Á hátíðarfundi Alþingis á síðastliðnu ári var ákveðið að smíða nýtt hafrannsóknaskip, þjóðargjöf. Nýtt hafrannsóknaskip er mikilvægt þjóðarbúinu en ekkert kom fram um hvort gjöfin yrði „hrein“.
Fjölbreyttar eldsneytislausnir hafa verið kynntar fyrir skip á undanförnum árum og eru allar byggðar á vistvænu eldsneyti sem auðvelt er að framleiða á Íslandi. Ólíklegt verður að teljast að í framtíðinni verði „ein“ lausn fyrir skip enda þarfir fjölbreyttar. Nú þegar er Norðursigling með tvö rafmagnsskip í hvalaskoðun og nýr Herjólfur verður að miklu leyti knúinn innlendu rafmagni. Nú eru Íslendingar í dauðafæri að hefja umskiptingu á eldsneyti á sjó.
Metan, metanól, vetni og rafmagn eru kostir sem hægt er að horfa til – jafnvel samþætting á nokkrum. Metanframleiðsla mun stóraukast þegar ný gasgerðarstöð verður tekin í notkun. Vökvagert náttúrulegt gas hefur rutt sér til rúms víða og sama má gera hér. Norðmenn eru að hanna fyrstu ferjuna sem verður aðeins á vetni en hingað til hafa flest verkefni með vetni á sjó verið á höndum sjóherja mismunandi landa. Kostir metanóls eru að metanólvélar brenna einnig dísilolíu. Það eykur öryggi við notkun skipsins því enn sem komið er er dreifing vistvæns eldsneytis til skipa takmörkuð. Þurfi nýtt hafrannsóknaskip að koma í fjarlægar hafnir er mikilvægt að hægt sé að nálgast eldsneyti – og enn er dísil algengasta eldsneytið.
Fleiri en ein lausn möguleg
Áhugavert væri að flétta saman mismunandi orkuberum og þá gæti þekking á mismunandi eldsneyti aukist enn frekar á Íslandi. Oftast eru fleiri en ein aðalvél í slíku skipi sem opnar ákveðin tækifæri. Ljósavél eða -vélar gætu svo verið knúnar öðru eldsneyti. Ljóst er að framtíðin verður ekki knúin af jarðefnaeldsneyti og mikilvægt að kynna fyrir útgerðum mismunandi möguleika. Skipið nýttist þá ekki aðeins til hafrannsókna heldur einnig til fræðslu fyrir framtíðarsjófarendur. Þetta eru þekktar lausnir og orkan innlend og vistvæn.Skip endast í 30-50 ár, gefum þjóðinni ekki risaeðlu.
Höfundur er framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku.