Hvalaskoðun Hnúfubakarnir í grennd við Lundey á Kollafirði hafa glatt ferðamenn í hvalaskoðun undanfarið.
Hvalaskoðun Hnúfubakarnir í grennd við Lundey á Kollafirði hafa glatt ferðamenn í hvalaskoðun undanfarið. — Ljósmynd/Guðlaugur Ottesen
Ágúst Ingi Jónsson aij@mbl.is Þrátt fyrir kalsaveður undanfarið hefur verið líflegt í hvalaskoðun frá Reykjavík og Akureyri að undanförnu, að sögn Rannveigar Grétarsdóttur, stjórnarformanns Eldingar.

Ágúst Ingi Jónsson

aij@mbl.is

Þrátt fyrir kalsaveður undanfarið hefur verið líflegt í hvalaskoðun frá Reykjavík og Akureyri að undanförnu, að sögn Rannveigar Grétarsdóttur, stjórnarformanns Eldingar. Hún segir að janúar virðist ætla að verða jafn góður og eins og best gerðist í janúar 2015 og 2016, sem voru toppmánuðir. Kuldinn sé lítið vandamál því farþegum sé boðið að klæðast vinnuflotgöllum, sem hlífi vel gegn vetrarríkinu.

„Við höfum verið heppin með veður síðustu vikur og alveg sérstaklega heppin með það að í tæpa tvo mánuði hafa þrír hnúfubakar verið í Kollafirði, gjarnan í grennd við Lundey,“ segir Rannveig. „Það hefur nokkurn veginn verið á vísan að róa í ferðunum að undanförnu.

Hnúfubakana má þekkja í sundur á sporðinum og stundum höfum við séð þá alla, en stundum bara einn í ferð. Við höfum örsjaldan þurft að leita fyrir okkur utar á flóanum og síðasti laugardagur er ein af fáum undantekningum. Þá sáum við bara nokkrar hnísur, sem teljast varla með, og farþegar fengu endurkomumiða til að koma aftur síðar.“

Fólk af flestu þjóðerni

Eðli málsins samkvæmt er hvalaskoðun mjög háð veðri. Rannveig segir að nú í janúar hafi varla þurft að fella niður hvalaskoðunarferð vegna veðurs, en t.d. í febrúar í fyrra hafi hátt í helmingi ferða verið aflýst vegna veðurs. Norðurljósaferðir hafi hins vegar verið erfiðar í ár, ekki hafi verið mikið um norðurljós og oft skýjað.

Hún segir að fólk af flestu þjóðerni sæki í hvalaskoðun, en Bretar, Bandaríkjamenn og Þjóðverjar hafi verið áberandi. Út janúar verði aðeins ein ferð á dag á vegum Eldingar, en með lengri sólargangi fjölgi ferðum og strax í febrúar verði boðið upp á tvær ferðir á dag. Rannveig segir að í fyrra hafi orðið rúmlega 10% samdráttur í hvalaskoðun frá Reykjavík. Leiðinlegt veður hafi þar átt stóran þátt, en einnig sterkt gengi sem hafi gert það að verkum að fólk hafi sparað við sig.