Magnús Bjarnason fæddist 17. júlí 1928. Hann lést 9. janúar 2019.

Útför Magnúsar fór fram 22. janúar 2019.

Í dag kveðjum við afa okkar sem lést eftir langa og gifturíka ævi. Hann skilur eftir sig góðar minningar og hlýju í hjörtum okkar systkinanna sem vorum svo lánsöm að eiga hann að.

Afi Magnús var sterkur og traustur maður og alltaf hægt að leita til hans þegar eitthvað vantaði. Hann lumaði á ýmsu gagnlegu enda afar nýtinn og henti fáu. Hann var líka snillingur í að útvega hluti, vissi hvar allt fékkst og nýtti hann það til að aðstoða okkur barnabörnin þegar við vorum að stíga okkar fyrstu skref út í lífið sem fullorðnir einstaklingar. Hann kom þá í heimsókn með eitt og annað sem vantaði í búið og var þá búinn að vera á rúntinum til að redda hlutunum. En aldrei barst hann á, gerði það sem gera þurfti á sinn rólega og yfirvegaða hátt, hlýr maður sem lét verkin tala.

Afi var barngóður og sinnti yngsta fólkinu í fjölskyldunni af alúð. Hann var duglegur að leika við okkur þegar við vorum lítil og hið sama átti við um börnin okkar. Að leik loknum laumaði hann svo sælgæti í litlar hendur; súkkulaði eða brjóstsykursmola.

Við systur dvöldum mikið hjá afa og ömmu sem börn. Í minningunni var það góður tími, við fundum að við vorum í góðum höndum og vel var hugsað um okkur. Andrúmsloftið á heimilinu þeirra var gott. Í hugann koma myndir af þeim dansa saman í holinu við síðasta lag fyrir fréttir í sjónvarpinu. Afi dansaði líka við okkur systur, þá stigum við á tærnar á honum og hann tók sporin sem hann og amma lærðu í dansskólanum. Okkur þótti líka spennandi þegar hann opnaði fínu mubluna sem hafði að geyma plötuspilara og setti lög með Ómari Ragnarssyni á fóninn.

Honum féll aldrei verk úr hendi og tók alla tíð virkan þátt í heimilisverkunum. Saman komu þau amma fjórum börnum til manns og byggðu upp sælureit fyrir fjölskylduna þegar þau reistu sér sumarbústað við Apavatn. Þar höfum við barnabörnin átt góðar stundir. Lækurinn í sumarbústaðalandinu hafði sérstakt aðdráttarafl og afi bjó til báta úr baunadósum sem hægt var að sigla niður lækinn. Í skúrnum hans var líka margt spennandi að sjá og fengum við að gramsa í honum.

Yfir sumarið safnaði hann svo eldivið sem var uppistaðan í árlegri brennu um verslunarmannahelgina. Þá var nú oft margt um manninn í litla bústaðnum og slegið upp tjaldborg í vel ræktuðu landinu.

Margs annars er að minnast; fjölskyldustundirnar í kartöflugarðinum, berjatínsluferðir á haustin, ökuferðir um sveitir Suðurlands til að finna rétta landið fyrir sumarbústað og svo margt fleira sem ekki verður talið upp hér.

Það er mikið lán í lífinu að eiga góða að í lífsins ólgusjó. Fyrir það þökkum við afa að leiðarlokum og vottum ömmu og fjölskyldu hans samúð okkar.

Katrín Snæhólm Baldursdóttir, Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, Davíð Snæhólm Baldursson.