[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Hafinn er undirbúningur að lagningu fjarskiptasæstrengs til Írlands, Iris, en hann yrði þá þriðji sæstrengurinn frá Íslandi til Evrópu. Rannsóknarskip á vegum Farice á að ljúka kortlagningu sjávarbotns síðla sumars. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um framhaldið, hvort ríkið muni fela Farice að leggja strenginn eða einkaaðilar komi að verkefninu.

Hafinn er undirbúningur að lagningu fjarskiptasæstrengs til Írlands, Iris, en hann yrði þá þriðji sæstrengurinn frá Íslandi til Evrópu. Rannsóknarskip á vegum Farice á að ljúka kortlagningu sjávarbotns síðla sumars. Engin ákvörðun hefur þó verið tekin um framhaldið, hvort ríkið muni fela Farice að leggja strenginn eða einkaaðilar komi að verkefninu.

Við endurnýjun þjónustusamnings sem fjarskiptasjóður gerði við Farice, fyrirtækið sem rekur strengina sem tengja Ísland við Evrópu, Farice-1 og Danice, tók Farice að sér að hefja undirbúning að lagningu nýs sæstrengs. Vinna við undirbúning er þegar hafin. Gert er ráð fyrir að rannsóknarskip ljúki kortlagningu sjávarbotns síðla sumars og að niðurstöður rannsókna ársins liggi fyrir í kjölfarið. Samkvæmt samningnum er gert ráð fyrir að kostnaður við rannsóknina verði 1,9 milljónir evra sem svarar til 260 milljóna á gengi krónunnar núna.

Heildarkostnaður við lagningu strengsins verður þó margfalt meiri, eða 4-5 milljarðar króna.

Grindavík-Killala

Örn Orrason, yfirmaður sölu- og viðskiptaþróunar Farice, segir að fyrsta skref undirbúnings sé að velja landtökustaði, bæði hér og í Evrópu. Miðað er við að strengurinn komi á land á ströndinni á milli Reykjanesvita og Grindavíkur, væntanlega í Suðurvík eða Mölvík. Hann segir að staðurinn hafi verið valinn fyrir nokkrum árum í samráði við útvegsmenn og einnig sé nauðsynlegt að taka tillit til jarðfræðilegra aðstæðna í sjó og á landi. Sjómenn telji að þessi staðsetning hafi minnst áhrif á fiskveiðar. Þá virðist botninn þar ekki eins grýttur og þegar komið er austar, nær Þorlákshöfn. Ef farið er austar þarf að fara yfir Danice sem kemur í land í Landeyjum og ekki er áhugi á að vera út af eldgosasvæðum, eins og til dæmis Kötlu. Hornafjörður er of langt frá helstu gagnaverum sem eru á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi.

Stutt er að tengja strenginn beint við gagnaverin í Reykjanesbæ með ljósleiðara. Tenging við höfuðborgarsvæðið gæti farið um Reykjanesbæ eða Grindavík.

Suður- eða vesturströnd Írlands er talin ákjósanlegur viðtökustaður í Evrópu, til þess að ekki þurfi að fara um Írska hafið þar sem mun meiri hætta er á að sjómenn slíti strengi. Aðrir staðir á Bretlandseyjum koma til greina. Örn segir að nú sé unnið með bæinn Killala á Írlandi sem mögulegan lendingarstað. Þaðan fer nýjasti Atlantshafsstrengurinn til Ameríku, Aec-1. Gert er ráð fyrir að strengurinn haldi áfram til Dyflinnar og þjónustuafhending færi fram þar.

Fjölmargir möguleikar eru til að áframtengja til Lundúna þar sem Farice er að koma sér fyrir á nýjum stað, Slough vestur af Lundúnum. Þetta grundvallast þó á því að Farice taki að sér að leggja strenginn.

„Leggjum þetta til málanna“

„Við erum að kynda undir að eitthvað gerist. Leggja þetta til málanna ef einhver vill taka við boltanum,“ segir Páll Jóhann Pálsson, formaður stjórnar fjarskiptasjóðs. Hann segir að ekki hafi verið ákveðið að Farice verði falið að leggja strenginn.

Fulltrúar notenda hafa talið æskilegt að fá einkafyrirtæki að lagningu sæstrengja til að tryggja samkeppni. Margir hafa kannað möguleikana en ekkert orðið úr.

Þörf er talin á lagningu nýs sæstrengs, bæði af öryggisástæðum og til að auka flutningsgetu strengjanna, en að gæti þrengt eftir nokkur ár. Fyrirtæki sem eru að huga að viðskiptum við Ísland telja nauðsynlegt að hafa þrjá strengi. Farice-1 var lagður á árinu 2003 og Danice sex árum síðar. Talið er einstakt að þeir hafi enn ekkert bilað en hættan á bilunum eykst vitaskuld eftir því sem strengirnir eldast.

Flutningsgeta sæstrengja hefur aukist mikið. Farice-1 getur flutt átta terabit á sekúndu, Danice 36 terabit en nýi strengurinn mun geta borið 60-160 terabit en flutningsgetan fer meðal annars eftir því hvað mörg sæstrengjapör verða lögð í hann. Örn segir að fjögur sæstrengjapör með miðlungsgetu myndu duga Íslandi. Hann getur þess að ekki séu mörg fyrirtæki í heiminum sem þyrftu bandvídd umfram það og ef þau myndu setja upp starfsemi á Íslandi gætu þau alveg eins viljað leggja eigin sæstreng, eins og raunin er með Hafmeyjuna (Aec-2) á milli Danmerkur og Ameríku sem Facebook og Google standa að með öðrum.

Notendur líta einnig til verðskrár sæstrengja. Örn segir að verðskráin þurfi að vera samkeppnishæf í alþjóðlegum samanburði. Stofnkostnaður ráði mestu um verðið. Einnig þurfi að gæta að því að vera með lágan breytilegan kostnað við tengingar hér og erlendis. Það mætti meðal annars gera með því að tengjast í Dyflinni og Lundúnum, þar sem meiri samkeppni er en á mögulegum landtökustöðum.

Verði í höndum einkaaðila

Litið er á það neikvæðum augum af mögulegum viðskiptavinum gagnavera að einungis eitt fyrirtæki, Farice, bjóði nettengingar við umheiminn. Auk þess er bandvídd dýrari hér en í samkeppnislöndum. Þetta kom fram í úttekt KPMG sem sagt var frá hér í blaðinu í mars á síðasta ári. Fram kom að samkeppnisforskotið sem Ísland hafði, að bjóða upp á rafmagn á hagstæðara verði, væri að hverfa. Höfundar skýrslunnar töldu ákjósanlegast að tveir fjarskiptastrengir væru í einkaeigu og sá þriðji væri í eigu ríkisins og tryggði áreiðanlega og hagkvæma varatengingu við umheiminn. Næstbesti kosturinn væri að greiða fyrir því að einkaaðilar fjárfesti í þriðja neðansjávarkaplinum til Evrópu.