Ég er orðinn mjög spenntur fyrir drættinum á HM í fótbolta sem fram fer í Kreml í Moskvu á fullveldisdegi okkar Íslendinga, 1. desember.
Ég er orðinn mjög spenntur fyrir drættinum á HM í fótbolta sem fram fer í Kreml í Moskvu á fullveldisdegi okkar Íslendinga, 1. desember.

Nú vitum við hvernig styrkleikaflokkarnir líta út og hverjir hugsanlegir mótherjar Íslendinga verða á stóra sviðinu í Rússlandi þegar HM fer þar fram 14. júní til 15. júlí.

Ég hef verið að velta vöngum yfir því hvernig ég vil sjá riðil okkar Íslendinga og eftir mikla yfirlegu þá vil ég fá Argentínu, England og Panama. Ég sé bara nokkuð góða möguleika á að komast upp úr þessum riðli!

Það yrði gríðarlega gaman að sjá strákana okkar glíma við Lionel Messi og félaga hans í frábæru liði Argentínu en ég veit ekki hvort Raggi Sig, Kári Árna eða Sverrir Ingi, Hannes markvörður og allir hinir strákarnir okkar séu mér sammála. Altént yrði áhugavert að sjá hvernig okkar mönnum myndi takast upp við að mæta töframanninum Messi, besta fótboltamanni heims.

Englendingar , bæði leikmenn og stuðningsmenn, eru margir hverjir logandi hræddir að dragast í riðil með okkur eftir ófarirnar á EM í fyrra. Hvað yrði meira gaman en að leggja þá aftur að velli og strá enn meira salti í sárin? Englendingar eru enn að ræða um leikinn í Nice og þá niðurlægingu sem þeir urðu fyrir þegar þeir töpuðu fyrir litla Íslandi.

Panama veit ég lítið sem ekkert um nema að það er fara á sitt fyrsta HM eins og Íslendingar, það er í 49. sæti á FIFA-listanum góða og hefur verið skattaskjól eins og við Íslendingar þekkjum mæta vel.