[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Reiknað er með að ný lög um veiðigjöld verði samþykkt á grænlenska þinginu í næstu viku. Þau eiga að leysa af hólmi fimm eldri lög um veiðar úr einstökum fiskstofnum.

Baksvið

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Reiknað er með að ný lög um veiðigjöld verði samþykkt á grænlenska þinginu í næstu viku. Þau eiga að leysa af hólmi fimm eldri lög um veiðar úr einstökum fiskstofnum. Vonir standa til að með nýju lögunum aukist fyrirsjáanleiki í rekstri til frambúðar í fiskveiðum Grænlendinga, en á síðustu árum hefur kerfinu oftsinnis verið breytt til að afla aukins fjár í ríkiskassann. Áætlað er að veiðigjöld geti skilað rúmum sex milljörðum króna í ríkissjóð Grænlands á næsta ári. Það er talsverð hækkun frá því sem verið hefur, og er m.a. til komin vegna aukins rækjukvóta.

Mörg sjónarmið í starfshópi

Fyrir tveimur árum settu stjórnvöld í Grænlandi á laggirnar vinnuhóp til að reikna út auðlindarentu í fiskveiðum og reyna að þróa veiðigjaldakerfi sem væri hægt að nota fyrir allra tegundir. Formaður starfshópsins var Hilmar Ögmundsson, sem starfar sem sérfræðingur í grænlenska fjármálaráðuneytinu og sem ráðgjafi ráðherra. Hann hefur jafnframt leitt starfshópa sem vinna að umbótum í lífeyris-, skatta- og velferðarmálum. Lög um veiðigjöld og innheimta þeirra heyra undir fjármálaráðuneyti Grænlands, en fiskveiðistjórn og löggjöf þar að lútandi undir sjávarútvegsráðuneytið.

Í samtali við Morgunblaðið segir Hilmar að ólíkum hagsmunahópum hafi verið boðið að vinna með starfshópnum um breytingar á veiðigjöldum. Fulltrúar útgerða stærri og smærri skipa, sjómanna, banka, verkalýðsfélaga og sveitarstjórna hafi komið að vinnunni, sem lauk með skýrslu til ríkisstjórnarinnar í apríl sl. Þar hafi sex tillögur verið reifaðar og hafi verið ákveðið að vinna lagafrumvarp út frá einni þeirra, sem var lagt fram á þingi í haust

Samkvæmt nýju lögunum verða veiðigjöld veltutengd og gengur kerfið út á að innheimta hlutfall af löndunarverðmæti. Í stað þess að vera með fimm mismunandi lög eða módel eftir fisktegundum taka nýju lögin, væntanlega frá áramótum, til allra fisktegunda nema uppsjávartegunda. Þar lágu fullnægjandi upplýsingar ekki fyrir og verða veiðigjöld á uppsjávartegundir áfram fast kílógjald eins og er í núverandi lögum.

Allar úthafsveiðar gjaldskyldar

Miðað er við að allar úthafsveiðar verði gjaldskyldar, en aðeins grálúða og rækja í strandveiðunum. Í meðförum þingsins í vikunni var ákveðið að undanskilja aðrar tegundir í strandveiðum. Veiðigjald verður reiknað sem fast hlutfall af heildartekjum hvers skips án afsláttar. Módelið gengur út á að innheimt er hlutfall af löndunarverðmæti til fiskvinnslu í Grænlandi og verður það 5% ef meðalverðið fer yfir átta krónur danskar á kíló. Ef verðið er undir átta krónum er aðeins innheimt lágt grunngjald eða fimm aurar danskir á kíló.

Ef um beinan útflutning frá skipum er að ræða og útflutningsverð á kíló er að meðaltali tólf krónur danskar greiðast tveir aurar danskir á kíló. Ef meðalverðið er 12-17 krónur er gjaldið 5% af útflutningsverðmæti, en eftir 17 krónur hækkar gjaldið um 1% þangað til gjaldprósentan er 17,5%. Það svarar til 29,5 danskra króna meðalútflutningsverðs á kíló og verður prósentan föst eftir það.

Stundum hefur vantað peninga til að loka fjárlögum

Spurður um þessa vinnu og hvort sátt ríki í Grænlandi um nýja veiðigjaldakerfið, segir Hilmar: „Frá 2013 hefur verið unnið að því að búa til nýtt kerfi sem sátt væri um. Það hefur ekki tekist fram til þessa, ýmist hefur verið boðað til kosninga, skipt um ráðherra eða annað komið upp á svo ekki hefur tekist að vinna tillögu um breytingar til hlítar. Stundum hefur vantað peninga til að loka fjárlögum og þá hefur þurft að setja eitt gjaldið á til viðbótar eða breyta lögum til að ná í aukið fjármagn. Þetta hefur minnkað fyrirsjáanleika í rekstri og skapað óánægju.

Útgerðirnar verða seint sáttar við að borga hærri skatta og eðlilegt að menn spyrni við fótum við því. Það eru þó allir sammála um að greiða eitthvað til ríkisins, en sennilega verður aldrei sátt um hversu mikið það eigi að vera. Markmiðið með breytingunum nú er að hafa ein lög um veiðigjöldin og vera ekki endalaust að breyta þessu.“

Hilmar segir að í vinnu við það módel sem nú er byggt á hafi ársreikningar fyrri ára verið skoðaðir og svo efnahagsgögn varðandi einstök skip frá útgerðunum sjálfum til að reyna að meta auðlindarentuna og hvað útvegurinn þyldi. Hugmyndin sé að framvegis verði það metið á hálfs árs fresti hvort gjaldið sé of hátt eða lágt. Vel geti verið að stilla þurfi prósentuna af án þess að grunnmódelinu verði breytt.

Í grein sem Hilmar skrifaði í sérútgáfu Fiskifrétta í tengslum við sjávarútvegssýninguna í september segir hann meðal annars: „Það er stigvaxandi vandamál að landstjórnin gerir næstu fjögur árin ráð fyrir að fá að lágmarki 300 millj. DKK í veiðigjöld á ári til að fá fjárlög til að hanga saman. Það má því segja að landstjórnin sé orðin mjög háð þessum háu tekjum og opinber fjármál séu hálfberskjölduð gagnvart verðsveiflum á fiski sem hafa áhrif á arðsemi flotans og tekjur frá veiðigjöldum.“

Veiðigjöld á rækju 1984

Grænland var sennilega eitt fyrsta landið í heiminum þar sem veiðigjöld voru lögð á; fyrst á rækju árið 1984 eða aðeins sex árum eftir að Grænland fékk heimastjórn. Rækjan var þó eina tegundin fram til 2013 sem bar veiðigjald, en þá var gjald lagt á úthafsveiðar á grálúðu. Frá 2009 hefur það verið stefna stjórnvalda að allir skuli greiða fyrir aðgang og nýtingu á sameiginlegum fiskistofnum Grænlands og unnið skuli að því að leggja veiðigjald á allar veiðar óháð tegund.

Árlegar heildartekjur grænlenska ríkisins af veiðigjöldum á árunum 1991 til 2016 hafa sveiflast frá 49.000 DKK (hálf milljón ISK) árið 2005 til 280,6 milljóna DKK (5 milljarðar ISK) árið 2016. Veiðigjöldin námu 4,3% af heildartekjum ríkisins 2016. Ástæðan fyrir mikilli hækkun á tekjum vegna veiðigjalda er m.a. sú að verð á rækju hefur tvöfaldast á síðustu sjö árum og verð á grálúðu hækkað um 60%.

Veiðigjöldin frádráttarbær

Veiðigjöldin eru frádráttarbær frá skatti og skerða því tekjur ríkisins af fyrirtækjaskatti. Það breytist ekki með nýju lögunum. Einnig skerðast tekjur frá tekjuskatti þar sem veiðigjöldin eru dregin frá skiptahlut sjómanna. Tekjur ríkissjóðs af veiðigjöldum 2016 voru því einungis 183 milljónir DKK (3,3 milljarðar ISK), að því er fram kemur í fyrrnefndri grein Hilmars í Fiskifréttum.

Sjávarútvegur er grundvöllur hagkerfis Grænlands og mikilvægasta atvinnugreinin fyrir utan störf á vegum hins opinbera. Alls skapar sjávarútvegurinn um fjögur þúsund heilsársstörf sem er um 11% af vinnuafli og leggur til um 16% af þjóðarframleiðslunni. Sjávarafurðir eru langmikilvægustu útflutningsvörurnar og voru um 95% af vöruútflutningi Grænlands árið 2016. Tvær mikilvægustu tegundirnar, rækja og grálúða, stóðu það sama ár undir um 71% af heildarvöruútflutningi.

Grænlendingar setja árlega heildaraflamark í hverri tegund og er því úthlutað til grænlenskra útgerða og ríkja sem Grænland hefur fiskveiðisamninga við. Heildaraflamark til grænlenskra útgerða í rækju í ár var 86.356 tonn, í grálúðu 41.575 tonn og 61.625 í þorski. Ákvæði eru síðan um löndunarskyldu, stærð skipa og hvort um úthafsveiðar utan þriggja sjómílna frá strandlínu er að ræða eða strandveiðar, en allar veiðar eru leyfisskyldar.