Sigurbros Hrafnhildur Lúthersdóttir kemur fyrst að bakkanum í Laugardalnum í gær.
Sigurbros Hrafnhildur Lúthersdóttir kemur fyrst að bakkanum í Laugardalnum í gær. — Morgunblaðið/Hari
Sund Andri Yrkill Valsson Kristján Jónsson Hrafnhildur Lúthersdóttir og Aron Örn Stefánsson úr Sundfélagi Hafnarfjarðar unnu hvort um sig til tvennra gullverðlauna þegar Íslandsmótið í sundi í 25 metra laug hófst í Laugardalslauginni í gær.

Sund

Andri Yrkill Valsson

Kristján Jónsson

Hrafnhildur Lúthersdóttir og Aron Örn Stefánsson úr Sundfélagi Hafnarfjarðar unnu hvort um sig til tvennra gullverðlauna þegar Íslandsmótið í sundi í 25 metra laug hófst í Laugardalslauginni í gær.

Hrafnhildur hefur árum saman verið ósigrandi í bringusundi hérlendis og sigraði í gær í 100 metra bringusundi á ágætum tíma á hennar mælikvarða: 1:07,90 mínútum sem er um tveimur sekúndum frá Íslandsmeti hennar. Síðar í gær bætti Hrafnhildur við öðru gulli í fjórsundi. Hrafnhildur synti 200 metra fjórsund á 2:16,84 mínútum og er það um fimm sekúndum frá Íslandsmetinu í greininni sem er í eigu hennar.

Aron Örn Stefánsson nældi í gullverðlaun í 100 metra bringusundi þegar hann synti á tímanum 1:03,84 mínútum. Aron Örn vann svo einnig 50 metra skriðsund tæpum hálftíma síðar. Hann kom þá í bakkann á 22,54 sekúndum eftir harða keppni við liðsfélaga sinn úr SH, Predrag Milos, sem varð annar á 22,59 sekúndum.

Ingibjörg Kristín Jónsdóttir, sundkona úr SH, var tæpa sekúndu frá Íslandsmetinu í „sprettsundinu“ 50 metra skriðsundi. Synti hún vegalengdina á 25,67 sekúndum, en Íslandsmet Ragnheiðar Ragnarsdóttur er 24,94 sekúndur og hefur staðið í sjö ár.

Eygló Ósk Gústafsdóttir úr Ægi er að jafna sig á bakmeiðslum eins og hún greindi frá í Morgunblaðinu á dögunum. Eygló vann öruggan sigur í sinni bestu grein: 200 metra baksundi. Hún synti á 2:10,39 mínútum sem er um sjö sekúndum frá Íslandsmeti hennar.