Petrína Helga Steinadóttir fæddist í Reykjavík 27. september 1926. Hún lést á Landspítalanum 25. apríl 2019. Hún var dóttir hjónanna Steina Helgasonar og Elínar Helgadóttur. Alsystir Petrínu var Agnes G. Steinadóttir, d. 2010, og hálfsystkini Arnhildur Helga Guðmundsdóttir, d. 2013, Helgi S.V. Guðmundsson og Kristján Steinason.
Petrína giftist ung Einari Thorlacius Magnússyni sem starfaði við endurskoðun hjá Eimskip. Foreldrar hans voru sr. Magnús Guðmundsson og Rósa Thorlacius Einarsdóttir.
Petrína og Einar bjuggu í Reykjavík, lengst af í Hvassaleiti 119. Þau eignuðust fimm börn: 1) Elín, f. 1948, gift Guðmundi Inga Leifssyni, þeirra dætur eru: Helga Rut, Dóra Guðrún, Anna Kristín og Laufey Fríða. 2) Guðmundur Thorlacius, f. 1950, giftur Þórstínu Unni Aðalsteinsdóttur. Þeirra börn: Einar Thorlacius, Gerður Eva, Þórstína, lést við fæðingu, Rakel, Stefán Thorlacius og Tómas Thorlacius. 3) Rósa, f. 1952, gift Ragnari Baldurssyni. Þeirra synir eru: Baldur Hallgrímur, Pétur og Einar Helgi. 4) Steinunn, f. 1954, gift Torstein Egeland. Þeirra dætur: Elin Marie Thorlacius og Rebekka Thorlacius. 5) Magnús Thorlacius, f. 1964, d. 2015. Hann var ókvæntur og barnlaus. Barnabörnin eru alls 14 og barnabarnabörnin 27.
Petrína, sem oftast var kölluð Peta, var lengst af heimavinnandi húsmóðir. Hún gekk í húsmæðraskólann í Hveragerði, kenndi gítarleik í kvöldskóla KFUM og K og við Fóstruskóla Íslands. Petrína tók virkan þátt í bæði barna- og fullorðinsstarfi KFUM og K. Hún söng árum saman í kirkjukórum, blönduðum kórum og í kvennakór KFUK. Eftir að börnin fóru að heiman vann hún við afgreiðslustörf, m.a. í versluninni Stramma og hjá Áklæðum og gluggatjöldum. Síðustu æviárin bjó hún á Sólvangi í Hafnarfirði.
Útför Petrínu fer fram frá Grensáskirkju í dag, 3. maí 2019, klukkan 13.

Elsku mamma er dáin. Hún varð tæplega 93 ára. Ég kem til með að sakna hennar mikið. Fáir elska mann jafn heitt og móðir manns.
Mamma átti góða foreldra og talaði oft vel um þau. Eitt af því fyrsta sem mamma man eftir sér var á þjóðhátíðinni 1930, þegar pabbi hennar sat með hana í fanginu, spilandi á orgel og hún söng með, Öxar við ána. Hann hafði sagt Sko stelpuna, hún syngur svo það hljómar í öllu húsinu!
Mamma varð fyrir sinni fyrstu sorg þegar foreldrar hennar skildu þegar hún var 6 ára gömul. Það var óvenjulegt á þeim tíma og þessi  sorg fylgdi  henni alla tíð, því hún var svo náin pabba sínum. Hún fékk að vera hjá honum eitt sumar og einn vetur (7 ára) þar sem hann gat kennt henni að lesa, skrifa og reikna. Hún lýsti honum sem blíðum og góðum og eins og bestu móður.
Þegar mamma var 9-12 ára bjó hún með móður sinni, systur, tveimur hálfsystkinum og föður hálfsystkina hennar í fallegri sveit í Hornafirði. Hún lýsti tímanum þar bæði sem erfiðum, en átti líka góðar minningar þaðan um mjög fallega sveit og elskaði umgengnina við dýrin og sérstaklega hestana. Hún reið berbakt yfir jökulvötnin og fór ríðandi með nesti til fólksins í heyskapnum út á engjarnar. Þegar systurnar dvöldu í Hornafirði fengu þær bréf frá pabba sínum með hverjum pósti og þær skrifuðu tilbaka. Þegar mamma var bara 14 ára hjálpaði hún mömmu sinni að flytja aftur til Reykjavíkur.
Agga, eldri systir mömmu kynntist KFUM og K og mamma hélt hún væri að missa systur sína i þennan félagsskap. Mamma hafði hugsað sér að fara í dansskóla þegar hún kæmi til Reykjavíkur en Agga fékk hana til að prófa að koma með sér. Mamma sagði að henni hafi fundist dásamlegt að koma og sjá ungt fólk lofa Guð hispurslaust. Hafði aldrei séð slíkt fyrr, þó hún ætti sína barnatrú. Henni var tekið með mikilli hlýju. Hún og pabbi voru virkir þátttakendur í KFUM og K, Kristniboðssambandinu og í kirkjunni allt sitt líf. Tóku þátt i kórsöng og fleira.
Mamma lærði að spila á gítar, líka eftir nótum 17 ára. Ég man eftir henni spila fjórhent á gítar með þremur öðrum konum í KFUM og K. Mamma kenndi fóstrum að spila á gítar og kenndi þeim barnalög í nokkur ár. Hún spilaði líka og söng oft fyrir okkur börnin fyrir svefninn og sagði okkur líka sögur frá barnæsku sinni.
Mamma kenndi líka handavinnu i kvöldskóla KFUM og K, tvö kvöld í viku þangað til fjórða barnið (ég) kom. Henni fannst það skemmtileg vinna.
Það var draumur mömmu að verða hjúkrunarfræðingur og hún komst inn í hjúkrunarskólann. En á sama tíma kynntist hún pabba,þau sungu í sama kór í KFUM og K og voru oft samferða heim, því þau bjuggu bæði á Ásvallagötunni.  Á þeim tíma var sjaldgæft að maður væri hvortveggja heimavinnandi húsmóðir og hjúkrunarfræðingur. Hún þurfti því að afsala sér þessu tækifæri. Mamma fór einn vetur á húsmæðraskólann í Hveragerði og naut námsins sem var mjög fjölbreytt á þessum tíma.
Síðan giftist hún pabba sem var endurskoðandi hjá Eimskip. Þau eignuðust 4 börn með tveggja ára millibili og svo yngsta bróður okkar 10 árum seinna.
Það var mikil vinna að vera heimavinnandi húsmóðir með 4 börn á þessum árum. Foreldrar okkar leigðu húsnæði lengi vel á rishæð á Melhaga. Þau höfðu ekki ísskáp né þvottavél. Mamma átti stórann pott á eldavélinni sem hún gat þvegið fötin okkar í. Það var stanslaus vinna á þessum árunum, frá morgni til kvölds. Mamma saumaði yfirleitt öll fötin okkar og prjónaði peysur. Ég man vel eftir mér i fallegum kjólum og í buxnadragt, sem hún saumaði. Og lopapeysurnar sem hún prjónaði eru óteljandi. Allt sem hún prjónaði og saumaði hafði einstaklega fallegt handbragð.
Þó að veraldlegt ríkidæmi hafi ekki verið mikið fyrstu árin man ég vel eftir þegar mamma bað okkur að færa nágrönnum, sem bjuggu i bröggum heimabakaðar kökur fyrir jólin.
Þegar Magnús, yngsta barnið, var orðinn 6 ára tók mamma að sér 1-2 smábörn heima (dagmamma) í nokkur ár. Eftir það vann hún í 4 ár hjá Áklæði og gluggatjöld við að sauma gardínur og afgreiða, 4 ár við sótthreinsun hjá Landspítalanum og síðast í hannyrðaversluninni Stramma frá 60-65 aldurs. Henni líkaði alls staðar vel þar sem hún vann.
Mamma bjó alltaf til afskaplega góðan mat og var algjör snillingur í veislugerð. Ég man eftir mörgum fínum veislum heima, afmælis- fermingar- og brúðkaupsveislum. Einnig bakaði hún fyrir kaffisölur, basara og fl. Maðurinn minn biður mig sérstaklega að taka fram hvað hún skapaði alltaf góða stemningu þegar hún tók fram nestistöskuna á ferðalögum og þar var að finna alls kyns heimatilbúinn góðan mat. Það fór alltaf vel á með þeim.
Mamma var alltaf ótrúlega sterk og dugleg. Ég man eftir henni á níræðisaldri keyra og sækja eldri systur sína og hjólagrindina hennar, gefa henni mat og kaffi og síðan keyra hana til baka, eftir að frænka hafði lagt sig.
Síðan ég flutti til Noregs, giftist norskum manni, skrifuðumst við oft á og þá uppgötvaði ég hvað mamma var góður penni. Hún sagði svo lifandi frá öllu sem var að gerast heima. Einnig var mikill samgangur á milli okkar þrátt fyrir fjarlægðina. Við ferðuðumst líka saman á Íslandi og í Noregi.
Eftir að pabbi dó, 2005, hélt mamma áfram að koma til okkar og þá oft með Diddu, systur pabba. þá var alltaf hátíð í bæ.
Mamma átti lifandi trú allt lífið. Það reyndist henni vel, líka þegar á reyndi í lífinu.  Yngsti sonur hennar, Magnús, veiktist við tvítugsaldur af alvarlegum sjúkdómi  sem leiddi hann til dauða 2015 þegar hann var 50 ára. Mamma trúði á kærleiksríkan frelsarann okkar, sem veitir okkur styrk á lífsins göngu og eilíft líf  að lokum þar sem hvorki sorg, sjúkdómar né dauða er að finna.
Síðustu ár sín bjó Mamma á Sólvangi í Hafnarfirði. Þar leið henni frábærlega vel.  Hún hrósaði starfsfólkinu og var sérstaklega ánægð með matinn og allt atlæti. Fannst hún vera eins og á hóteli þegar hún gat farið með göngugrindina sína að matarborðinu og þegið alla þjónustu sem þar er í boði. Mamma var virk á Facebook og við gátum talað saman og sést á messenger. Á Sólvangi er ekki gert ráð fyrir að vistmenn noti internetið svo hún þurfti að tengjast netinu í gegnum 4G. Mamma hafði mikla ánægju af að hlusta á hljóðbækur og einnig horfði hún á dvd myndefni.  Ég var svo lánsöm að koma í heimsókn til hennar núna í byrjun apríl þar sem áttum saman gæðastundir, horfðum og hlustuðum á Requiem eftir Mozart og fórum  í bíltúr. Við töluðum saman í síma daginn áður en hún dó. Hún var þakklát og vongóð. Ég er ævinlega þakklát fyrir að hafa átt svo umhyggjusama og góða foreldra og einnig ævinlega þakklát systkinum mínum og fjölskyldunni allri á Íslandi, sem hafa annast mömmu svo vel i minni fjarlægð.






Steinunn Einarsdóttir Egeland.