Uppistandarinn „Kómíkin byggist mikið á því að ég staðset mig sem Íslendingur,“ segir Gérard Lemarquis, sem hér er ásamt Ástu Ingibjartsdóttur.
Uppistandarinn „Kómíkin byggist mikið á því að ég staðset mig sem Íslendingur,“ segir Gérard Lemarquis, sem hér er ásamt Ástu Ingibjartsdóttur. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.is Ég var alltaf með hálfgert uppistand í tíma sem kennari, og það jókst bara með árunum,“ segir Gérard Lemarquis. Frönskukennarinn fyrrverandi og vinsæli – hann kenndi í Menntaskólanum við Hamrahlíð í áratugi auk þess að vera stundakennari við Háskóla Íslands – er kominn á eftirlaun og á nýtt svið; á föstudagskvöldið var frumsýndi hann uppistandssýninguna Nei, halló! í Veröld – húsi Vigdísar og var uppselt.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Ég var alltaf með hálfgert uppistand í tíma sem kennari, og það jókst bara með árunum,“ segir Gérard Lemarquis. Frönskukennarinn fyrrverandi og vinsæli – hann kenndi í Menntaskólanum við Hamrahlíð í áratugi auk þess að vera stundakennari við Háskóla Íslands – er kominn á eftirlaun og á nýtt svið; á föstudagskvöldið var frumsýndi hann uppistandssýninguna Nei, halló! í Veröld – húsi Vigdísar og var uppselt.

Næstu sýningar verða í kvöld, þriðjudag, klukkan 20 og á sama tíma annað kvöld. Í sýningunni leikur Gérard sjálfan sig og fjölda fleiri persóna í ólíkum aðstæðum og nýtur dyggrar aðstoðar Ástu Ingibjartsdóttur, sem er í hlutverki hvíslara. Í tilkynningu er tekið fram að sýningin sé á íslensku.

Blaðamaður fékk að kynnast bráðfyndnum gamanmálum og lýsingum Gérards í tímum í frönskum bókmenntum við HÍ á sínum tíma. Og þegar hann er spurður að því hvort það hafi verið rökrétt skref að færa uppistandið úr kennslustofunni upp á svið segist hann hafa saknað hláturs nemenda.

„Gamanmál hafa lengi verið áhugamál mitt,“ segir hann. „Ég er til að mynda fróður um franska leikritahöfunda frá 17. til 19. öld – ég byrjaði á sínum tíma að skrifa doktorsritgerð um farsa Georges Feydeau en kláraði hana aldrei.

En ég geng mikið og fór að safna efni sem ég hafði samið á göngu, enda bíllaus maður; ég skrifaði það niður og svo endanlega útgáfu með konunni minni í Grikklandi í haust.

Ég óttaðist að muna ekki textann svo til öryggis bjó ég til hlutverk hvíslara. Þegar það kom í ljós að ég man textann alveg þá þróaði ég þá persónu þannig að hvíslarinn klúðrar öllu og hjálpar mér aldrei. Þvert á móti er hún sífellt að gagnrýna mig og er aldrei tilbúin...“

Er sýningin þá sett upp sem þaulæfður leikþáttur?

„Þetta eru sketsar, eins og í uppistandi, en líka eins og leikrit með tveimur persónum,“ svarar Gérard.

„Þetta eru margs konar sketsar.“ Og hann telur upp: „Það er til dæmis staðfært grín úr Ímyndunarveiki Molière þar sem vondi apótekarinn kemur ekki við sögu heldur ýmsir þeir sem selja okkur pillur svo við höldum góðri heilsu, einn skets er um menntamál, annar um það hvað ég er nískur. Það er skets um nútímatækni og í einum lofsyng ég túrista og segist vera að hjálpa þeim – þú verður bara að sjá þetta!“ segir hann svo.

„Kómíkin byggist mikið á því að ég staðset mig sem Íslendingur. Ég aðstoða túrista og kynni þeim íslenska gestrisni eins og hún gerist best. Og þessi Íslendingur talar með hryllilegum hreim.“ Hann hlær hér að sjálfum sér og sínum franska hreim en segist líka gera grín að Íslendingum fyrir það hvað þeir tala ensku með hræðilegum íslenskum hreim – „en ég geri það með frönskum hreim! Og ég gríp til allra helstu aðferða kómíkurinnar, það eru skopstælingar, ádeila og absúrdismi...“

Það er auðheyrt að Gérard finnur sig vel í þessu nýja hlutverki.

„Já, en ég er samt frekar þunglynd týpa... ég er ekkert hrókur alls fagnaðar,“ segir hann kíminn og bætir við: „En exibisjónisminn er mikill í mér. Mig langar að fara á svið...“

Og heldur hann þá ekki áfram með uppistand?

„Hver veit. Hver veit...“ svarar hann og gefur ekki meira upp.