Húsnæði Verulegur hluti starfsmanna sem eru á vegum starfsmannaleiga býr við algerlega óviðunandi aðstæður, að sögn Halldórs Grönvold.
Húsnæði Verulegur hluti starfsmanna sem eru á vegum starfsmannaleiga býr við algerlega óviðunandi aðstæður, að sögn Halldórs Grönvold.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Ómar Friðriksson omfr@mbl.is Algeng leiga fyrir herbergi með tveimur rúmum og stundum fataskáp, með aðgangi að sameiginlegu baðherbergi og eldhúsi, sem er um átta fermetrar eða þar um bil, er á bilinu 55 til 65 þúsund krónur á mánuði.

Sviðsljós

Ómar Friðriksson

omfr@mbl.is

Algeng leiga fyrir herbergi með tveimur rúmum og stundum fataskáp, með aðgangi að sameiginlegu baðherbergi og eldhúsi, sem er um átta fermetrar eða þar um bil, er á bilinu 55 til 65 þúsund krónur á mánuði. Dæmi heyrði ég í dag um þrjá sem eru saman um átta fermetra herbergi og borga [hver fyrir sig] 70 þúsund kall.“

Þetta er eitt af fjölmörgum dæmum sem Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, tók um aðbúnað og húsnæðisaðstæður erlendra starfsmanna hér á landi, á ráðstefnu ReykjavíkurAkademíunnar og Reykjavíkurborgar í gær um óleyfisbúsetu í atvinnuhúsnæði.

Verulegur hluti starfsmanna sem hér eru á vegum starfsmannaleiga býr við algerlega óviðunandi aðstæður, sumir í blokkaríbúðum þar sem tveir eða þrír deila oft sama herberginu og hafa svo aðgang að sameiginlegu eldhúsi og hreinlætisaðstöðu með öðrum eða er gert að búa í atvinnuhúsnæði.

Halldór sýndi dæmi um svefnaðstöðu erlendra starfsmanna í Reykjanesbæ sem þeir þyrftu að greiða stórfé fyrir, m.a. á efri hæð í fiskverkunarhúsi og annað dæmi um starfsmenn sem búa yfir gamalli netageymslu. Halldór tók fram að ekki væri allt þetta húsnæði ólöglegt en það kosti sitt að búa þar.

179 skráðir í einbýlishúsi

Fram kom að stór hluti þeirra erlendu starfsmanna sem starfa á höfuðborgarsvæðinu er búsettur í blokkum á Ásbrú á gamla varnarsvæðinu ,,og eru síðan fluttir í lokuðum bifreiðum inn í borgina þar sem þeir vinna á byggingarvinnustöðum o.s.frv. og síðan eru þeir fluttir aftur til baka.“

Halldór lýsti málum sem hafa komið til kasta stéttarfélaganna og sýndi ljósmyndir sem starfsmenn þeirra hafa nýverið tekið, m.a. á Reykjanesi, á Suðurlandi og í Reykjavík. Í tveimur byggingum undir atvinnustarfsemi búa í öðru 37 og 29 í hinu en þeir eru allir skráðir félagsmenn í Eflingu. Sýndi hann myndir af aðbúnaði fólksins.

Þá lýsti hann öðru dæmi úr borginni um skráningu erlendra starfsmanna í einu einbýlishúsi í Breiðholti. ,,Þarna voru í ágúst 2017 skráðir 179 félagsmenn í Eflingu. Hvernig er þetta hægt? Hvar skyldi þetta fólk svo búa því það býr ekki þarna? Ég fór inn á ja.is og kannaði hversu margir væru skráðir á þessum stað og þar er einn útlendingur skrásettur. Við vitum um einn sem býr á annarri hæð í verslunarkjarna hér á höfuðborgarsvæðinu í sex fermetra herbergi. Innifalið er brotið rúm, borð, lítill ísskápur, sem er ekki með frysti, kommóða og aðgangur að sameiginlegu baðherbergi með nokkrum fjölda annarra. Hann leigir þetta fyrir 70 þúsund kr á mánuði,“ sagði Halldór.

Dæmi af Suðurlandi sem Halldór lýsti á ráðstefnunni: Starfsmönnum á hóteli, sem býður upp á lúxusgistingu og afþreyingu, er boðið uppá að búa saman tíu til tólf talsins í einum sumarbústað, að sögn Halldórs, sem sýndi myndir úr bústaðnum.

,,Fjórir sofa saman í einu herbergi sem er níu fermetrar að stærð, eitt baðherbergi með sturtu er fyrir allan hópinn, engir skápar eða læstar hirslur eða nokkurt athvarf fyrir þá einstaklinga sem þarna búa ekki bara einn eða tvo daga heldur mánuðum saman,“ sagði hann.