Verðkönnun á brauði og kökum: Verðið hækkaði um 30% á sex mánuðum VERÐ í brauðgerðarhúsum hefur hækkað að meðaltali um 25-30% undanfarna sex mánuði.

Verðkönnun á brauði og kökum: Verðið hækkaði um 30% á sex mánuðum

VERÐ í brauðgerðarhúsum hefur hækkað að meðaltali um 25-30% undanfarna sex mánuði. Ráðstafanir stjórnvalda um síðustu áramót gáfu tilefni til 10,3% verðhækkunar og hafa brauðgerðarhús því hækkað verð að meðaltali um 14-18% til viðbótar. Á sama tíma hefur framfærsluvísitalan hækkað um 13%. Þetta kemur fram í verðkönnun, sem Verðlagsstofnun gerði í flestum brauðgerðarhúsum landsins síðari hluta júnímánaðar. Þá kom einnig í ljós að verðmunur á brauðum er mestur á höfuðborgarsvæðinu. Meðalverð reyndist lægst á Vestfjörðum, en hæst á Vesturlandi.

Innkaupakarfa af sneiddu brauði var 44% dýrari í því brauðgerðar húsi á höfuðborgarsvæðinu sem seldi hana við hæsta verði en þarsem hún var ódýrust. Enn meiri munur var á ósneiddu brauði, eða 56%, á smábrauðum munaði mest 94% og á kökum 34%. Í frétt frá Verðlagsstofnun segir, að hinn mikli verðmunur á brauðum á höfuðborgarsvæðinu veki athygli, þarsem þar séu nær helmingur brauð gerðarhúsa landsins. Sá fjöldi ætti að leiða til verðsamkeppni, en niðurstöður könnunarinnar bendi til að henni sé ekki til að dreifa. Þá valdi ónóg verðmerking á brauðum þvíað erfitt sé um vik fyrir neytendur að gera verðsamanburð og þessvegna m.a. verði verðsamkeppni lítil.

Meðalverð í brauðgerðarhúsum á Vesturlandi, þar sem það er hæst á landinu, er rúmlega 13% hærra en á Vestfjörðum og kemur framað ástæða þess sé m.a. hátt verð á brauðum í Borgarnesi. Ódýrustu brauðin í brauðgerðarhúsum landsins reyndust vera óskorin normal brauð, maltbrauð og seytt rúgbrauð og af hvítum brauðum er fransk brauðið ódýrast, en snittubrauðið dýrast. Fjögur brauðgerðarhús selja skorin og óskorin brauð við sama verði, en hæsta verð á brauðskurði er 18 krónur.

Mikill verðmunur var á einstökum vörutegundum. Á hæsta og lægsta verði munaði mestu á tvíbökum og rúnnstykkjum, eða um 400% og á grófum brauðum og samlokubrauði munaði allt að 245%. Í frétt Verðlagsstofnunar segir, að í framhaldi af verðkönnun þessari muni stofnunin ganga hart eftir því að reglur um verð- og þyngdarmerkingar á brauðum verði virtar.

Niðurstöður könnunarinnar eru birtar á bls. 50