Flugsýn Öræfajökull þar sem nýr sigketill hefur nú myndast.
Flugsýn Öræfajökull þar sem nýr sigketill hefur nú myndast. — Ljósmynd/Ágúst J. Magnússon
Engin merki eru um gosóróa eða yfirvofandi eldgos þótt myndast hafi ketill, sem er um það bil 1 km í þvermál, í öskju Öræfajökuls og þykir hann endurspegla að jarðhitavirkni á þessu svæði sé að aukast.

Engin merki eru um gosóróa eða yfirvofandi eldgos þótt myndast hafi ketill, sem er um það bil 1 km í þvermál, í öskju Öræfajökuls og þykir hann endurspegla að jarðhitavirkni á þessu svæði sé að aukast. Ríkislögreglustjóri, í samráði við lögreglustjórann á Suðurlandi, lýsti yfir óvissustigi almannavarna á svæðinu á ellefta tímanum í gærkvöldi.

Landhelgisgæslan flýgur í dag með vísindamenn til að kanna aðstæður. Veðurstofan hefur aukið vöktun á svæðinu og fylgist vel með í samráði við vísindamenn og almannavarnir.

Fyrirhugað var að lögreglan á Suðurlandi yrði með vakt á þjóðveginum síðastliðna nótt og verður sú ráðstöfun endurskoðuð eftir flug vísindamanna yfir svæðið. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni virðist sem jarðhitavatn hafi lekið hægt undan katlinum og komið fram undan Kvíárjökli í Öræfum, en brennisteinslykt hefur fundist í nágrenni við Kvíá. Líklegt þykir að mesta vatnið hafi nú þegar runnið undan katlinum.

Þessu tengt er að talsvert jarðhitavatn hefur að undanförnu verið í Jökulsá á Fjöllum. Hugsanlegt er talið að vatnið komi úr Bárðarbungu á Vatnajökli þar sem jarðhiti hefur verið að aukast að undanförnu. sbs@mbl.is