Niðurstöður skýrslu um vatnsverndarmál á Bláfjallasvæðinu sem væntanleg er á næstu vikum ráða því hvort farið verður í uppbyggingu og endurbætur á skíðasvæðinu þar – svo og við Þríhnjúkagíg sem er orðinn vinsæll ferðamannastaður.

Niðurstöður skýrslu um vatnsverndarmál á Bláfjallasvæðinu sem væntanleg er á næstu vikum ráða því hvort farið verður í uppbyggingu og endurbætur á skíðasvæðinu þar – svo og við Þríhnjúkagíg sem er orðinn vinsæll ferðamannastaður.

Landið sem um ræðir er innan Kópavogs og fyrir liggja deiluskipulagstillögur viðvíkjandi Bláhnjúkum og Þríhnjúkagígum. Til þess að ljúka megi skipulagi fyrir svæðið er þó nauðsynlegt að greina hvort vatnsbólunum á Heiðmerkursvæðinu sé ógnað með starfsemi á nefndum stöðum. Fyrir tveimur árum kom út skýrsla um vatnsvernd á höfuðborgarsvæðinu sem Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu létu gera vegna svæðisskipulags. Nú er verið að greina ákveðna þætti þeirrar skýrslu betur.

„Menn vildu fara dýpra í málið hvað varðar Bláfjöll og Þríhnjúka og gera sér enn betri grein fyrir því hvernig vatnsstraumarnir liggja neðanjarðar,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri í Kópavogi. Áhættugreiningin vegna skíðasvæðisins tengist umferð sem og mengun vegna hennar, segir Ármann.

Reykjavíkurborg sér um rekstur skíðasvæðisins fyrir hönd sveitarfélaganna. Samkomulag liggur fyrir á meðal þeirra um að horfa til frekari uppbyggingar í Bláfjöllum. Huga þarf að endurnýjun búnaðar og aðstöðu á skíðasvæðinu. Einnig eru uppi áform um snjóframleiðslu.

Bæjarland stækkar

Nýfallinn dómur Hæstaréttar Íslands þar sem úrskurður héraðsdóms um að Bláfjöll og Sandskeið væru þjóðlenda innan marka Kópavogsbæjar var staðfestur sýnir að sögn Ármanns hvar mörk sveitarfélaga liggja og einfaldar stjórnsýslu eftir áratugadeilu um mörkin. Með dómnum stækkar bæjarland Kópavogs um 3.000 hektara.

freyr@mbl.is