Tryggvi V. Líndal
Tryggvi V. Líndal
Eftir Tryggva V. Líndal: "Ríkið gæti umbunað vinnustöðum fyrir að hafa svo sem tíunda hvern starfsmann nýbúa frá aðskiljanlegu upprunalandi."

Nú þegar nýbúarnir á Íslandi eru orðnir svona margir (á bilinu tíu til tuttugu og fimm prósent þjóðarinnar, eftir því hvernig er reiknað) virðist siðferðislega aðkallandi að hjálpa þeim kerfisbundið við að aðlagast íslensku samfélagi auðveldlegar; öllum til hagsbóta.

Fyrir höfum við skyldunámskerfið fyrir börnin og íslenskukennslu fyrir fullorðna, en við ættum að reyna að gera betur við þá almennt.

Þar eð stærsti þröskuldurinn í samlögun þeirra er að einangrast í eigin tungumálahópum liggur beinast við að hvetja þá til að komast út í íslenska tungumálahópinn, hvort sem er í félagsmálum eða á vinnustöðum.

Ein leið gæti verið að koma á nýbúakvóta líkt og er með kynjakvóta: Ríkið gæti umbunað vinnustöðum fyrir að hafa svo sem tíunda hvern starfsmann nýbúa frá aðskiljanlegu upprunalandi.

Þá mætti og hugsa sér að nýbúar fengju afsláttarmiða í leikhús, íþróttanámskeið fullorðinna og við nám í framhaldsskólum og háskólum.

Einnig að félagsmálasamtök svo sem íslenskir kórar, leikhús, leshringir, starfsmannafélög vinnustaða og stjórnmálaflokkar yrðu hvött til hins sama.

Ég get nefnt sem dæmi af mínum vinnustað, stóreflis dvalar- og hjúkrunarheimili, að þar hópast einn nýbúahópur mikið í ræstingarnar og annar í eldhúsið. Hvetja mætti þá til að taka þátt í almenna kórnum, kirkjukórnum og í morgunstundinni, sem og í starfsmannafélaginu, og til að starfa fleiri við umönnunina.

Þá má nefna að ég hef leitt Vináttufélag Íslands og Kanada í bráðum aldarfjórðung án þess að við höfum látið okkur nýbúana hér sérstaklega varða. Nú gæti verið tímabært að við byðum fulltrúum frá þeim fjölmennustu að taka þátt í leshring okkar og fyrirlestrahaldi með kynningu þeirra á sínum upprunaþjóðabókmenntum sem eru til í íslenskum þýðingum. Má þar nefna nýbúa frá Kanada, Bandaríkjunum, Póllandi, Bretlandi, Þýskalandi og hinum Norðurlandaríkjunum. Og svo einnig að hvetja til að ríkið láti einnig þýða einhverjar þjóðarbókmenntir frá nýbúaþjóðum sem vantar slíkt hér enn, svo sem frá Taílandi, Filippseyjum og Víetnam.

Í þessum málum mætti marga þröskuldi nefna, en viljinn er til alls fyrstur!

Vil ég nú ekki segja meira að sinni, en ljúka máli mínu þó að venju með málefnalegu ljóði úr eigin ranni. Í ljóði mínu sem heitir Þjóðræknisfélagið yrki ég m.a. svo:

Við hleypum ferðamönnum

inn í landið okkar

svo það er farið að verða

eins og þjóðgarðar vestra!

Allt fyrir hina blessuðu peninga, og

til að þóknast fólksflutningatísku

Evrópusambandsins!

Og jafnvel ömumst við ekki við því

þótt dökklit og skáeyg börn

tali hér íslensku

ef þau hafa bara alist hér

almennilega upp!

Höfundur er skáld og menningarmannfræðingur.