Þóra Guðrún Stefánsdóttir fæddist á Seyðisfirði 27. nóvember 1927. Þóra lést á Vífilsstöðum 14. júlí 2017. Hún var dóttir hjónanna Pálínu Andrésdóttur húsmóður og Stefáns Runólfssonar smiðs. Þau bjuggu á Seyðisfirði fyrstu árin en lengst af í Reykjavík. Tvíburasystur hennar voru Andrea Þórdís, f. 10. júní 1929, d. 1945, og Áslaug Sólveig, d. 2001.Þóra lauk námi frá Verslunarskóla Íslands árið 1945. Vann hún síðan hjá heildverslun í eitt ár. Þá fór hún í húsmæðraskóla til Svíþjóðar. Þóra giftist Ólafi Bergssyni 27. nóvember 1947. Foreldrar Ólafs voru Sara Ólafsdóttir og Bergur Arnbjörnsson.
Þóra og Ólafur bjuggu fyrst á Nýlendugötu 27 og síðan í 50 ár á Laugalæk 46. Eftir lát eiginmanns síns bjó Þóra á Dalbraut 20.
Börn Þóru og Ólafs eru:
1) Þóra Andrea, f. 2. mars 1948, gift Haraldi, d. 2015, börn þeirra eru Ólafur, Haraldur Andri og Fjölnir Freyr. Haraldur Andri er kvæntur Fionu Fox, börn þeirra eru Ava Miles og Jade. Fjölnir Freyr á dótturina Sunnevu með Kristínu Sveinbjörnsdóttur. Með fyrrverandi eiginkonu sinni, Dagmar Ýri Sigurjónsdóttur, á hann dæturnar Anítu Ýri, Rakel Ýri og Andreu Ýri.
2) Stefán Bergur, f. 6. nóvember 1949, kvæntur Ingunni Magnúsdóttur. Hennar synir eru Daníel og Róbert. Með fyrri eiginkonu sinni, Valgerði Gunnarsdóttur, á Stefán dæturnar Valgerði og Öglu Mörtu. Valgerður er gift Kristjáni Hlöðverssyni og eru börn þeirra Óliver Adam og Carmen Eva. Fyrir átti Kristján Alexöndru og Jakob. Dóttir Öglu Mörtu er Andrea Agla. Sambýlismaður Öglu Mörtu er Atli Sigurðsson, hann á soninn Sebastian.
3) Kolbrún, f. 10. febrúar 1952, gift Magnúsi Sigurðssyni. Þau eiga tvo syni, Stefán Pál og Magnús Þór. Stefán Páll á dótturina Önnu Kolbrúnu með Ernu Arnardóttur. Unnusta Magnúsar er Maria Skolota.
4) Sigrún Ólafsdóttir, f. 12. mars 1957, gift Fjalari Kristjánssyni. Þau eiga börnin Hebu og Högna. Sambýlismaður Hebu er Lúðvík Lúðvíksson.
5) Pálína Sólrún Ólafsdóttir, f. 4. mars 1962, gift Gunnari Sigmundssyni. Hún á synina Jakob Þór og Esra Þór með fyrri eiginmanni sínum, Jakobi Magnússyni. Jakob Þór er kvæntur Sóleyju Kaldal og eiga þau börnin Óla og Steinunni. Esra Þór er í sambúð með Önnu Köru Tómasdóttur. Gunnar á soninn Þórarin. Sambýliskona Þórarins er Björg Sveinbjarnardóttir og á hún soninn Darra. Saman eiga þau dótturina Silfu.
Þóra var heimavinnandi húsmóðir. Saumaskapur var hennar ástríða. Hún starfaði í bókhaldi Landsbanka Íslands í 20 ár. Hún ferðaðist mikið með manni sínum og börnum bæði innanlands og utan. Hún sat í stjórn Snarfara – félags smábátaeigenda. Um sextugt tók hún pungapróf. Þau Ólafur sigldu saman við strendur Íslands á bátnum sínum Blika. Þóra hélt vinskap við skólasystur sínar alla tíð og var í saumaklúbbi í 70 ár. Útför Þóru fór fram frá Laugarneskirkju 24. júlí 2017.
Þóra bjó á Laugalæk 46 stærstan hluta ævi sinnar ásamt Óla og dætrunum Öddu, Kollu, Sigrúnu, Sollu og syninum, Stebba frænda. Þessi fjölskylda var samofin minni sem bjó á Laugalæk 44. Það var hrein tilviljun að móðir mín Áslaug og Þóra völdust hlið við hlið þegar dregið var um búsetu. En þannig var það og þannig átti það að vera. Alla tíð var samgangur mikill á milli þeirra systra og fjölskyldna. Skotist var út sunnan í móti, dyrnar alltaf opnar fram á kvöld. Þóra sat við að sauma, prjóna, hekla, hanna eða taka upp snið úr Burda. Mamma var að vesenast í kringum okkur systur og frænkur, að baka og stússa, stundum að prjóna. Oft varð hún þó að skjótast yfir til Þóru t.d. með úrtöku á peysu, hún reddaði öllu sem óx mömmu í augum. Mamma bakaði svampbotna eða skonsur í staðinn og skutlaði yfir til Þóru. Magga og Bergur, Dúna og Dóri, Dúna og Gunnar, Inga og Bóbó ætluðu jafnvel að líta við síðdegis eða að kvöldi til Þóru og Óla og þá varð að vera til bakkelsi. En Þóra var reyndar líka flink í bakstri og matargerð en saumaskapurinn átti hug hennar allan ef friður var.
Svona gekk lífið sinn vanagang og oft var ég að kvöldi til hinumegin hjá Sigrúnu frænku og hlátrasköllin ómuðu. Í minningunni var alltaf líf og fjör á Laugalæknum. Svo voru það síðar Adda og Halli sem kíktu við með strákana, Kolla og Maggi með sína stráka og koll af kolli allir voru velkomnir til Þóru og Óla. Endalaust var hellt upp á kaffi og bætt á borðið, alltaf pláss fyrir alla og við nutum góðs af fjörinu, systurnar þrjár á Laugalæk 44.
Það sem einkenndi Þóru alla tíð var umhyggja fyrir allri fjölskyldunni, ættingjum og vinum ásamt hjálpsemi, reglusemi, staðfestu og óbilandi dugnaði. Þóra hafði ástríðu fyrir öllu sem viðkom handverki og var með á prjónunum fram undir nírætt og saumaði líka af miklum móð. Ég man hve glöð hún varð í fyrra þegar ég færði henni bútasaumslöber úr Ljósinu, hún sat með hann í fanginu í Lazy boy-stólnum sínum og dáðist að litavalinu og hve vel hann væri saumaður. Áður hafði hún sjálf gert fjölmarga fallega bútasaumsmuni sem hafa varðveist. Í fyrra gaf Þóra mér litla efnisbúta og ég fór að spreyta mig, það fannst henni svo gaman og fylgdist með framvindu en myndarskapur minn var fremur lítill.
Svona var Þóra hugfangin af handverki aðferðum, nýjungum og fleiru að ógleymdri tískunni sem hún fylgdist með alla tíð og síðast en ekki síst af dætrunum. Hún spretti, breytti, stytti, síkkaði, víkkaði og þrengdi fatnað allrar fjölskyldunnar alla tíð. Alltaf boðin og búin að redda og laga allt sem viðkom efnum.
Síðustu árin bjó Þóra á Dalbrautinni, ég kom þar ansi oft og líka ásamt dóttur minni og barnabarni og alltaf jafn hlýjar móttökur. Gamla góða borðstofuborðið, kaffi og meðlæti, oft komu fleiri gestir. Aldrei kom maður að tómum kofanum hjá Þóru, hún var alltaf glöð og ánægð, dró fram ljósmyndir, sendibréf, póstkort o.fl. sem henni höfðu borist frá Elsu eða Margréti í Svíþjóð, Leu á Kanarí eða Andra í USA. Hún fylgdist með þeim öllum Magga frænda í Noregi, Jakobi og Esra í Köben og þótti óskaplega vænt um öll sín barna- og barnabarnabörn. Þóra var nútímakona og hún hafði oft gaman af ýmsu bralli sem ég sagði henni frá og við áttum það sameiginlegt að hafa kynnst sjónum. Ég þó afar lítið miðað við Þóru sem sigldi með Sigrúnu og Fjalari og Kollu og Magga á skútu um heimsins höf. Þóra hafði pungapróf sem var fremur fátítt og var líka mikið á bátnum með Óla sínum. Hún vann um árabil í Landsbanka Íslands, Austurstræti og hélt alla tíð tryggð við þann hóp að ógleymdri Viggu og vinkonum úr saumaklúbbnum. Þóra var einstök kona, ég ásamt Sóleyju dóttur minni og hennar fjölskyldu, minnumst hennar með mikilli hlýju og söknuði. En lífið heldur áfram og Þóra hefði ekki viljað að neinn dveldi við sorg og sút.
Blessuð sé minning yndislegrar móðursystur minnar, Þóru Stefánsdóttur.
Þórdís Leifsdóttir.