Bogi Þór Arason bogi@mbl.

Bogi Þór Arason

bogi@mbl.is

Frans páfi kvaðst í gær óttast blóðsúthellingar í Venesúela vegna valdabaráttunnar milli Nicolás Maduros, leiðtoga sósíalistastjórnarinnar, og Juans Guaidós, leiðtoga stjórnarandstöðunnar, sem hefur lýst því yfir að hann hafi tekið við embætti forseta landsins. Páfi hefur ekki tekið afstöðu til deilunnar þótt kaþólska kirkjan í Venesúela hafi verið mjög gagnrýnin á ríkisstjórn sósíalista vegna efnahagshruns sem hefur leitt til óðaverðbólgu og mikils skorts á lífsnauðsynjum.

Guaidó hefur hvatt til allsherjarverkfalls í Venesúela á morgun til að „krefjast þess að herinn taki afstöðu með þjóðinni“ í deilunni. Hann hvatti einnig til fjöldafunda á laugardaginn kemur til að láta í ljós stuðning við „úrslitakosti“ sex Evrópuríkja sem kröfðust þess á laugardag að boðað yrði til forsetakosninga í Venesúela innan átta daga, ella myndu þau styðja embættistöku Guaidós.

Vaxandi óánægja í hernum

Herinn hefur stutt stjórn sósíalista frá því að þeir komust til valda undir forystu Hugos Chavez fyrir rúmum 20 árum. Þó hafa komið fram vísbendingar um vaxandi óánægju meðal hermanna með sósíalistastjórnina vegna efnahagshrunsins.

Sósíalistastjórnin hefur einnig notið stuðnings hæstaréttar og yfirkjörstjórnar landsins sem hafa hafnað kröfu stjórnarandstöðunnar um að efnt verði til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort Maduro eigi að láta af embætti forseta. Stjórnarskrá landsins heimilar slíka þjóðaratkvæðagreiðslu.

Maduro tók við forsetaembættinu árið 2013, eftir að Chavez lést, og hélt embættinu eftir sýndarkosningar í maí á síðasta ári þegar stjórnarandstaðan sniðgekk þær til að mótmæla pólitískri kúgun. Sósíalistaflokkurinn missti meirihluta sinn á þinginu í janúar 2016 en hæstiréttur landsins hefur gert löggjafarvald þingsins óvirkt með því að ógilda lög þess og Maduro hefur stjórnað landinu með forsetatilskipunum.

Juan Guaidó er 35 ára og hefur verið forseti þingsins frá 5. janúar. Hann tilkynnti í vikunni sem leið að hann hefði nýtt ákvæði í stjórnarskránni sem heimilar forseta þingsins að taka við embætti forseta Venesúela ef það er laust og hann skírskotaði til þess að Maduro var ekki endurkjörinn með lýðræðislegum hætti. Guaidó hét því að mynda ríkisstjórn til bráðabirgða og efna til frjálsra og lýðræðislegra kosninga.

Mörg lönd, þeirra á meðal Bandaríkin, hafa lýst yfir stuðningi við Guaidó í deilunni en Kína, Rússland og fleiri ríki styðja Maduro.