Gestur Ólafsson
Gestur Ólafsson
Eftir Gest Ólafsson: "Það hlýtur að vekja furðu að þessi mikilvæga starfsemi, í þágu allra landsmanna, fái ekki hærri einkunn hjá Hjörleifi Guttormssyni, fv. ráðherra."

Hinn 22. janúar sl. birtist í Morgunblaðinu ágæt grein eftir Hjörleif Guttormsson, fv. ráðherra, sem bar heitið „Stórefla þarf skipulagsvinnu í þágu umhverfis- og náttúruverndar“. Þar rekur Hjörleifur þróun náttúruverndar á Íslandi og hvernig hún hefur tengst skipulagi allt frá árinu 1970 til dagsins í dag, en það ár beitti Nixon Bandaríkjaforseti sér fyrir tímamótalöggjöf um þessi mál, „National Environmental Policy Act,“ sem varð í kjölfarið mörgum ríkjum fyrirmynd í þessum efnum. Í greininni bendir Hjörleifur m.a. á að vinna að skipulagsmálum hér á landi hafi verið í „allt öðrum og lakari farvegi hérlendis á síðasta fjórðungi 20. aldar en gerðist annars staðar á Norðurlöndum“. Þess vegna er ekki úr vegi að velta því fyrir sér hver geti verið ástæðan fyrir þessari niðurstöðu Hjörleifs, enda er hér um mjög mikið hagsmunamál allra Íslendinga að ræða.

Því skal ekki á móti mælt að það er bæði virðingarvert og sjálfsagt að vernda náttúruna, en þar með er ekki nema hálf sagan sögð. Miklu flóknara og erfiðara er að leggja jafnframt drög að góðu heildarskipulagi og farsælu mannlífi þess fólks sem byggir Ísland. Það verður auðvitað ekki gert með eintómri verndun og friðun heldur þurfum við að reyna jafnframt að komast að farsælu samkomulagi við náttúruna til langs tíma með allt skiplag og það sem við gerum í kjölfar þess. Þetta er ekki auðvelt verk og gerir miklar kröfur til allra sem að því koma. Auðvitað eigum við líka alltaf að reyna að taka af allan vafa um afleiðingar af skipulagsákvörðunum hvort heldur er t.d. um að ræða virkjanir, rafstreng til Skotlands, uppbyggingu léttlestar á höfuðborgarsvæðinu eða þéttingu byggðar – og breyta samkvæmt því. Núverandi ástand í húsnæðismálum ætti heldur ekki að hafa komið mörgum skipulagsfræðingum á óvart, enda fyrir löngu fyrirsjáanlegt með þeim afleiðingum sem það hefur haft í för með sér.

Þegar Alþingi ákvað að flytja, a.m.k. að nafninu til, allt skipulagsvald til sveitarfélaganna árið 1997 voru þau mörg hver alls ekki undir það búin að geta tekið skammlaust við þessu verkefni – og eru jafnvel ekki enn, svo vel sé. Vandkvæði þessa fyrirkomulags koma hvað skýrast í ljós þegar einstök sveitarfélög reyna hvert fyrir sig að taka afdrifaríkar ákvarðanir um uppbyggingu flókinna þjónustukerfa sem eru bæði dýr í framkvæmd og rekstri. Sem dæmi má nefna alla umræðuna og ákvarðanir um vegagerð um Teigsskóg sem snertir óhjákvæmilega líka alla Vestfirðinga og alla þá sem nota vegakerfið á þessu svæði. Svipuðu máli gegnir um þá ákvörðun forsvarsmanna Reykjavíkurborgar að hafna tillögu Vegagerðarinnar um hagkvæmustu legu Sundabrautar og valda með því margra milljarða kostnaðarauka við þá framkvæmd auk ónauðsynlegs kostnaðarauka hjá almenningi við notkun þessa gatnakerfis.

Við Íslendingar erum tiltölulega fámenn þjóð og því þurfum við ekki bara að vanda okkur við verndun og friðun landsins okkar heldur líka og ekki síður við mikilvægar ákvarðanir í öllum skipulagsmálum hvort heldur t.d. er um að ræða framtíðarstaðarval Landspítala eða „Tillögur að aðgerðum til að bæta stöðu á húsnæðismarkaði,“ sem nú eru til umræðu. Þar geta margar þeirra 40 hugmynda sem þar eru reifaðar stangast á annarra horn.

Viðvíkjandi löggjöf og vinnu að skipulagsmálum segir Hjörleifur: „vantar enn mikið á að störf að skipulagsmálum og þær stóru ákvarðanir sem þeim tengjast hafi náð þeirri athygli almennings sem æskilegt væri.“ Því er ekki úr vegi að spyrja – hvernig getur þetta verið, svona í byrjun 21. aldarinnar? Hverjir vinna þetta skipulag; hvernig er starfsmenntun þeirra háttað og hverjir teljast þess umkomnir að taka faglega ábyrgð á þessu skipulagi og tillögugerð gagnvart almenningi? Pólitísk ábyrgð er annars eðlis. Það ættu að vera hæg heimatökin hjá umhverfisráðherra að hafa þessi mál í góðu lagi, því hann er bæði ráðherra umhverfis- og skipulagsmála. Landsskipulag sem ráðherra þessara mála á samkvæmt lögum að leggja fram fyrir Alþingi til samþykktar innan tveggja ára frá alþingiskosningum og sem sveitarfélögum landsins ber að fara eftir, þarf líka að standa undir nafni og þarf að vera meira en einhverjar óljósar vangaveltur um landsins gagn og nauðsynjar.

Við Íslendingar innheimtum núna sérstakt skipulagsgjald af öllum nýbyggingum, sem nemur um 400 millj. kr á ári til viðbótar við það sem rekstur Skipulagsstofnunar og annarra skyldra stofnana kostar og við hljótum að ætla að þessir fjármunir séu notaðir til þess að standa undir faglegu, alvöru skipulagi. Talsvert má líka skipuleggja fyrir þessa upphæð. Því hlýtur það að vekja nokkra furðu að þessi mikilvæga starfsemi, í þágu allra landsmanna, fái ekki hærri einkunn hjá Hjörleifi Guttormssyni sem þekkir þessi mál hvað best hér á landi til margra áratuga.

Höfundur er arkitekt og skipulagsfræðingur.