Berskjaldaður „Mér finnst áhugavert og í raun dularfyllri nálgun felast í því að vera berskjaldaður,“ segir Úlfur um ljósmyndina af sér sem prýðir umslag plötunnar Arborescence sem hér má sjá.
Berskjaldaður „Mér finnst áhugavert og í raun dularfyllri nálgun felast í því að vera berskjaldaður,“ segir Úlfur um ljósmyndina af sér sem prýðir umslag plötunnar Arborescence sem hér má sjá.
Helgi Snær Sigurðsson helgisnaer@mbl.is Arborescence nefnist nýútkomin breiðskífa tónskáldsins og tónlistarmannsins Úlfs Hanssonar sem útgáfufyrirtækið figureight gefur út, rafrænt og á vínylplötu.

Helgi Snær Sigurðsson

helgisnaer@mbl.is

Arborescence nefnist nýútkomin breiðskífa tónskáldsins og tónlistarmannsins Úlfs Hanssonar sem útgáfufyrirtækið figureight gefur út, rafrænt og á vínylplötu. Úlfur hefur búið og starfað í New York á þriðja ár en bjó þar áður í tvö ár í San Francisco, á meðan hann var í mastersnámi í raftónlist við Mills College sem hann lauk árið 2015. Hann hlaut verðlaun International Rostrum of Composers sem „Ungt tónskáld ársins“ árið 2013 og hefur m.a. samið verk fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands og Kronos-kvartettinn, auk þess að starfa með þekktum tónlistarmönnum á borð við Jónsa í Sigur Rós og hina sænsku Önnu Von Hauswolff.

Úlfur hefur vakið athygli fyrir sérsmíðuð hljóðfæri sín og hlaut Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands 2013 fyrir 26 strengja rafstrokna hörpu sem hann þróaði og vann ári fyrr og árið 2013 gaf hann líka út sína fyrstu sólóplötu, White Mountain , sem hlaut prýðilegar viðtökur og m.a. fjórar stjörnur hjá gagnrýnanda Morgunblaðsins.

Stúdíó sem kalla má heimili

Á plötunni fær Úlfur fjölda þekktra tónlistarmanna til liðs við sig, innlenda og erlenda, og má af þeim nefna Skúla Sverrisson, Gyðu Valtýsdóttur, Ólaf Björn Ólafsson, Alex Somers, Zeenu Parkins, Greg Fox og Shahzad Ismaily.

„Ég er búinn að þekkja Shahzad mjög lengi, en hann hefur eytt talsverðum tíma á Íslandi. Við það að flytja til New York fór ég strax að vinna mikið af tónlistinni minni í upptökustúdíóinu hans sem heitir figureight, sem er núna einmitt orðið að útgáfufyrirtæki líka,“ svarar Úlfur þegar hann er spurður hvað hann hafi verið að gera í New York. „Það er svo gott að vera með stúdíó sem maður getur kallað sitt heimili. Ég þekki það orðið svo vel að ég get gengið þar inn og tekið upp hugmyndir nánast jafn hratt og þær koma til mín.“

– Tónlistarmennirnir sem figureight gefur út eru allir dálítið tilraunagjarnir, ekki satt?

„Jú, það má segja það. Ég myndi kannski frekar kalla það framúrstefnulega tónlist.“

Út um allar trissur

Plötutitillinn er forvitnilegur og Úlfur er spurður hvað hann þýði og hvernig hann tengist tónlistinni. „„Arboreal“ er allt það sem tengist trjám, en Arborescence er dregið af því orði. Orðið lýsir þeim formum í náttúrunni sem kvíslast út og vaxa líkt og trjágreinar eða eldingar, jafnvel ákveðnar tegundir af koparkristöllum,“ segir Úlfur og að angarnir teygi sig í ólíkar áttir, m.a. í raftónlist, sönglög og klassíska framúrstefnu, en titilverk plötunnar samdi hann upphaflega fyrir L'Orchestre Philharmonique de Radio France árið 2016 og var það flutt af Sinfóníuhljómsveit Íslands á þessu ári.

„Ég fer út um allar trissur á Arborescence, en öll þessi element eiga rætur að rekja til þess sem er í gangi innan í mér. Þetta eru allir angarnir sem ég er með úti,“ segir Úlfur. „Flest lögin eru dálítið fókuseruð á eitt element í einu nema titillagið, þar sem allt kemur saman í eina heild; kammermúsík, raftónlist og dauðarokk. Þetta eru mismunandi leiðir fyrir mig að sama endapunkti; angar sem teygja sig líkt og trén í átt að ljósinu,“ segir Úlfur.

Áhrif úr dauðarokki

Vinur Úlfs, trommarinn Greg Fox, leikur í titillaginu en hann hefur m.a. trommað með rokksveitinni Liturgy. „Ég vildi fá mjög ákveðinn víbring inn í hljóðversútgáfu verksins. Þegar það var flutt af Sinfó skrifaði ég strengina þannig að hver og einn hljóðfæraleikari fékk einstaka rödd fyrir sig, og þeir börðu á hljóðfærin sín með spýtunni á boganum, ekki hárunum,“ útskýrir Úlfur. „Það var gaman að taka verkið fyrir í stúdíóinu og geta dregið þessa nálgun betur fram með áhrifum úr dauðarokkinu.“

Úlfur segir um eins og hálfs árs vinnu liggja að baki plötunni en sem fyrr segir var hann í meistaranámi í raftónlist í Kaliforníu áður en að gerð hennar kom. „Ég var m.a. að læra þar hjá Zeenu [Parkins] hörpuleikara, Fred Frith og Pauline Oliveros ásamt fleirum þungavigtarraftónlistargúrúum. Það var ótrúlega skemmtilegt að geta einbeitt sér að því sem maður hafði ekki látið reyna mikið á áður, eins og t.d. að impróvísera óundirbúinn á akústísk hljóðfæri fyrir framan áhorfendahóp. Það var stórkostleg upplifun fyrir mig og hafði mikil áhrif á hvernig ég nálgaðist gerð þessarar plötu.“

– Námið skilaði þér s.s. miklu?

„Já, sérstaklega í tengslum við tónlistarflutning og að treysta augnablikinu, að geta tekið ákvarðanir á staðnum og vera ekki stanslaust að nota tæknina til að snurfusa eitthvað alveg út í eitt.“

Hið skrítna og óáþreifanlega

– Þú syngur í nokkrum lögum á plötunni, gerðirðu það líka á síðustu plötu?

„Nei, það voru alveg ótroðnar slóðir og mér þykir það enn mjög spennandi, röddin tengir okkur saman á öðruvísi hátt en önnur hljóðfæri,“ segir Úlfur sposkur. Hann hafi langað áður að syngja og hafi nú látið slag standa, samið texta og sungið.

En hvað er hann að semja um, um hvað fjalla textarnir? Úlfur hlær. „Þú verður eiginlega að hlusta á textana en þeir koma bara til mín á staðnum,“ segir hann.

Blaðamaður sættir sig ekki við þetta svar og spyr hvort sungið sé um ástina, fjölskylduna og lífið í stórborginni, svo dæmi séu tekin. Úlfur hlær og lætur undan þrýstingnum. „Nei, ég er alltaf með hausinn einhvers staðar úti í geimi, þannig að ég held að þetta snúist meira um hið skrítna og óáþreifanlega í tilverunni.“

Úlfur er skælbrosandi framan á plötunni og lygnir aftur augum (sjá meðfylgjandi ljósmynd). Blaðamanni þykir það skemmtileg lausn og einföld og spyr hvers vegna Úlfur hafi farið þá leið. „Mér finnst áhugavert og í raun dularfyllri nálgun felast í því að vera berskjaldaður, að setja ekki upp einhverja grímu til að sýna hvað ég sé alvarlegt tónskáld,“ segir hann.

– Það sést líka að þú hefur gaman af lífinu og tónlistarsköpuninni?

„Já, lífið er æði. Það er flott að vera til.“