Hvert ertu að fara?“ spurði veðraður Dani mig í afgreiðslu bílaleigu í Herning á Jótlandi í gærmorgun. „Ég ætla á járnbrautarstöðina,“ svaraði ég. „Hvernig?“ var spurt snarlega um hæl.
Hvert ertu að fara?“ spurði veðraður Dani mig í afgreiðslu bílaleigu í Herning á Jótlandi í gærmorgun. „Ég ætla á járnbrautarstöðina,“ svaraði ég. „Hvernig?“ var spurt snarlega um hæl. „Á tveimur jafnfljótum,“ svaraði ég enda ekki nema hálfur annar kílómetri að stöðinni og ég með vaðið fyrir neðan mig. „Palli skutlar þér. Við urðum heimsmeistarar í gær, þess vegna skutlum við þér á stöðina,“ sagði afgreiðslumaðurinn með rámri rödd sinni sem hafði greinilega komist í löng kynni við þá banvænu dönsku framleiðsluvöru Prince. Og svo hló hann eins og heimsmeistari.

Palli, Íslendingurinn er kominn! Þú skutlar honum á stöðina,“ sagði afgreiðslumaðurinn með Prince-röddina og ljóst að Íslendingar eru ekki daglegir gestir bílaleigunnar. Palli, maður um fertugt, kom um hæl, heilsaði ekki en spurði umsviflaust hvenær ég hefði farið að sofa kvöldið áður. „Um miðnættið,“ svaraði ég. „Mikkel Hansen fór að sofa klukkan fimm í morgun,“ sagði Palli um leið og hann bauð mér inn í bíl sinn. „Já, hann er líka heimsmeistari,“ svaraði ég Palla. „Það erum við öll. Fleiri Danir en Mikkel sem fóru seint að sofa í nótt,“ sagði Palli og bætti við að hann hefði heyrt allt um gulldrengina og svefntíma þeirra í morgunútvarpinu.

Enda var hátíð í Danmörku í fyrrakvöld og í gær. Þúsundum saman komu Danir saman til að hylla hetjurnar í miðbæ Herning á sunnudagskvöld, þar sem úrslitaleikurinn við Norðmenn fór fram. Dagskrá sjónvarpsstöðvanna riðlaðist vegna þess að hetjunum var fylgt hvert fótmál. Ekkert komst annað að í dagblöðum gærdagsins, síðu eftir síðu var ekki um annað fjallað en gulldrengina og heimsmeistarana. Eitt þeirra var með heilsíðumynd af markverðinum undir stríðsfyrirsögn; gullmúrinn.

Þú hefðir átt að fara með flugi klukkan 11, ekki lest, og vera samferða strákunum,“ sagði Palli. „Mér liggur ekkert á,“ svaraði ég. „Það verður hátíð á Ráðhústorginu í Kaupmannahöfn í dag, ætlar þú ekki að þangað?“ spurði Palli þegar ég yfirgaf hann og bílinn. „Nei, ég ætla heim til Íslands, takk fyrir skutlið, heimsmeistari,“ svaraði ég.