1963. Sjálfur hef ég oft gert gloríur í spilamennskunni og fékk þá að heyra það, eins og eitt sinn í borðliggjandi alslemmu án þess að þurfa að svína. Mér varð það hins vegar á að reyna algerlega óþarfa svíningu, sem mistókst og þar með tapaðist slemman. Bjarni minnti oft á, með stríðnisglampa í augum, að ég hafi ætlað að svína fyrir fjórtánda slagnum.
Náungakærleikur var séra Bjarna í blóð borinn, sem leiddi til þess að hann hugsaði minna um eigin hag og heilsu, en ella. Þegar síðan kom í ljós, nokkru eftir lát konu hans, að hann væri kominn með krabbamein á hærra stigi en svo að læknanlegt væri, tók hann því af svo miklu æðruleysi að aðdáunarvert er. ,,Yfir hverju ætti ég svo sem að kvarta'', sagði hann, Ég orðinn gamall. Við Badda, sem nú er farin á undan mér, erum búin að koma upp mannvænlegum börnum og þau efnilegum afkomendum. Ævistarfi okkar, sem við getum verið stolt af, er lokið og ég get  ánægður hlýtt kallinu, hvenær, sem það kemur. Hvað ætti ég svo sem að biðja um meira? Svo bætti hann gjarna við enda er svo vel um mig hugsað hérna af starfsfólkinu að það jafngildir  fimm stjörnu hóteli hið minnsta.
Þótt séra Bjarni hafi ætíð sannlega starfað í þjónustu guðs og kirkjunnar, gerði hann lítið af því að bera trú sína á torg dagsdaglega, en aðspurður viðurkenndi hann fúslega, að æðruleysið á banalegunni, ætti hann ekki síst rót sína að rekja til trúarinnar. Þótt líkaminn hafi gefið sig æ meir, sem á leguna leið, var andinn vökull og skýr fram undir síðasta lífsneista. Má í raun segja að gestirnir hafi fremur verið þiggjendur í heimsóknum sínum en öfugt.
Sem ætíð fyrr var gestkvæmt hjá Bjarna þar sem hann bjó á hjúkrunarheimilinu, hvort sem í hlut áttu vinir eða vandamenn. Var aðdáunarvert hversu vel nánasta fjölskyldufólk gætti þess vel að samfella varð að mestu í heimsóknum  þeirra og algjör þegar nær dró lokadægrinu, þótt þau yrðu að ferðast um langan veg.
Að lokum viljum við hjónin og stórfjölskyldan öll þakka séra Bjarna einstaka samfylgd í gegnum árin, ásamt viðkynningu allri við fjölskyldur presthjónanna á Valþjófsstað um leið og við vottum þeim einlæga samúð vegna andláts þeirra hjóna beggja.

Þórarinn og Guðborg.

Það var tilhlökkun í Fljótsdalnum, fæðingarsveit minni, vorið 1963, er nýr prestur kom til starfa á Valþjófsstað, sr. Bjarni Guðjónsson, þá nývígður, Sunnlendingur að ætt, fæddur og uppalinn í Meðallandinu og á Rangárvöllum. Ungi sunnlenski presturinn ávann sér skjótt vinsældir sóknarfólksins, hann var glaðlyndur og hress, tók sig ekki of hátíðlega og hafði gaman af að spjalla við fólk og kynnast högum þess, samlagaðist lífi fólksins í sveitinni undrafljótt. Á Valþjófsstað, undir hinu fagra fjalli, var Bjarni sóknarprestur í þrjátíu og fjögur ár og fann sig þar jafnan heima. Lengst af þjónaði hann fjórum sóknum auk Valþjófsstaðar, Ássókn í Fellum og frá 1970 einnig Hofteigs- og Eiríksstaðasóknum á Jökuldal og þar með einnig Möðrudal. Auk prestsstarfa stundaði hann einnig búskap á Valþjófsstað, var með kindur og hross, prófaði kartöflurækt og fleira á þeim vettvangi. Kona Bjarna var Aðalbjörg Aðalbjarnardóttir frá Unaósi á Héraði, mikil húsmóðir og dugnaðarforkur og hvíldu bústörfin oft á hennar herðum er Bjarni var af bæ vegna starfa sinna. Aðalbjörg eða Badda, eins og hún var oftast nefnd, var hans styrki lífsförunautur og samband þeirra einstaklega náið. Börn þeirra eru fjögur, en fyrir átti Aðalbjörg tvö börn. Kynni okkar Bjarna hófust fyrir alvöru er ég gerðist kennari við Barna- og unglingaskólann á Hallormsstað haustið 1966. Bjarni var prófdómari við skólann nær öll mín kennsluár og börn hans að auki í skólanum. Með Bjarna var gott að starfa. Hann var nákvæmur prófdómari og gætti vel að hag barnanna. Það voru ætíð hátíðarstundir er Bjarni kom í skólann, honum fylgdi léttur andblær og gott spjall. Með okkur tókst góð vinátta, sem staðið hefur óslitið síðan. Má segja að þaðan í frá væri ég og fjölskylda mín eins og heimagangar á Valþjófsstað. Bjarni var einstakur maður heim að sækja, glaður og reifur í allri viðkynningu, kom ætíð til dyranna eins og hann var klæddur, hver sem í hlut átti. Heilli og heiðarlegri manni hef ég vart kynnst. Gestrisni og rausn þeirra hjóna var við brugðið, enda gestagangur jafnan mikill á heimilinu. Þar var öllum tekið opnum örmum, jafnt á degi sem nóttu, hvernig sem á stóð. Er örlögin höguðu því svo að ég hóf guðfræðinám eftir 9 ára kennslustarf á Hallormsstað, studdi Bjarni mig og hvatti til dáða. Ég held honum hafi fundist svolítið skemmtilegt að sóknarbarnið hans fyrrum skyldi fara út á þessa braut. Í hvert skipti sem fundum bar saman næstu árin beið guðfræðinemans opinn faðmur hjá þeim prestshjónum á Valþjófsstað. Og það var æði oft. Oft var gist og spjallað langt fram eftir nóttu, því Bjarni var málhress maður og umræðuefni næg, guðfræðin diskúteruð og eilífðarmálin, ekkert minna. En líka gengið í fjárhús með bóndanum og litið á kindurnar. Nokkrar messuferðir fór ég með Bjarna á þessum árum í kirkjur hans. Messudagar Bjarna voru hátíðlegir dagar. Hann vildi að menn gerðu messudaginn eftirminnilegan, þegar messað var en vildi ekki íþyngja fólki með of mörgum messum eins og hann orðaði það. Athafnir allar framkvæmdi hann af alúð og myndugleika. Hann var góður boðandi Orðsins, talaði beint frá hjartanu á skýru máli, oftast blaðlaust í sunnudagsmessum, var ekkert að flækja málin um of, einlægur boðandi Krists og hinnar björtu vonar. Útfararræður hans rómaðar, persónulegar og hlýjar og veittu mörgum styrk á þungbærum stundum. Árið 1997 lét Bjarni af störfum að eigin ósk eftir langa og farsæla prestþjónustu og almennar vinsældir. Fluttu þau hjón þá í Fellabæ í hús, sem þau höfðu byggt sér að Miðfelli 8, þar nutu þau efri áranna meðan heilsa beggja entist. Þangað var gott að heimsækja þau úr Norðurlandinu er samfundir urðu strjálli hin síðari árin. Fyrir tveimur árum, er heilsa Aðalbjargar fór versnandi, fluttu þau í íbúð á Heilbrigðisstofnuninni á Egilsstöðum og síðan á hjúkrunarheimilið Dyngju. Aðalbjörg lést 24. júlí 2015 og rétt hálfu ári síðar greindist Bjarni með ólæknandi sjúkdóm. Bjarni lést 29. nóv. sl. og verður lagður til hinstu hvílu við hlið konu sinnar í Valþjófsstaðagarði. Ég þakka sr. Bjarna fyrir samfylgdina og alla hans elskusemi við mig og mitt fólk og sendi börnum hans og öllum ástvinum einlægar samúðarkveðjur.

Ég kveð þig, vinur, með orðum Sólarljóða;

Hér við skiljumst

og hittast munum

á feginsdegi fíra.

Drottinn minn

gefi dánum ró

en hinum líkn er lifa.

Ólafur Þ. Hallgrímsson.