Heiðar Bergmann Baldursson fæddist 10. október 1949 á Patreksfirði. Hann lést 1. nóvember 2017.

Móðir Heiðars var Olga Júlíusdóttir og faðir hans er Baldur Ásgeirsson. Heiðar ólst upp hjá móðurömmu og afa, fyrst í Austmannsdal og frá níu ára aldri á Bíldudal.

Eftirlifandi eiginkona Heiðars er Helga Jóhannesdóttir. Hófu þau búskap sinn á Bíldudal árið 1968 en fluttust búferlum í Stykkishólm árið 1993. Synir þeirra eru Stefán Bergmann Heiðarsson og Baldur Bergmann Heiðarsson. Heiðar átti fjórar afastelpur.

Heiðar var til sjós frá 14 ára aldri og gekk í öll störf hvort sem hann var skipstjóri, kokkur eða háseti.

Útför Heiðars fer fram frá Stykkishólmskirkju í dag, 18. nóvember 2017, og hefst athöfnin klukkan 14.

Fáir hafa í gegnum árin komið eins oft í kaffi til mín og Heiðar. Á veturna greip hann iðulega skófluna og mokaði vandlega frá dyrunum og niður tröppurnar áður en hann kom inn fyrir og hlýjaði sér á kaffisopanum og á sumrin átti hann það til að grípa sláttuvélina og slá, bara svona í leiðinni fyrst hann var hvort sem er í kaffi.

Hann fann sér alltaf verkefni, hvort sem það var að útbúa hlið á hundagirðinguna, græja rólur og snúrustaura, mála, smíða kofa eða að dytta að hjólunum fyrir sumarið. Svona var Heiðar, alltaf boðinn og búinn fyrir fólkið sitt. Fyrir fjölskyldu, vini og vandamenn. Traustur vinur. Alltaf til staðar fyrir afastelpurnar sínar, allar fjórar, og alltaf að hugsa um þeirra hag. Alltaf.

Eftir að við fluttum í Borgarnesið breyttist samskiptamynstrið frá því að vera daglegur kaffisopi í lengri kaffistopp með lengra millibili og gistingu á báða bóga.

Sérlega hentugt að millilenda þar á leiðinni til og frá vinnu á Reykhólum yfir vetrarmánuðina þegar færðin var leiðinleg eða þegar læknisheimsókn í Reykjavík var snemma morguns. Góðar minningar og góðar stundir.

Ég er þakklát fyrir okkar kynni og trausta vinskap.

Elín Matthildur

Kristinsdóttir.

Það var alltaf gaman að vera með afa og það eru ýmsar minningar sem koma upp í hugann. Veiðitúrarnir, útilegurnar, bíltúrarnir og svo margt fleira. Hann var alltaf jafn glaður þegar við komum í heimsókn, hvort sem það var oft á dag þegar við bjuggum í Hólminum eða þegar lengra leið á milli heimsókna eftir að við fluttum frá Stykkishólmi. Honum var alltaf umhugað um að við fengjum nú alltaf eitthvað sem okkur langaði í að borða og drekka og að okkur skorti ekkert.

Sérstaklega er gaman að hugsa til þess hvað það var gaman að vera með honum á Bíldudal. Þar var hann í essinu sínu, lék við hvern sinn fingur, hló og spjallaði við alla.

Að labba um með honum á Bíldudal var eins og að labba með Elvis Presley um Hollywood, allir þekktu hann og hann þekkti alla.

Og hann var afskaplega stoltur af því að kynna okkur afastelpurnar sínar fyrir öllum þar.

Takk fyrir allar góðu stundirnar, elsku afi.

Heiða Karen, Helena Helga, Kristrós Erla og Díana Dóra.

Góður vinur og samstarfsfélagi til margra ára, Heiðar Bergmann Baldursson, er látinn. Fundum okkar Heiðars bar fyrst saman árið 1990 þegar hann var reglulega farþegi á ferjunni Baldri. Heiðar vakti sérstaka athygli mína með sínum snaggaralegu hreyfingum, glaðlyndi og vestfirska hreimnum. Heiðar bar það strax með sér að þarna væri á ferðinni skemmtilegur, lífsreyndur og traustur maður þrátt fyrir ungan aldur. Um tveimur árum síðar vorum við orðnir skipsfélagar á ferjunni Baldri og varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi næstu 10 árin.

Á árunum okkar á Baldri var ýmislegt brasað eins og gengur til sjós en ávallt nutum við styrkra starfa bátsmannsins sem sýndi fádæma fagmennsku í störfum sínum auk einstakrar þjónustulundar og hjálpsemi við farþega okkar og samstarfsfólk. Kersknin og gamansemin var aldrei langt undan hjá Heiðari og hann sá oft spaugilegar hliðar við ólíklegustu aðstæður. Andinn var góður um borð og menn leyfðu sér að gantast í skipsfélögunum þar sem áhöfnin var samhent og góður vinskapur ríkti. Heiðar lagði sig mikið fram um að miðla af reynslu sinni til yngra fólksins um gildi góðra vinnubragða og góða sjómennsku og öryggismálin áttu hug hans eins og flestra í þessari áhöfn.

Eftir að Heiðar flutti til Stykkishólms setti hann fljótlega svip sinn á bæjarlífið og ekki leið á löngu þar til allir þekktu Heiðar, sem var boðinn og búinn til aðstoðar í hverju því verki sem fyrir lá. Það þurfti að flaka fisk fyrir veitingahúsin, flytja búslóðir eða bara létta undir með einhverjum samborgaranum, svona liðu margar frívaktirnar í landi hjá Heiðari.

Eftir að leiðir okkar Heiðars skildi á Baldri og samband okkar ekki lengur daglegt, eins og verið hafði um áratug, varð ræktarsemi Heiðars þó til þess að við heyrðumst alla tíð í síma a.m.k. helst í hverjum mánuði.

Þessi símtöl okkar voru mér mikils virði, ég fékk að sjálfsögðu allar helstu fréttir eins og gengur og einnig gátum við rætt okkar hugðarefni og fylgst með fjölskyldum hvor annars. Þegar Heiðar hringdi og Dísa eða börnin okkar svöruðu símanum gat hann rætt við þau tímunum saman og gleymdi jafnvel erindinu sem var að ræða við mig. Hann hringdi þá bara daginn eftir og kláraði það.

Ég get ekki látið hjá líða að minnast frásagnarhæfileikanna en Heiðar var fjölhæfur sagnamaður.

Hann kunni skil á fjölmörgum sögum frá fyrri tíð og úr samtímanum bæði af sjálfum sér og öðrum og gerði óhikað grín að sjálfum sér. Margar þessara sagna með frásagnargleði Heiðars eru greyptar í minninguna og vekja bros er hugurinn rennur til þeirra.

Elsku Helga, Baldur, Stefán og barnabörn, við Dísa vottum ykkur okkar dýpstu samúð og megið þið finna styrk í ykkar sorg.

...

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

Hörður Gunnarsson.

Kær vinur er fallinn frá. Heiðar vinur okkar hefur kvatt allt of fljótt eins og manni finnst um þá sem manni þykir vænt um. Vinskapur okkar hefur náð svo langt aftur sem ég man. Við ólumst upp á Bíldudal og þar eins og annars staðar byrjaði unga fólkið að vinna um leið og skóla lauk.

Heiðar vinur minn ólst upp hjá ömmu sinni og afa og byrjaði ungur að taka þátt í lífsins ólgusjó. Sjómennska var hans ævistarf og um 1980 vorum við saman á rækjubát sem var gerður út frá Bíldudal.

Vinur minn var ósérhlífinn og hann lagði sig allan fram við vinnu.

Í mörg ár vann hann á Breiðafjarðarferjunni Baldri og þegar sveitungar hans og vinir voru með á bátnum varð alltaf að spjalla.

Heiðar hringdi oft og spurði frétta að heiman. Sæll, kallinn, hvað segirðu? Við eigum eftir að sakna þess að fá ekki þétt vinarfaðmlag frá Heiðari eins og þegar við hittumst síðast á Bíldudal fyrir rétt um mánuði er við fylgdum góðum vini til grafar. Faðmlag hans var þétt og fast og maður fann vináttuna og væntumþykjuna.

Heiðar kynntist lífsförunaut sínum, henni Helgu, rétt um tvítugt og eiga þau synina tvo Stefán og Baldur. Þau eiga líka stelpurnar hans Baldurs sem hafa verið augasteinar ömmu og afa. Heiðar og Helga bjuggu í Stykkishólmi og undu þau þar hag sínum vel og lífið gekk sinn vanagang. Heiðar var að koma úr sjóferð á Reykhólum þegar kallið kom.

Helgu, Stefáni, Baldri og ömmu- og afastelpunum vottum við okkar dýpstu samúð.

Elsku vinur, hafðu þökk fyrir alla vináttuna.

Fann ég sterkan faðminn þinn.

Fann ég vinarhlýju.

Hvíl í friði Heiðar minn,

uns hittumst við að nýju.

(SJ.)

Sverrir Garðarsson.

Í dag kveðjum við góðan vinnufélaga.

Þegar Heiðar byrjaði að vinna hjá okkur var hann fljótur að kynnast fólkinu sem vann með honum og öðrum sem á vegi hans urðu.

Heiðar þekkti alla samstarfsmenn sína og talaði við þá á jafningjagrundvelli.

Hann var einstaklega góður við yngra starfsfólk, að leiðbeina því, hlusta á það og jafnvel að gera góðlátlegt grín að því. Það var alltaf stutt í grínið hjá Heiðari, hvert sem umræðuefnið var.

Heiðar passaði upp á að hafa alltaf heitt á könnunni, eða heitt vatn fyrir þá sem vildu te. Þannig fékk hann fólk til að setjast niður með sér og spjalla annaðhvort um lífið og tilveruna eða um vinnuna.

Heiðar var sjómaður af lífi og sál og naut þess vel að vera um borð í Gretti. Í eldhúsinu var hann sem kóngur í ríki sínu og bauð fólki gjarnan í mat og var boðinn og búinn að smyrja auka samlokur eða elda handa starfsfólki sem þurfti að vinna fram á kvöld.

Hann talaði ekki bara við okkur samstarfsfélagana í vinnunni. Hann hringdi gjarnan í vinnufélagana til þess að spyrja frétta, jafnvel þegar hann var á leið heim úr vinnu. Hann var áhugasamur um líf fólksins í kringum sig og hafði oft orð á því við yngri starfsmenn að þeir ættu ekki að stressa sig, því stress kæmi ekki til neinna nota.

Heiðar hafði gaman af því að gera grín að sjálfum sér. Eitt sinn sagði hann okkur frá því mjög alvarlegur að hann hefði fermst tvisvar, fólk leit hvað á annað og vildi fá að vita ástæðuna fyrir því.

Þá sagði hann okkur grafalvarlegur að mamma hans hefði borið hann undir belti þegar hún fermdist. Komst hann svo sjálfur í fullorðinna manna tölu 14 árum síðar, var það þá í annað skipti. Þetta sagði Heiðar og kímdi svo.

Heiðar, þú sigldir þína hinstu sjóferð með okkur áður en þú kvaddir. Við þökkum þér fyrir samfylgdina og óskum þér góðrar ferðar í sjóferðinni sem þú siglir núna.

Þar sem þú stendur kátur í eldhúsinu og spyrð frétta af öllum sem á vegi þínum verða.

Kæra Helga, börn og barnabörn, starfsmenn Þörungaverksmiðjunnar, senda ykkur innilegar samúðarkveður og samhug.

F.h. Þörungaverksmiðjunnar,

Björn

Samúelsson.