Guðmundur Arnfinnsson yrkir á Boðnarmiði: Á Klaustri einn kátur legáti og klámfenginn saup á mungáti, hann fékk sér einn, tvo og fjölmarga svo loks fullur hann sprakk í Blakkáti.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir á Boðnarmiði:

Á Klaustri einn kátur legáti

og klámfenginn saup á mungáti,

hann fékk sér einn, tvo

og fjölmarga svo

loks fullur hann sprakk í Blakkáti.

Skemmtileg orðaskipti voru á Boðnarmiði nú um helgina vegna öldrykkju á Klausturbar og hófust með því að Indriði á Skjaldfönn rifjaði upp vísu sem Jóhann bróðir hans kenndi honum en Jóhann var í Bændaskólanum á Hvanneyri 1965-1967. Nokkrir Skagfirðingar voru þar við nám og slösuðu tveir þeirra sig þar við smíðar. Um það orti Bragi Húnfjörð Kárason eftirfarandi vísu:

Hefluðu á sér beinin ber,

báðir af því státa.

Skagfirðingar skemmta sér

á skelfilegan máta.

Indriði spurði síðan hvort ekki gæti verið að Gunnar Bragi væri eitthvað skyldur þessum Hvanneyringum.

Ofstuðlun kom einnig til umræðu. Dagbjartur Dagbjartsson rifjaði upp stöku sem Einar á Reykjarhóli orti:

Féll um hnjóta hjörð úr hor

hún ei fóta gáði.

Þetta ljóta lambskinnsvor

loksins þrjóta náði.

Dagbjartur lét þess síðan getið að lambskinn voru þá í einhverju verði – hann vissi ekki hverju en munaði um allt í harðindum. Þá var ort (Jónas í Hróarsdal?):

Ég er frá og ekkert veit

óðarskrá að hnuðla

þó þeir fái framm í sveit

fjögur H í stuðla.

Sigurlín Hermannsdóttir segir frá því á fésbók að móðir sín hafi farið með þessa hugljúfu vísu fyrir sig í den. Sér finnist hún passa ágætlega í byrjun þorra og spyr hvort nokkur viti um höfundinn:

Sittu, stattu, sértu og vertu í sýrukeri

undir þér og yfir veri

úldin húð af grárri meri.

Víst vildu margir geta tekið undir með Pétri Stefánssyni þegar hann segir:

Ég er léttur, lundin góð,

ljóð og glettur rita.

Í mig skvetti, elsku fljóð,

allir þetta vita,

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is