Glaður Chadwick Boseman, sá sem leikur Svarta pardusinn, þakkar fyrir sig og sína á SAG-verðlaunum.
Glaður Chadwick Boseman, sá sem leikur Svarta pardusinn, þakkar fyrir sig og sína á SAG-verðlaunum. — AFP
Ofurhetjumyndin Black Panther , Svarti pardusinn, hlaut aðalverðlaun SAG, samtaka leikara í kvikmyndum og sjónvarpi í Bandaríkjunum, um nýliðna helgi.

Ofurhetjumyndin Black Panther , Svarti pardusinn, hlaut aðalverðlaun SAG, samtaka leikara í kvikmyndum og sjónvarpi í Bandaríkjunum, um nýliðna helgi. Hlaut myndin verðlaun fyrir besta hóp leikara í kvikmynd, sem þykir jafnast á við verðlaun fyrir bestu kvikmynd á öðrum verðlaunahátíðum. Myndin hlaut einnig verðlaun fyrir bestan hóp áhættuleikara.

Enska leikkonan Emily Blunt hlaut verðlaun fyrir leik sinn í A Quiet Place , sem besta leikkona í aukahlutverki, þótt hún sé í einu af aðalhlutverkum kvikmyndarinnar, en líklega var hún sett í þann flokk þar sem hún var tilnefnd fyrir bestan leik í aðalhlutverki fyrir Mary Poppins Returns . Hún hlaut þau verðlaun hins vegar ekki, heldur Glenn Close fyrir The Wife .

Á vef breska ríkisútvarpsins, BBC, segir að verðlaunin hafi breytt stöðunni hvað Óskarsverðlaunin varðar því nú eigi Black Panther virkilega möguleika á að hljóta verðlaun sem besta kvikmyndin.

Af öðrum verðlaun SAG eru þau helst að Rami Malek var valinn besti leikari í aðalhlutverki fyrir leik sinn í Bohemian Rhapsody og Mahershala Ali hlaut verðlaun sem besti leikari í aukahlutverki fyrir Green Book , þótt hann sé í öðru tveggja aðalhlutverka þeirrar myndar.

Besti leikarahópur dramatískrar þáttaraðar var sá sem leikur í This Is Us og í gamanþáttaflokki leikararnir í The Marvellous Mrs Maisel . Besti leikari í dramaþáttum varð Jason Bateman fyrir Ozark og besta leikkona Sandra Oh fyrir Killing Eve . Þá hlaut Patricia Arquette verðlaun fyrir Escape at Dannemora í flokki stuttra þáttaraða og Darren Criss fyrir The Assassination of Gianni Versace.